Búskapur norrænna manna á Grænlandi var sauðfjárbúskapur, svipaður þeim sem þeir stunduðu í Noregi og á Íslandi. Veiðar voru aldrei ríkur þáttur í þeim búskap og hann var í flestu ólíkur þeim háttum sem reynst hafa frumbyggjum Grænlands, Inúítum, vel í aldaraðir. Byggð norrænna manna hefur væntanlega einkum fest sig í sessi vegna þess að þar ríkti mikið hlýindaskeið þegar landið var numið, ef marka má mælingar á lögum í Grænlandsís. Sömu mælingar sýna hins vegar að síðan hefur loftslag farið kólnandi og upp úr miðri 13. öld ríkir þar samfellt kuldaskeið. Meðalhitastig mun hafa náð lágmarki á síðari hluta 14. aldar. Í Íslendingabók kemur fram að Inúítar (sem norrænir menn kölluðu Skrælingja) hafi ekki búið á sömu slóðum og norrænir menn fyrst í stað, en hins vegar fundu norrænir menn ummerki um þá. Í Hauksbók kemur fram að menn frá Norðursetri, veiðistöð norðan við meginbyggð norrænna manna, hafi nýlega (um 1262) rekist á ummerki um þá. Á fjórtándu öld fluttu þeir suður á bóginn og kom þá til árekstra við norræna menn. Ívar Bárðarson hét maður og var ráðsmaður biskupstólsins á Görðum í Einarsfirði 1349–1368. Hann skrifaði Grænlandslýsingu og kemur þar fram að Vestribyggð hefur þá verið farin í eyði. Telur Ívar að Skrælingjar hafi eytt byggðina. Í Gottskálksannál (frá 16. öld) er getið um skærur norrænna manna og Skrælingja árið 1379. Margar frásagnir eru til um Íslendinga sem hrakti til Grænlands á miðöldum og munu sumir hafa dvalist þar um lengri eða skemmri tíma. Björn Einarsson í Vatnsfirði (d. 1415), sem einnig fór til Landsins helga og sótti heim Jórsali (Jerúsalem), dvaldist þar tvo vetur, 1385–1387. Til eru frásagnir um ferð Bjarnar í Grænlandsannál, sem líkast til er ritaður af Jóni lærða Guðmundssyni um 1623, en er varðveittur í endurskoðaðri gerð Björns Jónssonar á Skarðsá frá því um 1636. Ekki er mikið að treysta á svo unga heimild, en ferðin er einnig nefnd í eldri annálum. Síðasta sigling norrænna manna frá Grænlandi sem öruggum sögum fer af var árið 1410, þegar hópur Íslendinga fór þaðan eftir fjögurra vetra vist. Í páfabréfi frá 1448 segir að enginn biskup hafi verið á Grænlandi síðustu 30 ár og í bréfi frá 1492 kemur fram að þangað hafi ekki komið sigling í 80 ár. Í Grænlandsannál segir frá ferðum Íslendinga til Grænlands á 16. öld. Ögmund Pálsson, biskup í Skálholti, rak þangað 1522 og segir í Grænlandsannál að skipverjar hafi séð þar fólk við stekki og lambfé en samtímaskjöl staðfesta það ekki. Í Grænlandsannál segir einnig frá manni sem kallaður var Jón Grænlendingur. Hann „dreifst iij sinnum til Grænlands með siglingamönnum og sagði frá mörgu þaðan“. Eitt sinn þegar hann rak og félaga hans til Grænlands fann hann þar mann sem lá dauður á grúfu. Hann hafði vel saumaða hettu á höfði en var í klæðum úr selskinni og vaðmáli. Við hlið hans lá tálguhnífur, „mjög forbrýndur og eyddur“ sem þeir tóku með til sýnis. Þessi atburður hefur orðið um 1540 og er þetta seinasti Grænlendingurinn sem sögur fara af. Ekki virðist ósennilegt að maðurinn hafi getað átt vel saumaða hettu, enda hefur fundist húfa í kirkjugarðinum í Herjólfsnesi á Grænlandi, sem saumuð er eftir nýjustu tísku í Búrgúnd eftir 1450. Sýnir hún að svo seint sem á þessum tíma hafa Grænlendingar haft tengsl við Evrópu. Ef treysta má svo ungri heimild hefur þar verið á ferð síðasti Grænlendingurinn. Skoðanir fræðimanna um meginorsök þess að byggðin lagðist af eru skiptar. Er einkum deilt um það hvort Inúítar hafi skipt þar máli, eða hvort erfiður búskapur, kalt loftslag og einangrun frá öðrum Evrópuþjóðum hafi nægt til þess að gera norrænum mönnum óbyggilegt á Grænlandi. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað hét byggð Eiríks rauða á Grænlandi og hvaða heimildir eru til um hana og endalok hennar? eftir Sverri Jakobsson
- Af hverju heitir Ísland ekki Grænland og Grænland þá Ísland? eftir Svavar Sigmundsson
- Greenland Guide efri mynd: Ísjaki við Grænlandsstrendur; neðri mynd: Hvalseyjarkirkja á Grænlandi, reist af norrænum mönnum.