En bókmenntir eru ekki alltaf ritaðar. Í Grikklandi var löng og merkileg hefð fyrir munnlegum kveðskap. Þessari hefð tilheyrir meðal annars Hómer. Hómerískur kveðskapur, það er epískur kveðskapur af sama tagi og kviður Hómers, var því til löngu áður en elstu rituðu bókmenntir Grikkja urðu til. Efni Hómerskviða og mál þeirra átti sér því nokkurra alda langa mótunarsögu áður en kviður Hómers urðu til í þeirri mynd sem við þekkjum þær. Einnig ber að nefna lýrískan kveðskap, sem var allt öðruvísi en Hómerskviður. Lýrískur (eða melískur) kveðskapur voru kvæði, sungin við undirleik lýru, sem var strengjahljóðfæri, eða annarra hljóðfæra, svo sem kiþaris, forminx eða aulos. Lýríski kveðskapurinn gat ýmist verið einsöngur eða kórljóð. Í dag er elegískur og jambískur kveðskapur, það er kvæði sem samin voru undir elegískum og jambískum bragarháttum, gjarnan talinn með lýrískum kveðskap þótt hann hafi ekki verið sunginn með sama hætti. Elstu varðveittu lýrísku kvæðin eru frá 7. og 6. öld f.Kr. eftir skáld eins og Arkilokkos, Semonídes og Týrtajos, Alkman, Alkajos og Saffó meðal annarra. Fræðimönnum þykir þó ljóst að bókmenntaformið sem lýrísku kvæðin tilheyra varð ekki til á 7. öld f.Kr. heldur miklu fyrr. En þau lýrísku kvæði sem voru samin áður en mögulegt var að rita þau niður áttu sér enga munnlega geymd eins og Hómerskviður og hafa því öll glatast. Svarið er því í stuttu máli að um upphaf grískra bókmennta höfum við engar heimildir, Ilíonskviða Hómers er að líkindum elsta gríska bókmenntaverkið sem til er; við vitum að grískar bókmenntir, bæði epískur og lýrískur kveðskapur, áttu sér alda langa sögu hjá Grikkjum fyrir tíma Hómers en við vitum ekkert um þau kvæði sem þá voru samin eða höfunda þeirra af því að þau eru ekki varðveitt. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver er skilgreiningin á epík, lýrik og dramatík? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Um hvað fjalla Hómerskviður? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Á hvaða árum gerast grísku goðsögurnar? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Ambrosian Iliad. Sótt 5.10.2010.