Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hugtakið riddarasögur er notað um veraldlegar frásagnarbókmenntir sem voru þýddar á norræna tungu á miðöldum. Einnig eru til margar frumsamdar riddarasögur en um þær er ekki fjallað hér.
Í öðru bindi Íslenskrar bókmenntasögu fjallar Torfi H. Tulinius um riddarasögur. Þar er meðal annars að finna lista yfir þýddar riddarasögur:
Úr latínu
Alexanders saga
Amicus saga og Amilíus
Breta sögur
Clari saga (Klári saga)
Trójumanna saga
Úr frönsku
Bevers saga
Elís saga og Rósamundu
Erex saga
Flóres saga og Blankiflúr
Flóventssaga
Ívents saga
Karlamagnús saga
Möttuls saga
Parcevals saga
Valvers þáttur
Partalopa saga
Strengleikar
Tristrams saga og Ísöndar
Úr þýsku
Þiðreks saga af Bern
Frumtextar riddarasagna tilheyra mörgum bókmenntagreinum. Á frummálinu eru Strengleikar og Möttuls saga svonefndar stuttar ljóðsögur eða lais á frönsku, Trójumanna saga og Breta sögur tilheyra gervisagnfræði miðalda og Karlamagnús saga tilheyrir bókmenntagreininni chansons de geste sem hefur verið nefnd kappakvæði á íslensku.
Þýskt handrit af kappakvæðinu
La Chanson de Roland. Í Karlamagnús sögu nefnist kvæðið Af Rúnzivals bardaga.
Hugtakið bókmenntagrein er þýðing á genre en það er dregið af latneska orðinu genus sem merkir tegund. Höfuðgreinar bókmennta eru taldar vera þrjár:
epík sem er sagnaskáldskapur eins og Hómerskviður
dramatík eða leikritun
lýrik sem er notað um kveðskap sem túlkar helst tilfinningar og hugblæ
Þar sem riddarasögur eru þýðingar á verkum úr ýmsum bókmenntagreinum, deila þær ekki alltaf efnistökum og formlegum einkennum. Torfi H. Tulinius bendir hins vegar á eitt sameinkenni riddarasagnanna:
Riddarasögur eru þýðingar ólíkra bókmenntaverka eins og áður hefur komið fram, og því er erfitt að fjalla um bókmenntaleg einkenni þeirra í einu máli. Þó eiga þær það sammerkt að þær opna heim sem er jafn framandi lesendum nútímans og íslenskum lesendum á miðöldum. Það er heimur riddarans, en hann er einn helsti persónugervingur evrópskrar miðaldamenningar. (208)
Sem þýðingar mætti þess vegna telja riddarasögur sérstaka bókmenntagrein þar sem fjallað er um hugmyndaheim riddaramennskunnar.
Heimild og mynd:
Torfi H. Tulinius, "Hefðin auðgast - þýddar riddarasögur", í Íslensk bókmenntasaga II, Mál og menning, Reykjavík, 1993, bls. 195-217.
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Eru þýddar riddarasögur sérstök bókmenntagrein?“ Vísindavefurinn, 12. mars 2004, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4052.
Jón Gunnar Þorsteinsson. (2004, 12. mars). Eru þýddar riddarasögur sérstök bókmenntagrein? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4052
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Eru þýddar riddarasögur sérstök bókmenntagrein?“ Vísindavefurinn. 12. mar. 2004. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4052>.