Ásdís Egilsdóttir er prófessor emerita við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ásdís hefur lagt áherslu á ýmis minna þekkt svið íslenskra miðaldabókmennta, svo sem heilagra manna sögur, helgikvæði, fornaldar- og riddarasögur.
Meðal mikilvægustu rita Ásdísar má telja útgáfu hennar á biskupasögunum Hungurvöku, Páls sögu og Þorláks sögu ásamt jarteinabókum fyrir Íslenzk fornrit. (Biskupa sögur II, Íslenzk fornrit 16, Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 2002). Einnig ritaði hún bókmenntasögulegan inngang um biskupasögur fyrir sömu ritröð. (Biskupa sögur I, Íslenzk fornrit 15, Reykjavik: Hið íslenzka fornritafélag, 2003). Í rannsóknum sínum á biskupasögum hefur Ásdís leitast við að sýna fram á tengsl við evrópska lærdómshefð. Ritröðin Íslenzk fornrit er ætluð bæði fræðimönnum og almenningi.
Í tilefni af sjötugsafmæli Ásdísar í október 2016 tóku nokkrir starfsfélagar hennar saman greinasafnið Fræðinæmi (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 2016). Bókin skiptist í þrjá hluta, I Helgisögur, II Karlmennska og kynferði, III Ritun og þýðingar og endurspegla þessir þrír hlutar rannsóknasvið Ásdísar. Með greinum sínum um helgisögur sýnir Ásdís fram á mikilvægi trúarlegra miðaldabókmennta fyrir íslenzka bókmenntasögu. Þar fjallar hún jöfnum höndum um íslenska og innflutta dýrlinga, en einnig dýrlingsefni. Þar bendir hún á að einsetumanninum Ásólfi alskik í Landnámabók, höfðingjanum Hrafni Sveinbjarnarsyni og einsetukonunni Hildi á Hólum sé lýst sem dýrlingsefnum, þó ekkert hafi orðið úr vegsömun þeirra.
Ásdís var brautryðjandi í rannsóknum á karlmennsku í íslenskum miðaldabókmenntum. Þar hefur hún meðal annars kannað sögur um svokallaða kolbíta, en það eru drengir sem ekki vilja leika sér í hefðbundnum drengjaleikum sem eiga að búa þá undir hlutverk hins fullorðna karlmanns. Í greinum sínum um ritun og þýðingar hefur Ásdís kannað samspil minnis og ritunar og bent á myndmál tengt hugmyndum lærðra manna á miðöldum um minnistækni.Ásdís var um árabil ritstjóri ritraðarinnar Studia Islandica/Íslensk fræði. Hún hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegu og norrænu rannsóknasamstarfi.
Ásdís er fædd árið 1946 og lauk stúdentsprófi frá máladeild Menntaskólans í Reykjavík 1966. Hún lauk BA-prófi í íslensku, bókasafnsfræði og frönsku 1970 og var ráðin strax að loknu námi til starfa við bókasafn Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi. Ásamt störfum við bókasafnið og barnauppeldi hóf hún nám að nýju og lauk kandídatsprófi í íslenskum bókmenntum 1982. Sama ár varð hún stundakennari við Háskóla Íslands. Hún var ráðin lektor 1991 og lauk störfum sem prófessor í októberlok 2016.
Mynd:- © Erlendur Sveinsson.