
Spænska veikin er skæðasta farsótt sem sögur fara af og kostaði margar milljónir mannslífa. Frá Camp Funston í Kansas í Bandaríkjunum.
Að því er sjálfa veikina snertir, var hún mjög einkennileg og að mörgu leyti alt öðruvísi en þær inflúensu-sóttir, sem áður hafa gengið og eg hefi séð. Eg var alvanur við að sjá í fyrri sóttum barkakvef og hálsbólgur, lungnakvef og lungnabólgur, bæði bronco-pneumoníur og krúpösar, eyrnabólgur, taugaverki, uppköst og niðurgang, konur hafa misst fangs og sumir orðið hálf brjálaðir um tíma. En svo þungt lungnakvef, svo tíðar lungnabólgur sem í þessari sótt hefi eg aldrei séð. Og þessar blæðingar. Blóðið streymdi ekki aðeins úr nösum, stundum óstöðvandi, heldur og upp úr lungum, niður úr þörmum, upp úr maga og gegnum þvagrásina. Lungnabólgan kom þótt menn lægju kyrrir í rúmunum og gættu allrar varúðar. Og þótt lungnabólgan rénaði, fór hjartað að ólmast, hræðsla greip menn og kvíði, þyngsli komu og andarteppa, menn bólgnuðu í andliti, á höndum og fótum og köfnuðu að lokum. Og svo eftir alt saman urðu líkin helblá. Þetta er það, sem gerði þessa inflúensa-sótt svo einkennilega og ægilegri en aðrar inflúensa-sóttir, sem eg hefi séð. Og að hér hafi verið um mikla septiska eitrun að ræða, samfara inflúensunni, tel eg efalaust. Blæðingarnar og hjartaveiklunin benda til þess.[5]Segja má að þessi knappa lýsing Þórðar sé ein besta innlenda heimildin sem fyrir finnst um alvarleg einkenni spænsku veikinnar. Hér að ofan telur hann upp 1) Lungnasýkingar sem eru bráðar, stundum ágengar og alvarlegar. 2) Blæðingar sem koma frá lungum, meltingar- og þvagfærum. 3) Hann getur þess að algengt hafi verið að sjúklingar létust vegna öndunarbilunar og urðu líkin helblá. 4) Hann gerir einnig „septiska eitrun“ að umtalsefni, en þar er hann að vísa til einkenna blóðeitrunar, eða svonefndrar sýklasóttar sem lýsir sér gjarnan með háum hita, meðvitundarskerðingu og lostástandi. Þórður heldur síðan áfram og talar um fylgikvillana sem komu fram hjá þeim sem ekki létust strax í byrjun og segir berum orðum að fylgikvillarnir hafi valdið dauða sjúklinganna öðru fremur:
En einkanlega eru það fylgikvillarnir, sem dauða valda, en þeir eru orsakaðir af þeim bakteríum, sem eru í för með inflúenzu-bakteríunni. Skæðasta bakterían í þeirri fylgd er vanalega pneumococcus og því eru lungnabólgur svo tíðar og valda flestum dauðsföllum. En þó er líka streptococcus skæð baktería, og mér virðist, að þessi mikla „hæmorrhagiska disposition“ og hjartaveiklun í þessari sótt benda til, að streptococcus hafi víða fengið yfirhöndina og að í mörgum tilfellum hafi um hreina streptococca-eitrun verið að ræða.[6]Af þessu má skilja að inflúensan – veirusýkingin sjálf hafi valdið lungnabólgu í mörgum sjúklingum. Þórður talar sjálfur um að nálægt fjórðungur af skjólstæðingum hans hafi fengið lungnabólgu, sem líklega orsakaðist fyrst af inflúensunni sjálfri, en banvænar fylgisýkingar með bakteríum (lungnabólgubakteríur, það er svonefndir pneumokokkar og streptokokkar) fylgdu stundum í kjölfarið. Nýlegar erlendar rannsóknir renna stoðum undir þetta því rannsóknir á gömlum lífsýnum frá lungum þeirra sem létust í spænsku veikinni benda mjög oft til alvarlegrar bakteríusýkingar.[7] Athygli vekur að bakteríusýkingar í lungum virðast einnig hafa verið algengar meðal þeirra sem létust í heimsfaraldri inflúensu (svonefndri „svínaflensu“) árið 2009, sem þó var miklu vægari en spænska veikin.[8]

Börn og hjúkrunarfólk í spænsku veikinni í Reykjavík. Myndin er sennilega tekin í Barnaskólanum sem var breytt í bráðabirgðasjúkrahús.
1) Kvef-myndin: Nef- og kokkvef, án slímrenslis, kemur skyndilega og skríður ört niður í barka og gerir tracheobronchitis, og með henni hrollur, hitasótt, hósti, vanalega á fyrsta sólarhring. Næsta dag hiti um 39 st. og þar yfir. Ekkert heyrist við lungnarannsókn. Á 3. degi lækkar hiti og hóstinn verður ekki eins espur. Oft dálítill sársauki yfir neðrilungnatakmörkum að aftan og framan, við hósta. Á 4. degi hverfur hitinn, hóstinn minkar, sjúkl. líður betur. Þá heyrist vanalega fín krepitatio við lungnabasis að aftan, sem hverfur eftir 3—4 daga, legu, en fari sjúkl. á fætur strax, og reyni á sig, fær hann oft lungnabólgu. Þess vegna er afaráríðandi að fara ekki of snemma á fætur og reyna ekki á sig 2) Þarm-myndin. Sjúkd. byrjar með velgju, kuldahrolli og illri líðan, uppköstum, hósta, stundum gulu, og niðurgangi eða hægðatregðu. Hiti um 38,5 st., og sjúkl. helst ekkert niðri, uppsalan gallituð, eggjahvíta í þvagi. Eftir nokkra daga skánar sjúkl., ef lungnabólga er ekki samfara eða komin. 3) Taugamyndin : Verkir í taugum og vöðvum, mikill höfuðverkur, mest í hnakka og niður á háls, oft mikill svimi, velgja og suða fyrir eyrum, stundum uppköst. Engin ró eða svefn fyrir höfuðverknum. Hitasótt lítil sem engin fyrst. Stundum koma heilabólgueinkenni og leiða til dauða. Annars fá sjúkl. vanalega hæsi og þuran hósta 2—4 dögum eftir byrjun sjúkd., og oft endar sjúkdómsmyndin, eins og hinar 2 fyrstu, með lungnabólgu (broncho-pneumoni). 4) Lungnabólgumyndin : Frá byrjun með köldu, stundum að eins hrolli, hósta, stundum riðlituðum hráka, taki, stundum koma þau einkenni á 2—3 dögum síðar en hóstinn og hitasóttin. — Ef til vill mætti bæta við formaseptica með petechium, septiskum hita, óróleik, liða verkjum, phlebit etc., en sennilega er þó eins rétt, að telja slíkt til komplikationa. Allar þessar myndir hefi eg séð. Sú fyrsta er langalgengust, þar næst 4., síðan 2. en sú 3. er sjaldgæf.Annað sem athygli vekur er hinn ungi aldur sjúklinga sem létust af völdum veikinnar, en meiri hlutinn var á aldursbilinu 20-40 ára sem er afar óvenjulegt fyrir inflúensu almennt. Á þeim aldri er fólk oftast ólíklegt til að fá slæmar sýkingar þar sem að ónæmiskerfið er sterkt. Barnshafandi konur Í spænsku veikinni voru barnshafandi konur hér á landi líklegri til að deyja af völdum sýkingarinnar og margar misstu fóstur. Þórður Thoroddsen sinnti 27 konum sem voru mislangt komnar í meðgöngu og létust 37% þeirra.[12] Meðal barnshafandi kvenna með spænsku veikina í Bandaríkjunum á sama tíma var tilgreind dánartala 27%-45.5%[13][14] Meingerð – nokkrar kenningar Ekki er fyllilega ljóst hvað olli hinni háu dánartíðni í spænsku veikinni. Þar sem um nýja veiru var að ræða má telja líklegt að lítið hjarðónæmi hafi átt sinn þátt í því að veikin breiddist hratt út og veikindahlutfall var afar hátt (>50% víðast hvar). Hin nýja og einstaka gerð veirunnar sjálfrar, sem var að hluta til með erfðaefni frá stofnum sem helst sýkja fugla (það er fuglaflensa) hefur einnig haft sitt að segja.[15] Þessu til viðbótar hafa komið fram kenningar um að of kröftug bólguviðbrögð, það er viðbrögð ónæmiskerfisins sjálfs, hafi ráðið miklu um þau alvarlegu veikindi sem komu fram í sumum sjúklingum sem létust úr spænsku veikinni. Á ensku eru ýkt og skaðleg viðbrögð ónæmiskerfisins undir þessum kringumstæðum gjarnan nefnd „cytokine storm“, til að undirstrika að slík viðbrögð stafa af bólgumiðlum (svonefndum cytokínum og kemokínum) frá frumum sem stjórna ónæmissvari, en losun þessara bólgumiðla verður of mikil og ónæmissvarið fer úr böndunum.[16] Rannsóknir benda til að þeir sem veiktust af spænsku veikinni 1918 og náðu síðan háum aldri hafi þróað með sér kröftugt mótefnasvar ásamt ónæmisminni, sem enn var mjög virkt meira en 90 árum síðar.[17] Tilvísanir:
- ^ Thoroddsen Þ. Inflúensan fyrrum og nú. Læknablaðið 1919; 5:17-23, 33-36 og 74-79.
- ^ Sama heimild og í nr. 1.
- ^ Gottfreðsson M. Spænska veikin á Íslandi. Lærdómur í læknisfræði og sögu. Læknablaðið 2008; 94:737-45
- ^ Jóhannesson Þ. Þankabrot um spánsku veikina 1918-1919. Læknablaðið 2008; 94:768-74.
- ^ Sama heimildi og í nr. 1.
- ^ Sama heimild og í nr. 1.
- ^ Morens DM, Taubenberger JK, Fauci AS. Predominant Role of Bacterial Pneumonia as a Cause of Death in Pandemic Influenza: Implications for Pandemic Influenza Preparedness. J Infect Dis 2008; 198 (7): 962–70.
- ^ Centers for Disease Control and Prevention (CDC). Bacterial coinfections in lung tissue specimens from fatal cases of 2009 pandemic influenza A (H1N1) - United States, May-August 2009. MMWR Morb Mortal Wkly Rep. 2009;58 (38):1071-4.
- ^ Barry JM. The great influenza. The story of the deadliest pandemic in history. Penguin, New York 2004.
- ^ Sama heimild og nr. 9.
- ^ Einarsson G. Spanska veikin. Læknablaðið 1918; 4: 166-71.
- ^ Sama heimild og nr. 1.
- ^ Harris JW. Influenza occurring in pregnant women. JAMA 1919; 72:978-80.
- ^ Nuzum JW, Pilot I, Stangl FH, Bonar BE. Pandemic influenza and pneumonia in a large civilian hospital. JAMA 1918; 71:1562-5.
- ^ Worobey M, Han G-Z, Rambaut A. Genesis and pathogenesis of the 1918 pandemic H1N1 influenza A virus. Proc Natl Acad Sci USA 2014; 111(22):8107-12.
- ^ Tisoncik JR, Korth MJ, Simmons CP, Farrar J, Martin TR, Katze MG. Into the eye of the cytokine storm. Microbiol Mol Biol Rev 2012; 76: 16–32.
- ^ Yu X, Tsibane T, McGraw PA, House FS, Keefer CJ, Hicar MD, Tumpey TM, Pappas C, Perrone LA, Martinez O, Stevens J, Wilson IA, Aguilar PV, Altschuler EL, Basler CF, Crowe JE Jr. Neutralizing antibodies derived from the B cells of 1918 influenza pandemic survivors. Nature 2008; 455(7212):532.
- Emergency hospital during Influenza epidemic, Camp Funston, Kansas - NCP 1603.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 6. 11. 2018).
- Spænska veikin - 100 ár liðin | Reykjavíkurborg. Myndin er upphaflega fengin frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Ljósmyndari er óþekktur. (Sótt 14. 11. 2018).