Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um trú og siði norrænna manna á Grænlandi?

Hjalti Hugason

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:

Ég vildi vita meir um norræna menn á Grænlandi, var kaþólska kirkjan með klaustur meðal þeirra og hve mikið er vitað um dómkirkju þeirra sem talað er um. Hvað má segja um greftrunarsiði þeirra og klæðaburð?

Byggð norrænna manna á Grænlandi hefur líklega hafist laust fyrir 990 en hefðbundið er að tímasetja upphaf hennar 985 eða 986. Elstu íslensku heimildina um þessa atburði er að finna í Íslendingabók (6. kap.) Ara fróða Þorgilssonar sem er skráð á áratugnum 1122–1133. Vitneskju sína um Grænland byggði hann á frásögn föðurbróður síns, Þorkels Gellissonar (d. 1074), sem hafði sjálfur verið á Grænlandi líklega um 1055. Þar á hann að hafa rætt við mann er var meðal fyrstu Grænlandsfaranna. Hugsanlega gætu þessar tímasetningar staðist ef Grænlendingurinn hefur komið þangað barn að aldri.

Kort af Vestribyggð norrænna manna. Rauðu punktarnir sýna þekktar bæjarrústir.

Norrænir menn bjuggu aðallega í tveimur byggðakjörnum og voru báðir sunnarlega á vesturströndinni, Eystri- og Vestribyggð. Vestribyggð var norðar eða á svæðinu umhverfis núverandi Nuuk. Hún var einnig fámennari. Flestir norrænu landnemanna hafa verið Íslendingar eða að minnsta kosti flust til Grænlands um Ísland hvort sem þeir höfðu lengri eða skemmri dvöl hér. Þessir norrænu Grænlendingar hafa aldrei verið fjölmennir. Talið er að bæir hafi geta verið hátt á fjórða hundrað og íbúafjöldinn verið í hæsta lagi 4000–5000 manns. Vestribyggð lagðist líklega í eyði á 14. öld og hefur það valdið íbúum Eystribyggðar ýmsum vanda. Samgöngur við Grænland virðast hafa verið strjálar á síðustu áratugum aldarinnar og um 1410 er síðast vitað um ferðir Íslendinga til Grænlands. Landið var þó áfram í sambandi við umheiminn, einkum Noreg, fram eftir 15. öld en byggðin hefur lagst af einhvern tímann upp úr 1500.

Þarna var um norrænt samfélag að ræða sem var framan af í tíðum viðskiptum einkum við Ísland og Noreg en ýmsar verslunarvörur frá Grænlandi voru eftirsóttar ekki síst í Noregi. Má þar meðal annars nefna svarðreipi, rostungstennur og bjarnarfeldi. Í staðinn hafa Grænlendingar fengið þær vörur sem þá vanhagaði um sem hafa verið nokkurn veginn þær sömu og fluttar voru til Íslands á þessum tíma og munaði þar ekki síst um munaðar- og tískuvöru. Ætla má að menningar- og samfélagsaðstæður hafi um margt verið líkar því sem gerðist hér á landi að öðru leyti en að veiðar hafa skipað hærri sess við hlið kvikfjárræktar en gerðist hér á landi. Verkmenning Grænlendinga hinna fornu, klæðaburður og aðrir lífshættir hafa því væntanlega verið með svipuðum hætti og hér. Varðveisluaðstæður valda því til dæmis að greftrunarbúnaður Grænlendinga hefur varðveist vel og sýnir að klæðaburður hefur verið sambærilegur og hér gerðist. Hugsanlega er það einmitt eitt af því sem olli eyðingu norrænnar byggðar á Grænlandi þar sem norrænir menn á Grænlandi hafa ekki náð að semja sig að landsháttum og verðurfari þar í sama mæli og inúítar.

Sagnir fara af kristnum mönnum frá upphafi norrænnar byggðar á Grænlandi og líklega er ekki mögulegt að tala um neitt alheiðið skeið þar fremur en hér á landi. Samfélagið varð kristið um svipað leyti og tekið var við kristni hér á landi og vegna svipaðra áhrifa, það er frá Noregi og Bretlandseyjum. Ritheimildir greina frá tólf nafngreindum kirkjum í Eystribyggð og fjórum í Vestribyggð. Kirkjur hafa þó verið eitthvað fleiri þar sem leifar af að minnsta kosti 16 kirkjum eru nú kunnar í Eystribyggð einni. Ein þeirra var dómkirkjan í Görðum. Í Eystribyggð voru líka tvö klaustur, eitt fyrir hvort kyn (stofnuð upp úr 1300), með klausturkirkjum. Níu kirknanna voru augljóslega sóknarkirkjur. Ekki er víst að allar kirkjurnar hafi verið í notkun samtímis og leifar af sumum minnstu kirkjunum kunna að varpa ljósi á eldra kirkjubyggingaskeið.

Endurgerð af kirkju Þjóðhildar. Eiríksfjörður er í bakgrunni.

Líklega hefur þróun kirkjubygginga verið svipuð í Grænlandi og hér á landi. Sagnir herma að Þjóðhildur, kona Eiríks Rauða, hafi tekið trú á undan honum og í óþökk hans. Á hún því að hafa reist kirkju fjarri bænum en hún síðar verið flutt og endurreist í nágrenni bæjarhúsanna. Vitað er að hér á landi voru fyrstu kirkjur landsins byggðar utan túngarðs, líklega á fornum kumlateigum, en síðar fluttar heim á bæjarstæðið er kristni efldist í landinu. Líkt kann þessu að hafa verið farið á Grænlandi. Það vekur þó athygli að mikill munur er á þekktum grænlenskum kirkjum og þeim íslensku. Hér voru kirkjur gerðar af timbri eða timbri, torfi og grjóti. Grænlenskar kirkjur voru á hinn bóginn hlaðnar úr tilhöggnu grjóti og kalklímdar. Þá voru þær almennt stærri en íslensku kirkjurnar. Hér má væntanlega greina áhrif frá Bretlandseyjum.

Biskupsdæmið í Görðum heyrði undir sömu erkibiskupa og íslensku biskupsdæmin tvö, það er erkibiskup í Hamborga-Bremen (að minnsta kosti óformlega) en síðar í Lundi og loks Niðarósi. Norrænir menn á Grænlandi hafa leitast við að halda uppi venjubundnu kaþólsku kristnihaldi eins og glöggt kemur fram af þeim gröfum sem kannaðar hafa verið. Oft kann þó að hafa verið erfitt að halda uppi fullgildu helgihaldi meðal annars vegna þess að oft var biskupslaust í landinu, ekki síst eftir að samskipti við umheiminn urðu strjálli.

Handhægt er að fá yfirlit yfir sögu norrænna manna á Grænlandi með hjálp ritsins Grænland í miðaldaritum, sem Ólafur Halldórsson bjó til prentunar (Reykjavík: Sögufélag, 1978). Þá er auðvelt að kynna sér vitnisburð fornleifa með hjálp bókarinnar Fornar byggðir á hjara heims; Lýsingar frá miðaldabyggðum á Grænlandi eftir Poul Nørlund í þýðingu Kristjáns Eldjárn (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1972). Sú bók er þó að stofni til frá 4. áratugi 20. aldar. Ýmislegt nýtt hefur því komið í ljós frá útgáfu hennar.

Myndir:

Höfundur

Hjalti Hugason

prófessor emeritus í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

4.2.2019

Spyrjandi

Matthías

Tilvísun

Hjalti Hugason. „Hvað getið þið sagt mér um trú og siði norrænna manna á Grænlandi?“ Vísindavefurinn, 4. febrúar 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76988.

Hjalti Hugason. (2019, 4. febrúar). Hvað getið þið sagt mér um trú og siði norrænna manna á Grænlandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76988

Hjalti Hugason. „Hvað getið þið sagt mér um trú og siði norrænna manna á Grænlandi?“ Vísindavefurinn. 4. feb. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76988>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um trú og siði norrænna manna á Grænlandi?
Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:

Ég vildi vita meir um norræna menn á Grænlandi, var kaþólska kirkjan með klaustur meðal þeirra og hve mikið er vitað um dómkirkju þeirra sem talað er um. Hvað má segja um greftrunarsiði þeirra og klæðaburð?

Byggð norrænna manna á Grænlandi hefur líklega hafist laust fyrir 990 en hefðbundið er að tímasetja upphaf hennar 985 eða 986. Elstu íslensku heimildina um þessa atburði er að finna í Íslendingabók (6. kap.) Ara fróða Þorgilssonar sem er skráð á áratugnum 1122–1133. Vitneskju sína um Grænland byggði hann á frásögn föðurbróður síns, Þorkels Gellissonar (d. 1074), sem hafði sjálfur verið á Grænlandi líklega um 1055. Þar á hann að hafa rætt við mann er var meðal fyrstu Grænlandsfaranna. Hugsanlega gætu þessar tímasetningar staðist ef Grænlendingurinn hefur komið þangað barn að aldri.

Kort af Vestribyggð norrænna manna. Rauðu punktarnir sýna þekktar bæjarrústir.

Norrænir menn bjuggu aðallega í tveimur byggðakjörnum og voru báðir sunnarlega á vesturströndinni, Eystri- og Vestribyggð. Vestribyggð var norðar eða á svæðinu umhverfis núverandi Nuuk. Hún var einnig fámennari. Flestir norrænu landnemanna hafa verið Íslendingar eða að minnsta kosti flust til Grænlands um Ísland hvort sem þeir höfðu lengri eða skemmri dvöl hér. Þessir norrænu Grænlendingar hafa aldrei verið fjölmennir. Talið er að bæir hafi geta verið hátt á fjórða hundrað og íbúafjöldinn verið í hæsta lagi 4000–5000 manns. Vestribyggð lagðist líklega í eyði á 14. öld og hefur það valdið íbúum Eystribyggðar ýmsum vanda. Samgöngur við Grænland virðast hafa verið strjálar á síðustu áratugum aldarinnar og um 1410 er síðast vitað um ferðir Íslendinga til Grænlands. Landið var þó áfram í sambandi við umheiminn, einkum Noreg, fram eftir 15. öld en byggðin hefur lagst af einhvern tímann upp úr 1500.

Þarna var um norrænt samfélag að ræða sem var framan af í tíðum viðskiptum einkum við Ísland og Noreg en ýmsar verslunarvörur frá Grænlandi voru eftirsóttar ekki síst í Noregi. Má þar meðal annars nefna svarðreipi, rostungstennur og bjarnarfeldi. Í staðinn hafa Grænlendingar fengið þær vörur sem þá vanhagaði um sem hafa verið nokkurn veginn þær sömu og fluttar voru til Íslands á þessum tíma og munaði þar ekki síst um munaðar- og tískuvöru. Ætla má að menningar- og samfélagsaðstæður hafi um margt verið líkar því sem gerðist hér á landi að öðru leyti en að veiðar hafa skipað hærri sess við hlið kvikfjárræktar en gerðist hér á landi. Verkmenning Grænlendinga hinna fornu, klæðaburður og aðrir lífshættir hafa því væntanlega verið með svipuðum hætti og hér. Varðveisluaðstæður valda því til dæmis að greftrunarbúnaður Grænlendinga hefur varðveist vel og sýnir að klæðaburður hefur verið sambærilegur og hér gerðist. Hugsanlega er það einmitt eitt af því sem olli eyðingu norrænnar byggðar á Grænlandi þar sem norrænir menn á Grænlandi hafa ekki náð að semja sig að landsháttum og verðurfari þar í sama mæli og inúítar.

Sagnir fara af kristnum mönnum frá upphafi norrænnar byggðar á Grænlandi og líklega er ekki mögulegt að tala um neitt alheiðið skeið þar fremur en hér á landi. Samfélagið varð kristið um svipað leyti og tekið var við kristni hér á landi og vegna svipaðra áhrifa, það er frá Noregi og Bretlandseyjum. Ritheimildir greina frá tólf nafngreindum kirkjum í Eystribyggð og fjórum í Vestribyggð. Kirkjur hafa þó verið eitthvað fleiri þar sem leifar af að minnsta kosti 16 kirkjum eru nú kunnar í Eystribyggð einni. Ein þeirra var dómkirkjan í Görðum. Í Eystribyggð voru líka tvö klaustur, eitt fyrir hvort kyn (stofnuð upp úr 1300), með klausturkirkjum. Níu kirknanna voru augljóslega sóknarkirkjur. Ekki er víst að allar kirkjurnar hafi verið í notkun samtímis og leifar af sumum minnstu kirkjunum kunna að varpa ljósi á eldra kirkjubyggingaskeið.

Endurgerð af kirkju Þjóðhildar. Eiríksfjörður er í bakgrunni.

Líklega hefur þróun kirkjubygginga verið svipuð í Grænlandi og hér á landi. Sagnir herma að Þjóðhildur, kona Eiríks Rauða, hafi tekið trú á undan honum og í óþökk hans. Á hún því að hafa reist kirkju fjarri bænum en hún síðar verið flutt og endurreist í nágrenni bæjarhúsanna. Vitað er að hér á landi voru fyrstu kirkjur landsins byggðar utan túngarðs, líklega á fornum kumlateigum, en síðar fluttar heim á bæjarstæðið er kristni efldist í landinu. Líkt kann þessu að hafa verið farið á Grænlandi. Það vekur þó athygli að mikill munur er á þekktum grænlenskum kirkjum og þeim íslensku. Hér voru kirkjur gerðar af timbri eða timbri, torfi og grjóti. Grænlenskar kirkjur voru á hinn bóginn hlaðnar úr tilhöggnu grjóti og kalklímdar. Þá voru þær almennt stærri en íslensku kirkjurnar. Hér má væntanlega greina áhrif frá Bretlandseyjum.

Biskupsdæmið í Görðum heyrði undir sömu erkibiskupa og íslensku biskupsdæmin tvö, það er erkibiskup í Hamborga-Bremen (að minnsta kosti óformlega) en síðar í Lundi og loks Niðarósi. Norrænir menn á Grænlandi hafa leitast við að halda uppi venjubundnu kaþólsku kristnihaldi eins og glöggt kemur fram af þeim gröfum sem kannaðar hafa verið. Oft kann þó að hafa verið erfitt að halda uppi fullgildu helgihaldi meðal annars vegna þess að oft var biskupslaust í landinu, ekki síst eftir að samskipti við umheiminn urðu strjálli.

Handhægt er að fá yfirlit yfir sögu norrænna manna á Grænlandi með hjálp ritsins Grænland í miðaldaritum, sem Ólafur Halldórsson bjó til prentunar (Reykjavík: Sögufélag, 1978). Þá er auðvelt að kynna sér vitnisburð fornleifa með hjálp bókarinnar Fornar byggðir á hjara heims; Lýsingar frá miðaldabyggðum á Grænlandi eftir Poul Nørlund í þýðingu Kristjáns Eldjárn (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1972). Sú bók er þó að stofni til frá 4. áratugi 20. aldar. Ýmislegt nýtt hefur því komið í ljós frá útgáfu hennar.

Myndir:

...