Við hvaða tölur er miðað á fitu, salti, sykri og trefjum þegar vörur fá leyfi til að nota skráargatsmerkingu?Það er misjafnt eftir vöruflokkum hvaða viðmið gilda um innihald á þeim vörum sem merktar eru með Skráargatinu. Skráargatið er opinbert samnorrænt merki sem finna má á umbúðum matvara sem uppfylla ákveðin skilyrði um samsetningu næringarefna. Tilgangurinn með notkun þess er að auðvelda neytendum að velja hollari kost þegar kemur að matvælum.
Matvælaflokkur | Skilyrði |
Kartöflur, rótarávextir, belgbaunir (nema jarðhnetur) og annað grænmeti. Vörurnar mega vera unnar. Óunnar kryddjurtir falla einnig undir þennan flokk | - viðbætt fita, hámark, 3 g/100 g - viðbætt fita má innihalda að hámarki 20% mettaðar fitusýrur - viðbættar sykurtegundir, hámark 1 g/100 g - salt hámark, 0,5 g/100 g |
Hrísgrjón sem innihalda 100% heilkorn reiknað út frá þurrefnisinnihaldi vörunnar. | - trefjar að minnsta kosti, 3 g/100 g |
Pasta (án fyllingar) sem inniheldur a.m.k. 50% heilkorn reiknað út frá þurrefnisinnihaldi vörunnar. Engin skilyrði eru um heilkorn í glútenlausu pasta (án fyllingar) | - trefjar að minnsta kosti, 6 g/100 g - salt hámark, 0,1 g/100 g Skilyrðin gilda fyrir þurrefnisinnihald vörunnar |
Mjólk og sýrðar mjólkurvörur sem ætlaðar eru til drykkjar. Vörurnar eru án viðbætts bragðs. Einnig tilsvarandi laktósalausar vörur og laktósalaus mjólk. | - fita hámark, 0,7 g/100 g |
Reyktur eða grafinn fiskur. | - fita önnur en fiskfita hámark, 10 g/100 g - sykurtegundir hámark 5 g/100 g - salt hámark 3 g/100 g |
Kjöt sem er óunnið. | - fita hámark, 10 g/100 g |
- Landlæknisembættið. Skráargatið. (Sótt 11.8.2020).
- Matvælastofnun. Skráargatið. (Sótt 11.8.2020).
- Reglugerð um notkun Skráargatsins við markaðssetningu matvæla nr. 428/2015. (Sótt 11.8.2020)
- Mynd: EDS.