Einkenni svínainflúensu hafa verið svipuð og einkennin af völdum árstíðarbundinnar inflúensu, sem eru skyndilegur hiti, vöðvaverkir og einkenni frá öndunarfærum. Einkenni svínainflúensunnar í Mexíkó virðast vera skæðari en annars staðar. Oftast smitast einungis þeir einstaklingar af svínainflúensu sem eru í tengslum við svín. Af og til hefur smit borist manna á milli en það er afar sjaldgæft. Smit berst ekki með neyslu svínakjöts. Það er því óvenjulegt að svínainflúensan, sem núna gengur í Mexíkó og Bandaríkjunum, virðist smita greiðlega manna á milli. Bóluefni sem ver svín gegn svínainflúensu er til en ekki sértækt bóluefni fyrir menn til að verjast svínainflúensu. Viss samsvörun er á milli H1N1 í mönnum og nýju H1N1 svínainflúensunnar. Inflúensubóluefnið sem er notað hér á landi beinist gegn H1N1 og því er hugsanlegt að það geti veitt einhverja vörn gegn svínainflúensu en það er þó ekki vitað og þarf að rannsaka nánar. Svínainflúensan sem nú geisar í Banaríkjunum og Mexíkó er næm fyrir veirulyfjunum Tamiflu (oseltamivir) og Relenza (zanamivir) en ónæm fyrir amantidín-lyfjum. Á Íslandi eru til lyfjabirgðir af Tamiflu og Relenza fyrir þriðjung þjóðarinnar. Ný svínainflúensuveira sem nú hefur greinst í mörgum ríkjum Bandaríkjanna og í Mexíkó inniheldur erfðaefni frá svína-, fugla- og mannainflúensu. Veiran berst að því er virðist frá manni til manns og virðist valda skæðum sjúkdómi í Mexíkó en vægum sjúkdómi í Bandaríkjunum. Faraldarnir í Bandaríkjunum og Mexíkó eru þess vegna áhyggjuefni. Ekki er útilokað að veiran geti borist hingað til lands með ferðamönnum. Þetta svar er fengið af heimasíðu Landlæknisembættisins og birt með góðfúslegu leyfi. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað er inflúensa? eftir Gunnar Björn Gunnarsson
- Getur maður dáið úr fuglaflensu? eftir Landlæknisembættið og Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Getur fuglaflensuveiran borist úr fugli í gæludýr og þaðan í menn? eftir Jarle Reiersen
- courant.com. Sótt 27.4.2009.