Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Janúarmánuður var langkaldasti mánuður frostavetursins 1918, svo kaldur að hann stendur einn undir nafngiftinni. Mjög eindregin norðanátt var ríkjandi í mánuðinum og hún var venju fremur köld vegna þess að sérlega mikill hafís var í norðurhöfum, bæði í Austur-Grænlandsstraumnum og í Barentshafi.
Haustið 1917 var óvenjukalt á landinu. Í Reykjavík var það eitt af þremur köldustu haustum frá upphafi mælinga. Ámóta kalt var haustin 1880 og 1981. Veturinn 1880 til 1881 var enn kaldari heldur en frostaveturinn 1917 til 1918, en veturinn 1981 til 1982 var ekkert sérlega kaldur, rétt undir meðallagi. Á Akureyri var haustið 1917 það kaldasta síðan mælingar hófust, ekki var mælt haustið 1880. Desember 1917 var með kaldara móti.
Janúar 1918 er kaldasti mánuður á Íslandi á 20. öld og ekki hefur enn orðið jafnkalt það sem af er þeirri 21. Vitað er um fáeina ámóta eða kaldari mánuði á 19. öld. Mikill hafís var fyrir Norðurlandi, en hann entist ekki lengi því febrúarvindar reyndust honum erfiðir. Mikil hæð var við landið í upphafi mánaðarins en hún flutti sig fljótlega yfir til Grænlands.
Aðalkuldakastið hófst um þrettándann (6. janúar) og stóð tæpar þrjár vikur á Suðurlandi en út mánuðinn fyrir norðan. Framan af var heldur hvassviðrasamt, en um 20. var vindur orðinn hægur og þá urðu mestu kuldarnir á flestum stöðvum. Febrúar var kaldur, en langt frá meti, og mars var frekar hlýr.
Þótt norðanáttin hafi verið með eindregnasta móti hafa þó komið mánuðir þar sem hún hefur verið samfelldari og sterkari. Norðanáttin er langkaldasta vindátt á Íslandi. Þá blæs vindur beint frá hafíssvæðinu við Austur-Grænland. Þótt mælingar frá hafsvæðunum norðan við land hafi verið af mjög skornum skammti veturinn 1918 má þó ráða að vindurinn hefur fylgt austurströnd Grænlands allt frá Íshafinu norðan Grænlands og Svalbarða. Auk þess var óvenjumikill ís í norðurhöfum. Loftstraumar, sem undir öllum venjulegum kringumstæðum eiga leið um opið haf, blésu 1918 yfir ísiþakin hafsvæði. Norðaustanáttin hefur því einnig verið kaldari 1918 en venjulega og hefur líklega haft áhrif á hitafarið.
Hvalreki varð á Skagaströnd í janúar 1918, frostaveturinn mikla. Hvalurinn varð innlyksa í ísnum á Húnaflóa. Hér er hann dauður og snýr þaninn kviðurinn upp. Evald Hemmert, kaupmaður á Skagaströnd, tók myndina.
Norðmenn stunduðu miklar selveiðar í hafísnum austan Grænlands allt frá miðri 19. öld og hvalveiðar hafa verið stundaðar á svæðinu allt frá 17. öld. Því eru allgóðar upplýsingar til um útbreiðslu íssins á þessu tímabili, sérstaklega eftir að selveiðin varð mikil. Hún fór fram á þeim tíma árs sem ísinn er mestur, síðla vetrar og á vorin. Norðmaður að nafni Torgny Vinje hefur tekið upplýsingarnar saman og búið til úr þeim mælitölur um ísmagnið. Þar má sjá að árin 1917 og 1918 skera sig nokkuð úr hvað ísmagn á 20. öld varðar. Á árinu 1917 náði ísútbreiðsla í Barentshafi 1,5 milljón ferkílómetrum, því mesta frá 1881, og í apríl 1917 var útbreiðsla Austur-Grænlandsíssins um 900 þúsund ferkílómetrar. Veturinn 1918 náði síðarnefndi ísinn milljón ferkílómetrum. Það var það mesta frá 1896. Hvorug Vinjetalan hefur orðið jafnhá síðan. A-Grænlandstalan komst þó nærri því eins hátt 1969 og árið 1942 vantaði Barentshafstöluna rúmlega hundrað þúsund ferkílómetra upp á töluna 1917, en hefur ekki orðið meiri síðan. Af þessu má sjá hversu óvenjulegt ástandið hefur verið. Talið er að Barentsísinn og Austur-Grænlandsísinn hafi stöku sinnum náð saman sunnan Svalbarða á 19. öld og fyrr. Þá gat þó verið auður sjór við vesturströnd Svalbarða. Talið er að þessi sameining ísasvæðanna hafi síðast orðið 1917 og ef til vill 1918.
En hvers vegna var svona mikið af ís 1917 og 1918? Því er ekki auðsvarað, en þó má geta þess að árin 1915 og 1917 var loftþrýstingur með allra hæsta móti á Íslandi, árið 1915 sá hæsti frá 1878, en litlu lægri 1917. Síðan var hann nærri því eins hár 1941, 1965, 1968 og 1985. Háþrýstitímabilið frá 1915 til 1919 er einnig sérstakt að því leyti að það kom eins og skammvinnt afbrigði inn í mitt tímabil þegar þrýstingur var almennt lágur. Lágþrýstitímabilið stóð í aðaldráttum frá 1903 og fram á miðjan þriðja áratuginn.
Auðvelt er að ímynda sér að ísaárið 1881 og árin þar á eftir hafi fylgt þrýstihámarkinu 1878, ísinn 1917 til 1918 þrýstihámarkinu á árunum 1915 til 1917 og ísárin 1965 til 1971 hámarkinu á árunum 1963 til 1968. Árin 1941 til 1942 voru víða köldustu ár 20. aldar um norðanverða Evrópu en hér var þá hlýtt. Sé vel að gáð var einmitt íshámark við Ísland á árunum 1943 til 1944 og sömuleiðis var Vinjetala vorsins 1986 sú hæsta eftir 1969, rétt yfir 1979 þótt ís væri lítill við Ísland.
Þessar staðreyndir benda til þess að langvinnur háþrýstingur á Íslandi ýti undir ísmyndun í norðurhöfum, ekki aðeins við Austur-Grænland, heldur einnig í Barentshafi.
Hér hafa verið leiddar líkur að því að janúar 1918 hafi frekar verið þáttur í nokkurra ára langri atburðakeðju fremur en einstakur, afbrigðilegur mánuður. Ámóta atburðakeðja nú á tímum myndi sennilega valda ískomu og kulda á Íslandi, en trúlega þyrfti enn lengri undirbúning til að búa til ámóta ísmagn og var fyrir hendi haustið 1917. Ástæða þess er ísarýrð í norðurhöfum. Langvinn frost, eins og gerði í janúar 1918, eru því ólíklegri nú heldur en áður.
En ísakaflanum 1918 lauk mjög snögglega. Í janúar leit jafnvel út fyrir að ísinn myndi ráðast vestur með öllu Suðurlandi eins og gerðist stundum á 19. öld (og síðast 1902), en í febrúar skipti mjög um veðurlag. Þá voru tíðir austan- og suðaustanstormar sem hröktu ísinn ótrúlega hratt frá landinu og þjöppuðu honum saman. Ís var með meira móti við SV-Grænland næstu ár á eftir, en ekki mikill við Ísland.
Lesa má meira um kuldakastið 1918 á vef Veðurstofunnar:
Trausti Jónsson. „Hvað olli frostavetrinum mikla 1918?“ Vísindavefurinn, 18. febrúar 2010, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=54682.
Trausti Jónsson. (2010, 18. febrúar). Hvað olli frostavetrinum mikla 1918? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=54682
Trausti Jónsson. „Hvað olli frostavetrinum mikla 1918?“ Vísindavefurinn. 18. feb. 2010. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=54682>.