Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er svona merkilegt við árið 1918?

Gunnar Þór Bjarnason

Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands
Enginn vafi leikur á því hvað Evrópubúum fyrir hundrað árum fannst merkilegast við árið 1918. Það var að í árslok ríkti loks friður milli stórveldanna. Í áramótahugvekju blaðsins Ísafoldar í janúarbyrjun 1919 mátti lesa þessi orð:

Árið 1918 mun jafnan verða talið með merkustu árum veraldarsögunnar fyrir þær sakir að á því slotaði hinum tröllslegasta og blóðugasta hildarleik sem sögur fara af: veraldarstyrjöldinni miklu. Sá stórmerki atburður mun ljóma varpa á það um aldir alda.[1]

Friðurinn er „stóra jólagjöfin okkar,“ skrifaði kvenréttindafrömuðurinn Bríet Bjarnhéðinsdóttir um sama leyti. „Í fyrsta sinni eftir 51 mánaðar blóðuga víga- og manndrápaöld geta menn lagst óhultir til svefns að kvöldi án þess að eiga von á að heyra hinar voðalegu fréttir um manndráp og morð þegar þeir vöknuðu.“[2]

Lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar fagnað á götum London.

Stríðið, sem við nú oftast köllum heimsstyrjöldina fyrri, skall á sumarið 1914 og þegar vopnahlé var undirritað milli Þjóðverja og bandamanna 11. nóvember 1918 lágu hátt í tíu milljónir hermanna í valnum. Þá eru ótaldar allar þær milljónir hermanna sem örkumluðust og báru þess aldrei bætur að hafa barist á vígvöllunum. Höfundur áramótahugvekjunnar í Ísafold fór ekki með neinar ýkjur – þetta var sannarlega blóðugasti hildarleikur í gervallri mannkynssögunni. En rúmum 20 árum síðar skall á önnur heimsstyrjöld, enn grimmilegri og blóðugri, og því dofnaði með tíð og tíma friðarljóminn sem lék um árið 1918.

Heimsstyrjöldin hafði mikil áhrif á Íslandi, samdráttur varð í þjóðarframleiðslu öll árin en einkum þegar leið á styrjöldina. Millilandasiglingar urðu stopulli og skortur varð á á nauðsynjum. Einkum varð kolaskortur bagalegur. Þýskir kafbátar grönduðu hátt á þriðja tug skipa í Íslandssiglingum. Snemma árs 1917 sáu yfirvöld í Reykjavík sig knúin til að skammta olíu, kol, sykur, kornmat og fleiri vörur. Lífskjör almennings, einkum í þéttbýli, versnuðu á stríðsárunum. Um tíma var óttast að fólk hér á landi kynni að svelta vegna matarskorts.

Nokkrar Evrópuþjóðir minnast ársins 1918 vegna tímamóta sem þá urðu í stjórnmálasögu þeirra. Pólverjar stofnuðu sjálfstætt ríki, sama gerðu Lettar og Litháar, einnig Tékkar og Slóvakar þegar til varð Tékkóslóvakía (sem klofnaði á árinu 1993 í Tékkland og Slóvakíu). Austurríska keisaradæmið leið undir lok og Austurríkismenn lýstu yfir stofnun lýðveldis. Þýska keisaradæmið hlaut sömu örlög og Þýskaland varð lýðveldi. Og suður á Balkanskaga varð til Konungdæmi Serba, Króata og Slóvena en áratug síðar var nafni þess breytt í Júgóslavíu. Víða um Evrópu ríkti upplausn og óvissa. Óhætt er því að segja að 1918 hafi verið sögulegt ár.

Nokkur ný ríki urðu til árið 1918.

Hið nýja konungdæmi á Balkanskaga var formlega stofnað sunnudaginn 1. desember 1918, sama dag og Íslendingar fögnuðu fullveldi við hátíðalega athöfn á Stjórnarráðstúninu við Lækjargötu í Reykjavík.

Með fullveldinu varð Ísland sjálfstætt ríki – konungsríkið Ísland. Íslendingar voru áfram í sambandi við Dani um einn og sama konung og dönsk stjórnvöld fóru með stjórn utanríkismála Íslands en í umboði Íslendinga. Annars réðu Íslendingar öllum sínum málum sjálfir. Sjálfstæðisbaráttunni við Dani var lokið. Þetta er ástæða þess að ársins 1918 er nú minnst með ýmsum hætti hér á landi. Þjóðin fagnar því að hundrað ár eru liðin frá því að Ísland varð sjálfstætt ríki.

En árið 1918 hefur orðið Íslendingum minnisstætt af öðrum ástæðum líka. Þetta var árið þegar frostaveturinn læsti klóm sínum um þjóðina, Katla gaus og spánska veikin geisaði. Þeim sem þá voru uppi urðu þessir atburðir alveg ógleymanlegir. Í hugum fólks slær þeim oft saman og margir hafa því minnst ársins 1918 sem sannkallaðs hörmungarárs. En þetta gerðist ekki allt á sama tíma og áhrifin voru mjög mismikil.

Katla fór að gjósa 12. október 1918 og stóð gosið í tæpan mánuð.

Frostaveturinn dregur nafn sitt af miklum frosthörkum í janúar 1918. Haustið 1917 hafði líka verið óvenju kalt. Í Reykjavík varð kuldinn mestur mánudaginn 21. janúar, 24,5 stiga frost. Sama dag fór frostið niður í nærri 38 stig á Grímsstöðum á Fjöllum og Möðrudalsöræfum. Er það mesti kuldi sem mælst hefur á Íslandi. En kuldaskeiðið stóð stutt. Einungis fjórum dögum síðar, föstudaginn 25. janúar, var rúmlega þriggja stiga hiti í Reykjavík. Haustið 1918 var milt og gott – enginn frostavetur þá!

Kötlugosið hófst laugardaginn 12. október og því lauk mánudaginn 4. nóvember. Þetta var stórt og mikið gos og því fylgdi gríðarlegt jökulhlaup. Víða um land varð öskufall. Reykvíkingar kölluðu 13. október „dimma sunnudaginn“ og varð mörgum minnisstætt að sjá sólina „tapa skini sínu á skýlausum himni“.[3]Í grennd við Kötlu drapst fjöldi sauðfjár, líka hross, og allmargir bæir lögðust í eyði til lengri eða skemmri tíma. En Kötlugosið varð engu fólki að fjörtjóni, ekki fremur en frostaveturinn.

Spánska veikin var mannskæðasta farsótt sögunnar og kostaði tugi milljóna mannslíf um allan heim. Mynd frá Camp Funston í Kansas í Bandaríkjunum þar sem veikin er talin hafa komið fyrst upp.

Spánska veikin var hin raunverulega „harmsaga ársins“, svo notað sé orðalag úr Ísafjarðarblaðinu Vestra.[4] Spænska veikin var mannskæð inflúensa (veirusjúkdómur) sem drap tugi milljóna manna um heim allan á árunum 1918 og 1919. Á Íslandi dóu á sjötta hundrað manns, rúmlega helmingur í Reykjavík. Þar lést fyrsti inflúensusjúklingurinn föstudaginn 1. nóvember og næstu vikur var bærinn í greipum dauðans. Um skeið komu engin blöð út og athafnalíf lamaðist, öllu skólahaldi og skemmtunum var aflýst. Vestmannaeyjar, Keflavík, Akranes og fleiri staðir urðu líka illa úti. En fjöldi látinna segir ekki alla söguna. Margir voru lengi að ná heilsu aftur eftir veikindin og sumir báru þess aldrei bætur að hafa veikst af inflúensunni illvígu. Fjölskyldur tvístruðust þegar móðir eða faðir féll frá, stundum báðir foreldrar, og börn voru tekin í fóstur af vinum, ættingjum eða vandalausum. Spænska veikin setti mark sitt á fullveldishátíðina í Reykjavík 1. desember, hún hefði ella orðið með öðrum brag.

Árið 1918 var viðburðaríkt, hvort heldur er litið til Íslands eða annarra landa. Íslendingar fögnuðu fullveldi og endalokum heimsstyrjaldarinnar fyrri. En þjóðin hafði orðið fyrir miklum skakkaföllum af völdum heimsófriðarins og margir áttu um sárt að binda eftir spænsku veikina.

Tilvísanir:
  1. ^ Við áramótin“, Ísafold 4. janúar 1919. Stafsetning í beinum tilvitnunum og greinamerkjasetning hafa verið færð til nútímahorfs.
  2. ^ „Friður“, Kvennablaðið 30. desember 1918.
  3. ^ „Katla er hætt að gjósa“, Vísir 23. nóvember 1918 og Sigurður Nordal, „1. desember 1918“, Lesbók Morgunblaðsins 1. desember 1968.
  4. ^ „Árið 1918“, Vestri 24. desember 1918.

Heimildir, lesefni og myndir:

Höfundur

Gunnar Þór Bjarnason

sagnfræðingur

Útgáfudagur

13.4.2018

Síðast uppfært

24.1.2020

Spyrjandi

Júlía Ásgeirsdóttir

Tilvísun

Gunnar Þór Bjarnason. „Hvað er svona merkilegt við árið 1918?“ Vísindavefurinn, 13. apríl 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75585.

Gunnar Þór Bjarnason. (2018, 13. apríl). Hvað er svona merkilegt við árið 1918? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75585

Gunnar Þór Bjarnason. „Hvað er svona merkilegt við árið 1918?“ Vísindavefurinn. 13. apr. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75585>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er svona merkilegt við árið 1918?
Enginn vafi leikur á því hvað Evrópubúum fyrir hundrað árum fannst merkilegast við árið 1918. Það var að í árslok ríkti loks friður milli stórveldanna. Í áramótahugvekju blaðsins Ísafoldar í janúarbyrjun 1919 mátti lesa þessi orð:

Árið 1918 mun jafnan verða talið með merkustu árum veraldarsögunnar fyrir þær sakir að á því slotaði hinum tröllslegasta og blóðugasta hildarleik sem sögur fara af: veraldarstyrjöldinni miklu. Sá stórmerki atburður mun ljóma varpa á það um aldir alda.[1]

Friðurinn er „stóra jólagjöfin okkar,“ skrifaði kvenréttindafrömuðurinn Bríet Bjarnhéðinsdóttir um sama leyti. „Í fyrsta sinni eftir 51 mánaðar blóðuga víga- og manndrápaöld geta menn lagst óhultir til svefns að kvöldi án þess að eiga von á að heyra hinar voðalegu fréttir um manndráp og morð þegar þeir vöknuðu.“[2]

Lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar fagnað á götum London.

Stríðið, sem við nú oftast köllum heimsstyrjöldina fyrri, skall á sumarið 1914 og þegar vopnahlé var undirritað milli Þjóðverja og bandamanna 11. nóvember 1918 lágu hátt í tíu milljónir hermanna í valnum. Þá eru ótaldar allar þær milljónir hermanna sem örkumluðust og báru þess aldrei bætur að hafa barist á vígvöllunum. Höfundur áramótahugvekjunnar í Ísafold fór ekki með neinar ýkjur – þetta var sannarlega blóðugasti hildarleikur í gervallri mannkynssögunni. En rúmum 20 árum síðar skall á önnur heimsstyrjöld, enn grimmilegri og blóðugri, og því dofnaði með tíð og tíma friðarljóminn sem lék um árið 1918.

Heimsstyrjöldin hafði mikil áhrif á Íslandi, samdráttur varð í þjóðarframleiðslu öll árin en einkum þegar leið á styrjöldina. Millilandasiglingar urðu stopulli og skortur varð á á nauðsynjum. Einkum varð kolaskortur bagalegur. Þýskir kafbátar grönduðu hátt á þriðja tug skipa í Íslandssiglingum. Snemma árs 1917 sáu yfirvöld í Reykjavík sig knúin til að skammta olíu, kol, sykur, kornmat og fleiri vörur. Lífskjör almennings, einkum í þéttbýli, versnuðu á stríðsárunum. Um tíma var óttast að fólk hér á landi kynni að svelta vegna matarskorts.

Nokkrar Evrópuþjóðir minnast ársins 1918 vegna tímamóta sem þá urðu í stjórnmálasögu þeirra. Pólverjar stofnuðu sjálfstætt ríki, sama gerðu Lettar og Litháar, einnig Tékkar og Slóvakar þegar til varð Tékkóslóvakía (sem klofnaði á árinu 1993 í Tékkland og Slóvakíu). Austurríska keisaradæmið leið undir lok og Austurríkismenn lýstu yfir stofnun lýðveldis. Þýska keisaradæmið hlaut sömu örlög og Þýskaland varð lýðveldi. Og suður á Balkanskaga varð til Konungdæmi Serba, Króata og Slóvena en áratug síðar var nafni þess breytt í Júgóslavíu. Víða um Evrópu ríkti upplausn og óvissa. Óhætt er því að segja að 1918 hafi verið sögulegt ár.

Nokkur ný ríki urðu til árið 1918.

Hið nýja konungdæmi á Balkanskaga var formlega stofnað sunnudaginn 1. desember 1918, sama dag og Íslendingar fögnuðu fullveldi við hátíðalega athöfn á Stjórnarráðstúninu við Lækjargötu í Reykjavík.

Með fullveldinu varð Ísland sjálfstætt ríki – konungsríkið Ísland. Íslendingar voru áfram í sambandi við Dani um einn og sama konung og dönsk stjórnvöld fóru með stjórn utanríkismála Íslands en í umboði Íslendinga. Annars réðu Íslendingar öllum sínum málum sjálfir. Sjálfstæðisbaráttunni við Dani var lokið. Þetta er ástæða þess að ársins 1918 er nú minnst með ýmsum hætti hér á landi. Þjóðin fagnar því að hundrað ár eru liðin frá því að Ísland varð sjálfstætt ríki.

En árið 1918 hefur orðið Íslendingum minnisstætt af öðrum ástæðum líka. Þetta var árið þegar frostaveturinn læsti klóm sínum um þjóðina, Katla gaus og spánska veikin geisaði. Þeim sem þá voru uppi urðu þessir atburðir alveg ógleymanlegir. Í hugum fólks slær þeim oft saman og margir hafa því minnst ársins 1918 sem sannkallaðs hörmungarárs. En þetta gerðist ekki allt á sama tíma og áhrifin voru mjög mismikil.

Katla fór að gjósa 12. október 1918 og stóð gosið í tæpan mánuð.

Frostaveturinn dregur nafn sitt af miklum frosthörkum í janúar 1918. Haustið 1917 hafði líka verið óvenju kalt. Í Reykjavík varð kuldinn mestur mánudaginn 21. janúar, 24,5 stiga frost. Sama dag fór frostið niður í nærri 38 stig á Grímsstöðum á Fjöllum og Möðrudalsöræfum. Er það mesti kuldi sem mælst hefur á Íslandi. En kuldaskeiðið stóð stutt. Einungis fjórum dögum síðar, föstudaginn 25. janúar, var rúmlega þriggja stiga hiti í Reykjavík. Haustið 1918 var milt og gott – enginn frostavetur þá!

Kötlugosið hófst laugardaginn 12. október og því lauk mánudaginn 4. nóvember. Þetta var stórt og mikið gos og því fylgdi gríðarlegt jökulhlaup. Víða um land varð öskufall. Reykvíkingar kölluðu 13. október „dimma sunnudaginn“ og varð mörgum minnisstætt að sjá sólina „tapa skini sínu á skýlausum himni“.[3]Í grennd við Kötlu drapst fjöldi sauðfjár, líka hross, og allmargir bæir lögðust í eyði til lengri eða skemmri tíma. En Kötlugosið varð engu fólki að fjörtjóni, ekki fremur en frostaveturinn.

Spánska veikin var mannskæðasta farsótt sögunnar og kostaði tugi milljóna mannslíf um allan heim. Mynd frá Camp Funston í Kansas í Bandaríkjunum þar sem veikin er talin hafa komið fyrst upp.

Spánska veikin var hin raunverulega „harmsaga ársins“, svo notað sé orðalag úr Ísafjarðarblaðinu Vestra.[4] Spænska veikin var mannskæð inflúensa (veirusjúkdómur) sem drap tugi milljóna manna um heim allan á árunum 1918 og 1919. Á Íslandi dóu á sjötta hundrað manns, rúmlega helmingur í Reykjavík. Þar lést fyrsti inflúensusjúklingurinn föstudaginn 1. nóvember og næstu vikur var bærinn í greipum dauðans. Um skeið komu engin blöð út og athafnalíf lamaðist, öllu skólahaldi og skemmtunum var aflýst. Vestmannaeyjar, Keflavík, Akranes og fleiri staðir urðu líka illa úti. En fjöldi látinna segir ekki alla söguna. Margir voru lengi að ná heilsu aftur eftir veikindin og sumir báru þess aldrei bætur að hafa veikst af inflúensunni illvígu. Fjölskyldur tvístruðust þegar móðir eða faðir féll frá, stundum báðir foreldrar, og börn voru tekin í fóstur af vinum, ættingjum eða vandalausum. Spænska veikin setti mark sitt á fullveldishátíðina í Reykjavík 1. desember, hún hefði ella orðið með öðrum brag.

Árið 1918 var viðburðaríkt, hvort heldur er litið til Íslands eða annarra landa. Íslendingar fögnuðu fullveldi og endalokum heimsstyrjaldarinnar fyrri. En þjóðin hafði orðið fyrir miklum skakkaföllum af völdum heimsófriðarins og margir áttu um sárt að binda eftir spænsku veikina.

Tilvísanir:
  1. ^ Við áramótin“, Ísafold 4. janúar 1919. Stafsetning í beinum tilvitnunum og greinamerkjasetning hafa verið færð til nútímahorfs.
  2. ^ „Friður“, Kvennablaðið 30. desember 1918.
  3. ^ „Katla er hætt að gjósa“, Vísir 23. nóvember 1918 og Sigurður Nordal, „1. desember 1918“, Lesbók Morgunblaðsins 1. desember 1968.
  4. ^ „Árið 1918“, Vestri 24. desember 1918.

Heimildir, lesefni og myndir:

...