Myndu mörgæsir geta lifað af í íslenskri náttúru ef þær yrðu fluttar inn?Mörgæsir (Spheniscidae) finnast ekki aðeins á ísbreiðunum á og við Suðurskautslandið heldur lifa nokkrar tegundir á tempruðum svæðum, svo sem meðfram ströndum Suður-Ameríku og í Afríku allt norður til Angóla. Þá lifir hin svokallaða Galapagos-mörgæs (Spheniscus mendiculus) á Galapagos-eyjunum í Kyrrahafi og á Nýja-Sjálandi. Mörgæsir eru því suðurhvelsfuglar. Á norðurhveli lifði hins vegar fugl sem minnti mjög á mörgæs og var vistfræði þeirra mjög áþekk, en það var geirfuglinn (Pinguinus impennis) sem dó út árið 1844. Hann var ófleygur og lifði á útskerjum þar sem hann var laus við landlæga afræningja. Hann gat smeygt sér í sjóinn og notað úrþróaða vængi sína til að synda eftir fiski sem ofgnótt var af í Norður-Atlantshafi. Líkamsvöxtur geirfuglsins ber þess merki að hann hafi verið mjög fær sund- og kaffugl og í raun mjög áþekkur líkamsvexti mörgæsa. Það er ekki auðvelt að svara því með afgerandi hætti hvort mörgæsir gætu lifað á Íslandi því aðlögun að því vistkerfi sem þær lifa nú í, nær til þúsunda ára og ótal kynslóða. En fjölmargar tegundir mörgæsa eru harðgerar og lifa á áþekkum svæðum í Suðurhöfum og þekkjast á Íslandi. Veðurfar er ekki ólíkt, þar eru gjöful fiskimið rétt eins og hér við land og lítið um afræningja, nema sæljón sem geta herjað á þær á mörgum eyjum og háhyrninga (líkt og hér við land) sem geta verið mörgæsum skeinuhættir. Það er því ekki ólíklegt að tegundir af þessum suðlægu slóðum gætu fest hér rætur en þó er mörgum spurningum ósvarað. Mynd:
- Pxhere. (Sótt 29.4.2019).