Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er vitað um gos í Grímsvötnum sem verða utan Grímsvatnaöskjunnar?

Magnús Tumi Guðmundsson, Guðrún Larsen og Þorvaldur Þórðarson

Goshættir í Grímsvatnakerfinu ráðast mjög af umhverfisaðstæðum. Mestu munar hvort gosin verða innan Vatnajökuls, þar sem áhrif utanaðkomandi vatns eru ráðandi, eða á gosreininni utan hans, þar sem hegðunin ræðst mest af samsetningu og eiginleikum kvikunnar. Jafnframt hafa gos innan Grímsvatnaöskjunnar ákveðin einkenni, og gos utan hennar en undir jökli, enn önnur. Sérstaklega er fjallað um gos innan Grímsvatnaöskjunnar í svari við spurningunni Hvers konar gos verða í Grímsvötnum? Í þessu svari verður gerð grein fyrir atburðum utan Grímsvatnaöskjunnar, annars vegar þeim sem verða undir jökli og hins vegar þeim sem verða á jökulvana hluta gosreinarinnar.

Gos undir jökli utan Grímsvatnaöskjunnar

Á gosreininni norðan Grímsvatna virðist gjósa einu sinni til tvisvar á öld. Þessi gos eru margfalt stærri en venjuleg Grímsvatnagos. Gosin tvö í Gjálp á 20. öld, það er 1938 og 1996, eru af þessari gerð.[1] Gosin norðan Grímsvatna koma upp um nokkurra kílómetra langar sprungur og undir þykkum jökli. Þau eiga það sammerkt að hafa valdið stórhlaupum á Skeiðarársandi, þegar bræðsluvatnið brýst fram eftir að hafa safnast fyrir í Grímsvötnum. Gosið í Gjálp 1938 náði að öllum líkindum aldrei til yfirborðs, en gosið 1996 bræddi sig gegnum 550 metra þykkan jökul á um 30 klukkustundum. Í Gjálpargosinu 1996 komu upp um 0,45 rúmkílómetrar af kviku og 1938 um 0,3.[2] Gosvirknin á þessu svæði er mjög athyglisverð því að í gosunum hafa myndast móbergshryggir, beinar hliðstæður hryggjanna sem urðu til í gosum undir jöklum á jökulskeiðum.

Eldgos á ísilögðum hluta sprungusveimsins við Grímsvötn. (Gjálpargosið 1996). Gosið hófst undir ~700 m þykkum jökli og bræddi sig í gegnum hann á 30 klst. Lítið tætigos stóð yfir í 12 daga. Bræðsluvatnið safnaðist fyrir í Grímsvötnum í 35 daga og varð þá mikið jökulhlaup sem olli skemmdum á vegum og brúm. Mynd frá 12. október 1996.

Á síðustu öldum hefur nokkrum sinnum gosið undir jökli suðvestan Grímsvatna, síðast 1903 þegar gos kom upp nærri Þórðarhyrnu. Það gos var heldur stærra en algengast er með Grímsvatnagos, en efnasamsetning gjóskunnar var sú sama og í Grímsvötnum.[3] Sennilegt er að einnig hafi gosið nærri Þórðarhyrnu 1887. Árið 1753 gaus líklega einhvers staðar suðvestur af Þórðarhyrnu og því fylgdi mikið hlaup í Djúpá, auk þess sem vöxtur kom í Hverfisfljót og Skaftá.[4]

Goshættir á sprungureininni suðvestan Vatnajökuls

Sprungurein Grímsvatnakerfisins suðvestan Vatnajökuls ber öll merki þess að vera ung og lítið þróuð. Aðeins er vitað um fjögur gos (hugsanlega sex) á reininni frá því að jöklar hurfu af svæðinu, og eina sögulega gosið eru Skaftáreldar. Lakagígar eru 27 kílómetra löng gígaröð sem varð til í þessum miklu náttúruhamförum og teygir sig frá jökulrönd í krikanum milli Síðujökuls og Skaftárjökuls gegnum móbergsfjallið Laka og að fjallinu Hnútu rétt neðan við upptök Skaftárgljúfurs. Gígaröðin liggur í 200-500 metra breiðum samsettum sigdal sem nú er að mestu hulinn hrauni og gjósku, en sést greinilega í fjallinu Laka. Á henni eru 140 gígar og eldvörp af ýmsu tagi sem raða sér á tíu 1,5-5 kílómetra langar skástígar sprungur.[5]

Lakagígar eru 27 kílómetra löng gígaröð sem varð til í Skaftáreldum.

Sjálft gosið, Skaftáreldar, stóð í átta mánuði og var hluti af tveggja ára löngum umbrotum á Grímsvatnakerfinu sem stóðu yfir frá maí 1783 til maí 1785. Í þessum umbrotum varð að minnsta kosti tíu sinnum vart við elda í Grímsvötnum, bæði fyrir, samtímis og eftir Skaftárelda, og þar kraumaði eldvirkni fram á árið 1785.[6] Skaftáreldar eru annað mesta flæðigos jarðar á sögulegum tíma, á eftir Eldgjárgosinu 934.[7] Gosið gekk á með hrinum, og urðu alls tíu, þar sem hver þeirra hófst með gosi í nýjum sprunguhluta, samhliða jarðskjálftum. Upphafsfasi var yfirleitt sprengigos sem stóð frá nokkrum klukkustundum upp í nokkra daga. Flæðigosið í hverri hrinu var mun langvinnara og stóð í vikur eða mánuði. Gosefnin eru þróað basalt, kvarts þóleiít, sömu gerðar og kvikan sem kemur upp í Grímsvatnagosum.[8]

Frá Lakagígum rann Skaftáreldahraunið allt að 65 kílómetra og þekur nú um 600 ferkílómetra lands. Magn þess hefur verið metið nálægt 15 rúmkílómetrum.[9] Hraunbreiðan er samsett úr hellu- og klumpahraunum og með flæðimynstri sem sýnir að innrænt flæði og hraunbelging var mikilvægur þáttur í myndun þeirra.[10] Gervigígar eru algengir í Eldhrauninu eins og í fleiri hraunum á þessu svæði.[11] Alls eru sextán gervigígasvæði þekkt innan Skaftáreldahraunsins. Tvö þeirra státa af stærstu gervigígum jarðar. Í gervigígasvæðinu norðan Innri-Eyrar er stærsti gígurinn um 450 metrar í þvermál og er aðeins skákað af gervigígnum sem stendur upp úr hraunbreiðunni norður af Eyrarhólma sem er 800-1000 metrar í þvermál.[12]

Tilvísanir:
  1. ^ Magnús T. Guðmundsson og fleiri, 1997. Ice-volcano interaction of the 1996 Gjálp subglacial eruption, Vatnajökull, Iceland. Nature, 389, 954-957. Magnús T. Guðmundsson og Helgi Björnsson, 1991.
  2. ^ Magnús T. Guðmundsson, 2005.
  3. ^ Karl Gröndvold og Haukur Jóhannesson, 1984.
  4. ^ Sigurður Þórarinsson, 1974.
  5. ^ Thordarson, T. og S. Self, 1993. The Laki (Skaftár Fires) and Grímsvötn eruptions in 1783-1785. Bulletin of Volcanology, 55, 233-263.
  6. ^ Þorvaldur Þórðarson, 1991. Skaftáreldar 1783-1785. Gjóskan og framvinda gossins (4. árs ritgerð í jarðfræði við Háskóla Íslands). Háskólaútgáfan og Raunvísindadeild, jarðfræðiskor. Þorvaldur Þórðarson og fleiri, 2003a.
  7. ^ Guðrún Larsen, 2000. Holocene eruptions within the Katla volcanic system, south Icleland: Characteristics and environmental impct. Jökull, 49, 1-28. Þorvaldur Þórðarson og fleiri, 2001. New estimates of sulfur degassing and athmospheric massloading y the 934 AD Eldgjá eruption, Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research, 108(1-4), 33-54.
  8. ^ Thordarson og Self, 1993.
  9. ^ Þorvaldur Þórðarson, 1991. Þorvaldur Þórðarson og fleiri, 2003a.
  10. ^ Þorvaldur Þórðarson og fleiri, 2003b. Sulphur release from flood lava eruptions in the Veidivötn, Grímsvötn and Katla volcano systems, Iceland. Volcanic Degassing (C. Oppenheimer, D. M. Pyle og J. Barclay ritstjórar.) Geological Society Special Publications, 231. The Geological Society, London, 103-121. Guilbaud og fleiri, 2005. Morphology, surface structure, and emplacement of lavas produced by Laki, A.D. 1783-1784. Kinematics and dynamics of lava flows (M. Manga og G. Venture ritstjórar). Geological Society of America, Boulder, CO, 81-102.
  11. ^ Þorvaldur Þórðarson og fleiri, 1998. New data on the age and origin of the Leidolfsfell cone group in south Iceland. Jökull, 46, 3-15.
  12. ^ Fagents, S. A. og Þorvaldur Þórðarson, 2007. Rootless cones in Iceland and on Mars. The Geology of Mars: Evidence from Earth-Based Analogues (M. Chapman og I. Skilling ritstjórar). Cambridge University Press, Cambridge.

Myndir:


Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um gos í Grímsvötnum í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi.

Höfundar

Magnús Tumi Guðmundsson

prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ

Guðrún Larsen

jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Þorvaldur Þórðarson

eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Útgáfudagur

1.12.2021

Síðast uppfært

25.1.2022

Spyrjandi

Hafrún, Guðmundur

Tilvísun

Magnús Tumi Guðmundsson, Guðrún Larsen og Þorvaldur Þórðarson. „Hvað er vitað um gos í Grímsvötnum sem verða utan Grímsvatnaöskjunnar?“ Vísindavefurinn, 1. desember 2021, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=82855.

Magnús Tumi Guðmundsson, Guðrún Larsen og Þorvaldur Þórðarson. (2021, 1. desember). Hvað er vitað um gos í Grímsvötnum sem verða utan Grímsvatnaöskjunnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=82855

Magnús Tumi Guðmundsson, Guðrún Larsen og Þorvaldur Þórðarson. „Hvað er vitað um gos í Grímsvötnum sem verða utan Grímsvatnaöskjunnar?“ Vísindavefurinn. 1. des. 2021. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=82855>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er vitað um gos í Grímsvötnum sem verða utan Grímsvatnaöskjunnar?
Goshættir í Grímsvatnakerfinu ráðast mjög af umhverfisaðstæðum. Mestu munar hvort gosin verða innan Vatnajökuls, þar sem áhrif utanaðkomandi vatns eru ráðandi, eða á gosreininni utan hans, þar sem hegðunin ræðst mest af samsetningu og eiginleikum kvikunnar. Jafnframt hafa gos innan Grímsvatnaöskjunnar ákveðin einkenni, og gos utan hennar en undir jökli, enn önnur. Sérstaklega er fjallað um gos innan Grímsvatnaöskjunnar í svari við spurningunni Hvers konar gos verða í Grímsvötnum? Í þessu svari verður gerð grein fyrir atburðum utan Grímsvatnaöskjunnar, annars vegar þeim sem verða undir jökli og hins vegar þeim sem verða á jökulvana hluta gosreinarinnar.

Gos undir jökli utan Grímsvatnaöskjunnar

Á gosreininni norðan Grímsvatna virðist gjósa einu sinni til tvisvar á öld. Þessi gos eru margfalt stærri en venjuleg Grímsvatnagos. Gosin tvö í Gjálp á 20. öld, það er 1938 og 1996, eru af þessari gerð.[1] Gosin norðan Grímsvatna koma upp um nokkurra kílómetra langar sprungur og undir þykkum jökli. Þau eiga það sammerkt að hafa valdið stórhlaupum á Skeiðarársandi, þegar bræðsluvatnið brýst fram eftir að hafa safnast fyrir í Grímsvötnum. Gosið í Gjálp 1938 náði að öllum líkindum aldrei til yfirborðs, en gosið 1996 bræddi sig gegnum 550 metra þykkan jökul á um 30 klukkustundum. Í Gjálpargosinu 1996 komu upp um 0,45 rúmkílómetrar af kviku og 1938 um 0,3.[2] Gosvirknin á þessu svæði er mjög athyglisverð því að í gosunum hafa myndast móbergshryggir, beinar hliðstæður hryggjanna sem urðu til í gosum undir jöklum á jökulskeiðum.

Eldgos á ísilögðum hluta sprungusveimsins við Grímsvötn. (Gjálpargosið 1996). Gosið hófst undir ~700 m þykkum jökli og bræddi sig í gegnum hann á 30 klst. Lítið tætigos stóð yfir í 12 daga. Bræðsluvatnið safnaðist fyrir í Grímsvötnum í 35 daga og varð þá mikið jökulhlaup sem olli skemmdum á vegum og brúm. Mynd frá 12. október 1996.

Á síðustu öldum hefur nokkrum sinnum gosið undir jökli suðvestan Grímsvatna, síðast 1903 þegar gos kom upp nærri Þórðarhyrnu. Það gos var heldur stærra en algengast er með Grímsvatnagos, en efnasamsetning gjóskunnar var sú sama og í Grímsvötnum.[3] Sennilegt er að einnig hafi gosið nærri Þórðarhyrnu 1887. Árið 1753 gaus líklega einhvers staðar suðvestur af Þórðarhyrnu og því fylgdi mikið hlaup í Djúpá, auk þess sem vöxtur kom í Hverfisfljót og Skaftá.[4]

Goshættir á sprungureininni suðvestan Vatnajökuls

Sprungurein Grímsvatnakerfisins suðvestan Vatnajökuls ber öll merki þess að vera ung og lítið þróuð. Aðeins er vitað um fjögur gos (hugsanlega sex) á reininni frá því að jöklar hurfu af svæðinu, og eina sögulega gosið eru Skaftáreldar. Lakagígar eru 27 kílómetra löng gígaröð sem varð til í þessum miklu náttúruhamförum og teygir sig frá jökulrönd í krikanum milli Síðujökuls og Skaftárjökuls gegnum móbergsfjallið Laka og að fjallinu Hnútu rétt neðan við upptök Skaftárgljúfurs. Gígaröðin liggur í 200-500 metra breiðum samsettum sigdal sem nú er að mestu hulinn hrauni og gjósku, en sést greinilega í fjallinu Laka. Á henni eru 140 gígar og eldvörp af ýmsu tagi sem raða sér á tíu 1,5-5 kílómetra langar skástígar sprungur.[5]

Lakagígar eru 27 kílómetra löng gígaröð sem varð til í Skaftáreldum.

Sjálft gosið, Skaftáreldar, stóð í átta mánuði og var hluti af tveggja ára löngum umbrotum á Grímsvatnakerfinu sem stóðu yfir frá maí 1783 til maí 1785. Í þessum umbrotum varð að minnsta kosti tíu sinnum vart við elda í Grímsvötnum, bæði fyrir, samtímis og eftir Skaftárelda, og þar kraumaði eldvirkni fram á árið 1785.[6] Skaftáreldar eru annað mesta flæðigos jarðar á sögulegum tíma, á eftir Eldgjárgosinu 934.[7] Gosið gekk á með hrinum, og urðu alls tíu, þar sem hver þeirra hófst með gosi í nýjum sprunguhluta, samhliða jarðskjálftum. Upphafsfasi var yfirleitt sprengigos sem stóð frá nokkrum klukkustundum upp í nokkra daga. Flæðigosið í hverri hrinu var mun langvinnara og stóð í vikur eða mánuði. Gosefnin eru þróað basalt, kvarts þóleiít, sömu gerðar og kvikan sem kemur upp í Grímsvatnagosum.[8]

Frá Lakagígum rann Skaftáreldahraunið allt að 65 kílómetra og þekur nú um 600 ferkílómetra lands. Magn þess hefur verið metið nálægt 15 rúmkílómetrum.[9] Hraunbreiðan er samsett úr hellu- og klumpahraunum og með flæðimynstri sem sýnir að innrænt flæði og hraunbelging var mikilvægur þáttur í myndun þeirra.[10] Gervigígar eru algengir í Eldhrauninu eins og í fleiri hraunum á þessu svæði.[11] Alls eru sextán gervigígasvæði þekkt innan Skaftáreldahraunsins. Tvö þeirra státa af stærstu gervigígum jarðar. Í gervigígasvæðinu norðan Innri-Eyrar er stærsti gígurinn um 450 metrar í þvermál og er aðeins skákað af gervigígnum sem stendur upp úr hraunbreiðunni norður af Eyrarhólma sem er 800-1000 metrar í þvermál.[12]

Tilvísanir:
  1. ^ Magnús T. Guðmundsson og fleiri, 1997. Ice-volcano interaction of the 1996 Gjálp subglacial eruption, Vatnajökull, Iceland. Nature, 389, 954-957. Magnús T. Guðmundsson og Helgi Björnsson, 1991.
  2. ^ Magnús T. Guðmundsson, 2005.
  3. ^ Karl Gröndvold og Haukur Jóhannesson, 1984.
  4. ^ Sigurður Þórarinsson, 1974.
  5. ^ Thordarson, T. og S. Self, 1993. The Laki (Skaftár Fires) and Grímsvötn eruptions in 1783-1785. Bulletin of Volcanology, 55, 233-263.
  6. ^ Þorvaldur Þórðarson, 1991. Skaftáreldar 1783-1785. Gjóskan og framvinda gossins (4. árs ritgerð í jarðfræði við Háskóla Íslands). Háskólaútgáfan og Raunvísindadeild, jarðfræðiskor. Þorvaldur Þórðarson og fleiri, 2003a.
  7. ^ Guðrún Larsen, 2000. Holocene eruptions within the Katla volcanic system, south Icleland: Characteristics and environmental impct. Jökull, 49, 1-28. Þorvaldur Þórðarson og fleiri, 2001. New estimates of sulfur degassing and athmospheric massloading y the 934 AD Eldgjá eruption, Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research, 108(1-4), 33-54.
  8. ^ Thordarson og Self, 1993.
  9. ^ Þorvaldur Þórðarson, 1991. Þorvaldur Þórðarson og fleiri, 2003a.
  10. ^ Þorvaldur Þórðarson og fleiri, 2003b. Sulphur release from flood lava eruptions in the Veidivötn, Grímsvötn and Katla volcano systems, Iceland. Volcanic Degassing (C. Oppenheimer, D. M. Pyle og J. Barclay ritstjórar.) Geological Society Special Publications, 231. The Geological Society, London, 103-121. Guilbaud og fleiri, 2005. Morphology, surface structure, and emplacement of lavas produced by Laki, A.D. 1783-1784. Kinematics and dynamics of lava flows (M. Manga og G. Venture ritstjórar). Geological Society of America, Boulder, CO, 81-102.
  11. ^ Þorvaldur Þórðarson og fleiri, 1998. New data on the age and origin of the Leidolfsfell cone group in south Iceland. Jökull, 46, 3-15.
  12. ^ Fagents, S. A. og Þorvaldur Þórðarson, 2007. Rootless cones in Iceland and on Mars. The Geology of Mars: Evidence from Earth-Based Analogues (M. Chapman og I. Skilling ritstjórar). Cambridge University Press, Cambridge.

Myndir:


Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um gos í Grímsvötnum í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar. Textinn er birtur með góðfúslegu leyfi....