Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stutta svarið er, nei það er ómögulegt.
Langa svarið, eða röksemdirnar fyrir því stutta, eru raktar hér fyrir neðan.
Miklar vonir eru bundnar við að bóluefni gegn veirunni sem veldur COVID-19 komist á markað. Bóluefni eru gefin til að líkaminn geti lært á sýkla og myndað mótefni sem þekkja sýklana og muni eftir þeim í framtíðinni. Sýklar eru margir og misjafnir, til dæmis veirur, bakteríur, sveppir og frumdýr. Bóluefni hafa verið þróuð gegn mörgum sýklum, nær eingöngu bakteríum og veirum. Aðferðirnar til að búa til bóluefni eru mjög fjölbreyttar.
Ýmislegt er í þróun gegn veirunni sem veldur COVID-19, til dæmis bæklaðar veirur, einangrun mótefnavaka veirunnar, framleiðsla þeirra í frumum, flutningur með öðrum veirum og bóluefni byggð á erfðaefni veirunnar.[1]
Bóluefni geta mögulega haft aukaverkanir en þau hafa ekki áhrif á erfðaefnið.
Spurt er hvort að bóluefnið gegn COVID-19 geti haft áhrif á erfðaefni þeirra sem eru bólusettir. Breytingum á erfðaefni má skipta í stökkbreytingar (e. mutation) annars vegar og hins vegar í svo kallaðar erfðabreytingar (e. genetic modification). Hið fyrra er breyting á erfðaefni frumu, og getur orðið vegna tilviljunar, bilunar í frumunni eða ytri þátta eins og geislunar.[2] Engar vísbendingar eru um að bóluefni séu stökkbreytandi (óháð því gegn hvaða sýklum þau eru hönnuð).
Ef framandi erfðaefni innlimast í DNA lífveru er talað um að hún sé erfðabreytt. Innflutta erfðaefnið getur verið úr annarri tegund, eða eitthvað sem vísindamenn búa til í rannsóknarskyni.[3] Rétt eins og með stökkbreytingar er heldur ekkert sem bendir til þess að þess að bóluefni geti mögulega leitt til erfðabreytingar á frumum. Það er rökstutt með umfjöllun um tvær gerðir bóluefna, annars vegar bóluefni sem byggja á veiklaðri veiru og hins vegar á kjarnsýrum. Aðrar gerðir bóluefna liggja á þessu rófi og eru svörin einnig „nei“ fyrir þær.
Bóluefni byggt á bæklaðri veiru er yfirleitt veiruagnir sem hafa verið óvirkjaðar (til dæmis með hitun eða efnum). Þær geta vakið ónæmiskerfið en eru ófærar um að fjölga sér. Bóluefnið staldrar við í líkama hins bólusetta í ákveðinn tíma en brotnar svo niður eða skilst út. Mikilvægast er að kórónuveirur búa ekki yfir leiðum til að hvata innlimun erfðaefnis síns í frumur hýsils[4] og því ómögulegt að þær geti breytt erfðum þess sem fær bóluefnið.
Hvað með bóluefni byggð á kjarnsýru eins og það sem lyfjafyrirtækin Pfizer og BioNTech kynntu nýverið?[5] Veiran sem veldur COVID-19 er með RNA sem erfðaefni,[6] og byggir bóluefnið á því að sprauta RNA byggðu á erfðaefni veirunnar inn í fólk (en ekki öðrum veiruhlutum, þar á meðal prótínum sem eru mikilvæg fyrir innlimun veiruagna í frumur og fjölgun hennar). Líkaminn framleiðir tiltekin prótín veirunnar, sem dugar til að vekja ónæmiskerfið. Það virðist veita vörn í allt að 95% einstaklinga yfir 65 ára aldri.[7] Erfðaefni okkar er á DNA formi, en veirunnar á RNA formi. Hvorki við né veiran búum yfir ensímum til að afrita DNA frá RNA og því algerlega útilokað að erfðefnið innlimist í DNA þess bólusetta og erfðabreyti viðkomandi.
Einhver afar þrjóskur gæti engu að síður reynt að halda því fram bóluefnin gætu erfðabreytt okkur fyrir tilstuðlan CRISPR/CAS-kerfis sem Nóbelsverðlaunin í efnafræði voru veitt fyrir haustið 2020.[8] Það kerfi byggir á RNA-sameindum sem hagnýttar voru til að erfðabreyta frumum. Gæti ekki verið að RNA úr veirunni lendi í svoleiðis maskínu og erfðabreyti okkur? CRISPR/CAS-kerfin finnast í bakteríum en ekki í heilkjörnungum eins og okkur. Það er því einnig útilokað að slíkt leiði til þess að bóluefni fyrir COVID-19 valdi erfðabreytingum á fólki.
Samantekt:
Bóluefni eru útbúinn með margvíslegum aðferðum.
Þau eru ekki stökkbreytandi.
Bóluefni leiða ekki til innlimunar veiruerfðaefnis í frumur hins bólusetta.
^ Í náttúrunni kemur einnig fyrir að erfðaefni einnar tegundar innlimist í DNA annarar tegundar, en það er önnur saga.
^ Það geta þó lentiveirur eins og HIV og mæði-visnuveirur, en bóluefni gegn þeim hafa þó verið þróuð. Ekki er vísbending um að þau breyti genum þess bólusetta. Sjá skylda umræðu í svari Valgerðar Andrésdóttur.
Ég hef heyrt að í þróun bóluefnis við COVID-19 sé notuð ný tækni eða svo orðaði Þórólfur Guðnason það, ef ég man rétt. Hvað átti hann við? Er innihald bóluefnisins byggt á nýrri tækni eða þróun þess? Er mögulegt að bóluefnið geti haft áhrif á erfðaefni okkar?
Arnar Pálsson. „Er mögulegt að nýtt bóluefni við COVID-19 geti haft áhrif á erfðaefni okkar?“ Vísindavefurinn, 23. nóvember 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=80372.
Arnar Pálsson. (2020, 23. nóvember). Er mögulegt að nýtt bóluefni við COVID-19 geti haft áhrif á erfðaefni okkar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=80372
Arnar Pálsson. „Er mögulegt að nýtt bóluefni við COVID-19 geti haft áhrif á erfðaefni okkar?“ Vísindavefurinn. 23. nóv. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=80372>.