Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er ekki auðvelt að segja hvaða tæki eigi að bera titilinn „fyrsta tölvan“. Vandamálið er að allt frá miðöldum höfðu menn verið að hanna sífellt fullkomnari vélrænar reiknivélar. Einn þeirra var stærðfræðingurinn, frumkvöðullinn, heimsspekingurinn, uppfinningarmaðurinn og vélaverkfræðingurinn Charles Babbage, sem á árunum 1833-42 hannaði vél til að reikna út úr tiltölulega flóknum stærðfræðiformúlum. Það átti að vera hægt að forrita reiknivélina með eins konar gataspjöldum, svipað eins og byrjað var að nota í vélrænum vefstólum á þeim tíma. Babbage náði þó aldrei að smíða þessa vél, en vinkona hans Ada Lovelace, dóttir Byrons skálds, skrifaði grein þar sem hún lýsti hvernig hægt væri að forrita vélina til að reikna út ýmsar formúlur. Hún er því oft talin vera fyrsti forritarinn, þó að forritin hennar yrðu aldrei framkvæmd.
Flestir eru sammála um að fyrstu tölvurnar hafi komið fram á árunum kringum seinni heimsstyrjöldina, þó að ekki séu menn alveg sammála um hvaða tæki eigi titilinn skilið. Meðal þeirra tækja sem nefnd hafa verið til sögunnar eru reiknivélar sem verkfræðingurinn Konrad Zuse smíðaði í Þýskalandi rétt fyrir stríðið. Tæki hans voru hvert öðru fullkomnara og nær því að nefnast tölvur. Á svipuðum tíma smíðaði prófessor John Atanasoff við Iowa-háskólann í Bandaríkjunum frumgerð að rafrænni reiknivél sem hafði ýmsa eiginleika tölva.
ENIAC var mjög stór tölva!
Það tæki sem flestir telja þó fyrstu tölvuna hét ENIAC (Electronic Numerical Integrator And Computer). Hönnuðir hennar voru eðlisfræðingurinn John Mauchly og rafmagnsverkfræðingurinn Presper Eckert. ENIAC var smíðuð við Pennsylvaníu-háskóla á árunum 1943-1945 fyrir vopnadeild Bandaríkjahers til að flýta fyrir útreikningum á skottöflum. Á þessum árum var fallbyssum miðað með hjálp skottaflna. Skytturnar flettu upp stillingum fallbyssanna í skottöflunum miðað við tiltekna fjarlægð skotmarksins, hraða þess, vindátt og ýmislegt fleira. Þegar ný gerð fallbyssa var hönnuð eða eldri gerð breytt þurfti að endurreikna allar skottöflur fyrir byssuna. Það var auðvitað mikilvægt að skottöflurnar væru tilbúnar fljótt og að þær væru réttar. Fyrir tíma tölvanna sátu hundruð manna með handsnúnar reiknivélar við að útbúa skottöflur.
Þegar ENIAC var tilbúin gat hún framkvæmt um 5000 samlagningar eða um 350 margfaldanir á sekúndu. Þetta þykir ekki mikill hraði í dag, þegar venjulegar heimilistölvur framkvæma hundruð milljóna aðgerða á sekúndu, en miðað við að ENIAC leysti af hólmi fólk með handsnúnar reiknivélar, þá var tilkoma hennar alger bylting. ENIAC var gríðarlega stór, um 30 metra löng, 3 metrar á hæð og um 30 tonn að þyngd. ENIAC var lampatölva, með um 18.000 lampa sem vildu bila, þannig að ENIAC hélst ekki mjög lengi í gangi í einu. Meðaltími milli bilana var um 5 tímar.
Að einu leyti var ENIAC frábrugðin nútíma tölvum. Forritun hennar fór þannig fram að forritarar stilltu hnappa og tengdu víra. Þessi forritun gat tekið nokkra daga og það var mikil hætta á villum. Nútíma tölvur geyma forritin í minni sínu og geta unnið með þau eins og hver önnur gögn. Fyrsta tölvan með þennan eiginleika var smíðuð við Háskólann í Manchester, Englandi árið 1948 og nefndist SSEM (Small Scale Experimental Machine), en var alltaf kölluð „Barnið“ (e. the Baby). „Barnið“" var mjög lítil tölva, minnið var aðeins 128 bæti og afkastagetan um 800 aðgerðir á sekúndu.
Fyrir þá sem vilja lesa meira um sögu tölvunnar þá er best að byrja á Vefsíðunni The Virtual Museum of Computing. Þar er mikið af tengingum á vefsíður með upplýsingum um sögu tölvunnar.
Að lokum má benda á svar Hauks Más Helgasonar við spurningunni Hver smíðaði fyrstu tölvuna og hvenær var það? þar sem fleiri atriði í þróun tölvunnar eru rakin.
Frekara lesefni af Vísindavefnum:
Hjálmtýr Hafsteinsson. „Hvenær var fyrsta tölvan fundin upp, hver gerði það og hve öflug var hún?“ Vísindavefurinn, 15. ágúst 2000, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=791.
Hjálmtýr Hafsteinsson. (2000, 15. ágúst). Hvenær var fyrsta tölvan fundin upp, hver gerði það og hve öflug var hún? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=791
Hjálmtýr Hafsteinsson. „Hvenær var fyrsta tölvan fundin upp, hver gerði það og hve öflug var hún?“ Vísindavefurinn. 15. ágú. 2000. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=791>.