Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig fiskur er langa?

Jón Már Halldórsson

Langa (Molva molva) er af þorskaætt (Gadidae) líkt og margir af okkar helstu nytjafiskum, svo sem þorskur, ufsi, ýsa og kolmunni. Hún hefur löngum verið álitin einhvers konar millistig á milli þorsks og áls enda líkist hún þorski um margt en hefur ílangt vaxtarlag líkt og áll og getur orðið rúmir tveir metrar á lengd. Í bókinni Íslenskir fiskar eftir Gunnar Jónsson fiskifræðing er löngu lýst á eftirfarandi hátt:
Langan er löng og mjóvaxin, sívöl og hauslöng. Kjafturinn er stór. Hún er undirmynnt með smáar tennur. Skeggþráður er á höku. Augu eru fremur smá. Bakuggar eru tveir, og er sá fremri mun styttri en aftari bakuggi og raufaruggi, en þeir eru báðir langir og lágir. Kviðuggar eru all langir, en ná þó ekki lengra en aftur á miðja eyrugga. Eyruggar eru í meðallagi. Sporblaðka er bogadregin fyrir endann. Roðið er þykkt með smáu hreistri. Rákin er greinileg.

Eins og flestar aðrar tegundir af þorskaætt heldur langan sig við botninn og finnst á 40 til 1000 metra dýpi. Norskar rannsóknir hafa sýnt að það eru aðeins ungir fiskar sem finnast á innan við 100 metra dýpi.


Hrygning fer fram við Ísland í maí og júní og eru helstu hrygningarsvæðin við brúnir landgrunnsins á milli Vestmannaeyja og Reykjaness á 150-300 metra dýpi. Langan er talin verða kynþroska 6-8 ára og mælist þá 70-80 cm á lengd. Líkt og aðrir þorskfiskar hrygnir hún urmul eggja (5-20 milljónum).

Langan er ránfiskur og rannsóknir á magainnihaldi hennar benda til þess að hún sé mikill tækifærissinni þegar kemur að fæðu. Mest hefur fundist af síld, kola, sperlingi, ungum þorski og ýsu í maga hennar en einnig ótal tegundir krabbadýra og annarra sjávarhryggleysingja. Helstu óvinir löngunnar fyrir utan manninn eru stórir hákarlar, höfrungar, til dæmis háhyrningar.


Heimkynni löngunnar í Norðaustur-Atlantshafi er meðfram endilangri strönd Noregs, inn í Skagerrak og Kattegat, í Norðursjó, rétt suður í Biskajaflóa og umhverfis Bretlandseyjar, Færeyjar og á miðin suður og vestur af Íslandi. Stöku sinnum hefur langa komið í veiðarfæri við suðvestanvert Grænland og Gunnar Jónsson nefnir eitt tilvik þar sem langa veiddist á Stórabanka (e. Great bank) við Nýfundnaland veturinn 1953.

Langa hefur verið mikið nytjuð hér á landi undanfarna áratugi. Veiðin nam alls rúmum 3.800 tonnum árið 2003 og er mest veitt á línu.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

10.1.2005

Spyrjandi

Guðlaug Valdimars

Efnisorð

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvernig fiskur er langa?“ Vísindavefurinn, 10. janúar 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4708.

Jón Már Halldórsson. (2005, 10. janúar). Hvernig fiskur er langa? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4708

Jón Már Halldórsson. „Hvernig fiskur er langa?“ Vísindavefurinn. 10. jan. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4708>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig fiskur er langa?
Langa (Molva molva) er af þorskaætt (Gadidae) líkt og margir af okkar helstu nytjafiskum, svo sem þorskur, ufsi, ýsa og kolmunni. Hún hefur löngum verið álitin einhvers konar millistig á milli þorsks og áls enda líkist hún þorski um margt en hefur ílangt vaxtarlag líkt og áll og getur orðið rúmir tveir metrar á lengd. Í bókinni Íslenskir fiskar eftir Gunnar Jónsson fiskifræðing er löngu lýst á eftirfarandi hátt:

Langan er löng og mjóvaxin, sívöl og hauslöng. Kjafturinn er stór. Hún er undirmynnt með smáar tennur. Skeggþráður er á höku. Augu eru fremur smá. Bakuggar eru tveir, og er sá fremri mun styttri en aftari bakuggi og raufaruggi, en þeir eru báðir langir og lágir. Kviðuggar eru all langir, en ná þó ekki lengra en aftur á miðja eyrugga. Eyruggar eru í meðallagi. Sporblaðka er bogadregin fyrir endann. Roðið er þykkt með smáu hreistri. Rákin er greinileg.

Eins og flestar aðrar tegundir af þorskaætt heldur langan sig við botninn og finnst á 40 til 1000 metra dýpi. Norskar rannsóknir hafa sýnt að það eru aðeins ungir fiskar sem finnast á innan við 100 metra dýpi.


Hrygning fer fram við Ísland í maí og júní og eru helstu hrygningarsvæðin við brúnir landgrunnsins á milli Vestmannaeyja og Reykjaness á 150-300 metra dýpi. Langan er talin verða kynþroska 6-8 ára og mælist þá 70-80 cm á lengd. Líkt og aðrir þorskfiskar hrygnir hún urmul eggja (5-20 milljónum).

Langan er ránfiskur og rannsóknir á magainnihaldi hennar benda til þess að hún sé mikill tækifærissinni þegar kemur að fæðu. Mest hefur fundist af síld, kola, sperlingi, ungum þorski og ýsu í maga hennar en einnig ótal tegundir krabbadýra og annarra sjávarhryggleysingja. Helstu óvinir löngunnar fyrir utan manninn eru stórir hákarlar, höfrungar, til dæmis háhyrningar.


Heimkynni löngunnar í Norðaustur-Atlantshafi er meðfram endilangri strönd Noregs, inn í Skagerrak og Kattegat, í Norðursjó, rétt suður í Biskajaflóa og umhverfis Bretlandseyjar, Færeyjar og á miðin suður og vestur af Íslandi. Stöku sinnum hefur langa komið í veiðarfæri við suðvestanvert Grænland og Gunnar Jónsson nefnir eitt tilvik þar sem langa veiddist á Stórabanka (e. Great bank) við Nýfundnaland veturinn 1953.

Langa hefur verið mikið nytjuð hér á landi undanfarna áratugi. Veiðin nam alls rúmum 3.800 tonnum árið 2003 og er mest veitt á línu.

Heimildir og myndir:...