Nokkrir hópar eiga frekar á hættu að fá lungnabólgu en aðrir, til dæmis þeir sem misst hafa miltað og veikt roskið fólk. Aðrir áhættuhópar eru sjúklingar með langvinna sjúkdóma, til dæmis sykursýki, hjarta- eða lungnasjúkdóma, þeir sem eru með skert ónæmiskerfi, alkóhólistar og börn, sérstaklega langveik börn. Ef miltað hefur verið fjarlægt, til dæmis eftir slys, er mikilvægt að bólusett sé við lungnahnettlubakteríunni. Bólusetningin dregur úr líkum á að viðkomandi fái lungnabólgu af þessari tegund. Sprautan er virk í um það bil 5 ár. Rosknu fólki (eldra en 65 ára) er ráðlagt að láta bólusetja sig ef það hefur einhvern undirliggjandi sjúkdóm, til dæmis sykursýki, hjarta- eða lungnasjúkdóma. Ef kvef varir óvenjulengi og vart verður við einhver af þeim einkennum sem nefnd voru hér að ofan skal leita læknis. Brýnt er að sjúklingar greini frá ferðalögum (utanlandsferðum) í tengslum við veikindi því smit erlendis frá kallar stundum á annars konar meðferð. Greining á lungnabólgu byggist á sjúkrasögu, sjúkdómseinkennum og skoðun. Læknirinn hlustar lungun með hlustunarpípu og leitar er eftir óeðlilegum öndunarhljóðum. Til frekari greiningar er tekin lungnamynd. Gott er að fá hrákasýni til smásjárskoðunar og ræktunar. Það gefur nákvæmari sjúkdómsgreiningu og auðveldar val á sýklalyfi. Flestar lungnahnettlur eru næmar fyrir penisilíni. Sjúkdómsferillinn er háður því hvernig ónæmiskerfið bregst við og er því einstaklingsbundið. Endurteknar og langvarandi lungnabólgur hjá rosknu fólki geta verið merki um undirliggjandi sjúkdóm, til dæmis lungnakrabbamein. Þegar lungnabólgan er upprætt finnur viðkomandi oft fyrir þreytu og skertu úthaldi í allt að 2-3 vikur. Mynd:
- Pneumonia á Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 27.9.2007).
Þetta svar er lítillega breyttur pistill af Doktor.is og birt með góðfúslegu leyfi.