21. janúar 1918 á Grímsstöðum
Sigurður Kristjánsson á Grímsstöðum var samviskusamur athugunarmaður, þótt hann læsi oftast af mælunum með aðeins einnar gráðu nákvæmni. Nafni hans Haraldsson í Möðrudal rækti einnig starf sitt af kostgæfni, en hafði ekki lágmarksmæli. Hann las líka undantekningalítið af með aðeins einnar gráðu nákvæmni. Reglulegur samanburður mælanna á Grímsstöðum gefur til kynna að lágmarksmælirinn hafi að jafnaði sýnt 1,0 gráðu of lágan hita. Töflur dönsku veðurstofunnar sýna að þurri mælirinn hafi verið 0,1 stigi of lágur. Klukkan 8 að morgni þess 21. janúar gerði Sigurður á Grímsstöðum eftirfarandi mælingu: Þurri mælirinn sýndi 36,0 stiga frost, sprittstaða lágmarksmælisins var 38 stiga frost og lágmarkið 38 stig. Í árbók dönsku veðurstofunnar, Meteorologisk Aarbog 1918, eru þessar mælingar birtar leiðréttar: Þurr hitamælir: -35,9°C, lágmark: -37,0°C. Mismunur á sprittstöðu lágmarksmælis og þurrum hita var 2,0 stig þennan morgun eins og sjá má. Rými er fyrir leiðréttingu allt að tveimur stigum. Klukkan 14 var hitinn kominn niður í -36,5° (prentað sem -36,4° í árbókinni) og kl. 21 var hitinn aftur -36,0. Morguninn eftir (þann 22.) var hitinn kominn upp í -22,0°, en sprittstaða lágmarksmælis var -23,5°. Mismunurinn er 1,5°. Sigurður skynjaði mikilvægi augnabliksins og las hann því lágmarkið með óvenju mikilli nákvæmni sem -38,9°C. Danska veðurstofan bætir síðan hinni venjulegu 1 gráðu við og fær út -37,9°C og það hefur lengst af staðið sem íslenskt lágmarksmet. Vel má vera að það sé nákvæmlega rétt. Dálítið erfitt er að segja hvað klukkan hefur verið þegar metið var sett en af athugunartímunum var hitinn lægstur klukkan 14. Þar sem aflestur á lágmarksmælinn á Grímsstöðum fór fram þann 22. er metið stundum talið vera frá þeim degi.21. janúar 1918 í Möðrudal
Víkur nú sögu að Sigurði í Möðrudal. Hann hafði ekki lágmarksmæli og las oftast með einnar gráðu nákvæmni af sínum mæli sem sýndi 38 stiga frost kl. 8 að morgni þann 21. þegar hitinn á Grímsstöðum var -36 stig. Hitinn kl. 14 var einnig -38 stig og -37,5° (takið eftir nákvæmninni) kl. 21. Danska veðurstofan birti aldrei lægsta hita á stöðvum þar sem ekki voru lágmarksmælar og Möðrudalsathugunina er því ekki að finna í árbókunum. Hún duldist því mönnum þar til danska veðurstofan af rausn gaf Veðurstofu Íslands frumritin. Í þeim má sjá að hitamælirinn í Möðrudal var talinn réttur. Það er dálítið klaufalegt að telja Íslandsmet -37,9° þegar mæling upp á -38,0° er til (og það á tveimur athugunartímum). Þykir því rétt að telja metið frá báðum stöðvum sem -38,0° (kannski ætti að sleppa kommunni). Því er hins vegar ekki að neita að það er auðvitað hugsanlegt að lágmark í Möðrudal hafi verið lítillega lægra, en jafnlíklegt er að þessi 38 stig hafi kannski í raun verið til dæmis 37,8 eða 38,2 (rúnnuð af í 38)? Er hægt að treysta samanburði á sprittstöðu og kvikasilfuraflestri niðri undir frostmarki kvikasilfurs? Myndir:- Greinar | Fróðleikur | Veðurstofa Íslands. (Sótt 19.01.2018).
- Pixhere.com. (Sótt 12. 1. 2018).
Þetta svar er stytt útgáfa af pistli um lægsta hiti á Íslandi sem finna má á vef Veðurstofu Íslands. Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér hann í heild sinni.