Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Leðurblökur (Chiroptera) er annar tegundaauðugasti ættbálkur spendýra. Rúmlega 1.200 leðurblökutegundir eru þekktar og er það um 20% af öllum spendýrategundum. Aðeins ættbálkur nagdýra (Rodentia) er fjölmennari. Þar finnast um 2.300 tegundir sem eru um 40% þekktra spendýrategunda. Flest bendir til þess að veirur séu mun algengari í leðurblökum en öðrum spendýrategundum og eru á því ýmsar skýringar.
Þær veirur sem þarna skipta mestu máli eru svonefndar súnuveirur (e. zoonotic viruses). Hugtakið súna er aðlögun á enska orðinu zoonosis (ft. zoonoses) sem er haft um sjúkdóma sem smitast með náttúrulegum hætti á milli dýra og manna. Hugtakið er komið frá þýska lækninum Rudolf Virchow (1821-1902) sem áttaði sig einna fyrstur á því að smitsjúkdómar geta borist úr dýrum í menn. Súnuvaldar geta verið veirur, bakteríur, sveppir, sníkjudýr og einnig svonefnd príon eða prótínsmitefni. Vísindamenn fylgjast grannt með súnuveirum, til að mynda með verkefninu Global Virome Project.
Súnuveirur virðast algengari í leðurblökum en flestum öðrum dýrum.
Þrátt fyrir að leðurblökutegundir séu um helmingi færri en tegundir nagdýra hefur fundist 61 súnuveira í þeim en 68 í nagdýrum. Hlutfallslega eru leðurblökur því með mun meira af súnuveirum en nagdýr. Enn fremur hefur komið í ljós að veirur, það er bæði súnuveirur og aðrar veirur, eru að jafnaði fleiri hjá leðublökutegundum en nagdýrum. Að meðaltali finnast rúmlega fjórar tegundir af veirum hjá leðurblökum en tæplega þrjár hjá nagdýrum.
Ýmsar skýringar eru taldar vera á því að súnuveirur eru algengari í leðurblökum en í öðrum tegundum. Tilteknar veirur virðast til að mynda oftar endursmita leðurblökur miðað við sínar hliðstæður í mönnum. Þannig getur smit viðhaldist lengi hjá leðurblökum. Enn fremur virðast leðurblökur í fyrstu hafa sterkt ónæmissvar gegn veirum en að sama skapi eiga erfitt með að hreinsa veiruna úr sér. Veirur ná þannig oft að fjölga sér verulega í leðurblökunum án þess að dýrin sýkist að ráði. Þetta gæti þýtt að veirur hafi vegna áhrifa náttúrulegs vals orðið að vægari, og ef til vill þrálátari sýkingum í leðurblökum.
Leðurblökur lifa oft í mjög þéttum byggðum, þúsundir eða jafnvel milljónir einstaklinga saman. Þéttleiki á búsvæðum mexíkósku leðurblökutegundarinnar Tadarida brasiliensis mexicana getur til að mynda nálgast 1.000 leðurblökur á fermetra og um milljón einstaklingar dvelja saman á hverjum hvíldarstað.
Þessi nánd stuðlar að því að smit berst greiðlega milli einstaklinga. Búsvæði mismunandi leðurblökutegunda geta líka skarast og það eykur líkur á að veirur berist á milli tegundanna. Margar leðurblökutegundir flakka á milli sumar- og vetrarsvæða, oft um langar vegalengdir. Þannig geta þær dreift sóttkveikjum mun víðar en mörg önnur dýr. Þá má einnig nefna að miðað við stærð geta leðurblökur náð háum aldri. Til eru tegundir þar sem einstaklingar verða rúmlega 20 ára. Leðurblökur hafa því mun lengri tíma til að dreifa smiti heldur en til dæmis mörg nagdýr sem yfirleitt lifa skemur.
Leðurblökur lifa oft í mjög þéttum byggðum.. Margar tegundir ferðast líka langar leiðir. Þetta tvennt er meðal þess sem gerir þær að virkari smitberum en á við um margar aðrar dýrategundir.
Þar sem leiðir manna og leðurblaka skarast eykst hættan á að smit berist á milli, til dæmis með snertingu við eitthvað sem mengast hefur af saur, þvagi eða munnvatni. Nokkur dæmi um slíkt eru vel þekkt. Svonefnd nipah-veira, sem fyrst olli faraldi í Malasíu árið 1998, fannst til að mynda í þvagi og munnvatni leðurblöku af tegundinni Pteropus hypomelanus. Veiran hefur valdið fleiri faröldum, til að mynda í Bangladesh árið 2004. Sá faraldur var talinn tengjast neyslu á safa úr döðlupálmum sem mengaður var af völdum munnvatns eða þvags af leðurblökum.
Einnig má nefna ebóluveiruna en forðahýsill hennar er talin vera ávaxtaleðurblökur. Skyld henni er önnur svonefnd þráðveira (Filoviridae) sem kallast marburg-veira, forðahýsill hennar er afrísk ávaxtaleðurblaka (Rousettus aegyptiacus).
Annað og nærtækara dæmi er síðan COVID-19-faraldurinn sem gengur yfir heimsbyggðina alla árið 2020. Upptök veirunnar eru ekki kunn en vitað er að mögnun átti sér stað á votmarkaði í borginni Wuhan í Kína, þar sem verslun með lifandi dýr og afurðir ýmissa dýra fór fram. Veiran virðist hafa borist úr leðurblökum, trúlega um annan óþekktan millihýsil, áður en smit barst í menn og loks manna á milli.
Heimildir og frekari fróðleikur:
Spurningu Maríu er hér svarað að hluta.
Höfundar þakka Arnari Pálssyni, erfðafræðingi og prófessor í lífupplýsingafræði við HÍ, Snædísi Huld Björnsdóttur, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, og Stefáni Ragnari Jónssyni líffræðingi fyrir yfirlestur og gagnlegar ábendingar.
Jón Már Halldórsson, Jón Gunnar Þorsteinsson og Jón Magnús Jóhannesson. „Eru veirur algengari í leðurblökum en öðrum dýrum?“ Vísindavefurinn, 20. apríl 2020, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79027.
Jón Már Halldórsson, Jón Gunnar Þorsteinsson og Jón Magnús Jóhannesson. (2020, 20. apríl). Eru veirur algengari í leðurblökum en öðrum dýrum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79027
Jón Már Halldórsson, Jón Gunnar Þorsteinsson og Jón Magnús Jóhannesson. „Eru veirur algengari í leðurblökum en öðrum dýrum?“ Vísindavefurinn. 20. apr. 2020. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79027>.