Hversu þungar geta stærstu löngur við Ísland orðið? Þær upplýsingar sem ég hef fundið eru hlægilega rangar.Langa (Molva molva) er af þorskaætt (Gadidae) líkt og margir af okkar helstu nytjafiskum, svo sem þorskur, ufsi, ýsa og kolmunni. Hún hefur löngum verið álitin einhvers konar millistig á milli þorsks og áls enda líkist hún þorski um margt en hefur ílangt vaxtarlag líkt og áll. Í þeim heimildum sem skoðaðar voru við gerð þessa svars er yfirleitt að finna upplýsingar um hversu langar löngur geta orðið en sjaldnar getið um hámarksþyngd. Sem dæmi má nefna að í riti Gunnars Jónssonar um íslenska fiska segir að langan geti orðið yfir 2 metrar á lengd en ekkert sagt um þyngdina. Það sama má segja um skýrslu á vef Hafrannsóknarstofnunar, þar er getið um hámarkslengd en ekkert um þyngd. Í bókinni Fiskar og fiskveiðar við Ísland og Norðvestur-Evrópu segir hins vegar um löngu „Hámarkslengd 2 m, sjaldan lengri en 160 cm, 45 kg og 25 ára“ og á vefnum FishBase kemur einnig fram að hámarksþyngd sé um 45 kg. Á vefnum Big Fishes of the World sem fjallar um óvenju stóra fiska af hinum ýmsu tegundum er lengdin sú sama, það er um 2 metrar en þyngdin sögð allt að 60 kg. Þar sem þetta er mun hærri tala en aðrar heimildir nefna ætti að setja ákveðna fyrirvara við hana. Rétt er að geta þess að hér er verið að tala um mestu lengd og mestu þyngd en yfirleitt ná löngur ekki þessari stærð. Á vef Hafrannsóknarstofnunarinnar kemur fram að meðallengd veiddra langa á tímabilinu 2009-2018 var á bilinu 82-96 cm, aðallega fiskar á aldrinum 5-11 ára. Á fræðsluvefnum Fjaran og hafið sem Hafrannsóknastofnun og Námsmatsstofnun (nú Menntamálastofnun) unnu kemur fram að algengast sé að langa sé 1 til 1,5 m og 5 til 20 kg. Lengsta langa sem mæst hefur hér við land, samkvæmt bókinni Íslenskir fiskar, var 212 cm löng. Hún veiddist í október 1998 í botnvörpu á Síðugrunni. Ekki er tekið fram hversu þung hún var. Heimildir og mynd:
- Gunnar Jónsson. Íslenskir fiskar. Reykjavík. Fjölvaútgáfan. 1983.
- Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. 2013. Íslenskir fiskar. Reykjavík, Mál og menning.
- Karl Gunnarsson, Gunnar Jónsson og Ólafur Karvel Pálsson. Sjávarnytjar við Ísland. Reykjavík, Mál og menning, 1998.
- Bengt Muus. 1999. Fiskar og fiskveiðar við Ísland og Norðvestur-Evrópu. Reykjavík, Mál og menning. (Jón Jónsson og Gunnar Jónsson þýddu og staðfærðu).
- Molva molva, Ling : fisheries, gamefish - FishBase.
- LING-LANGA. MFRI Assessment Reports 2019. Hafrannsóknarstofnun, 13 júní 2019.
- The Marine Flora & Fauna of Norway.
- Big Fishes of the World.
- Fjaran og hafið.
- Mynd: Långa - Explore The Arctic. (Sótt 18.9.2019).