Dramatík er myndað eftir gríska orðinu drama sem merkir 'athöfn, framkvæmd, atburðarás'. Í dramatík í upphaflegri merkingu orðsins eiga atburðirnir sér yfirleitt stað í nútíð og dramatík tengdist leiksviði hjá Forngrikkjum. Epíkin er aftur á móti frásögn sögumanns af atburðum sem hafa gerst eða eiga að hafa gerst. Á íslensku er orðið leikritun stundum notað fyrir dramatík. Lýrik er dregið af gríska orðinu lyra sem var strengjahljóðfæri. Í upphafi átti orðið lýrik aðeins við söng með lýruundirleik en nú er það samheiti yfir kveðskap sem túlkar helst tilfinningar og hugblæ. Lýrískur skáldskapur er andstæða epísks skáldskapar sem lýsir frekar því ytra og hlutlæga og segir af atburðum sem hafa gerst eða eiga að hafa gerst, ólíkt hinu lýríska sem lýtur að núinu eða hinu ókomna og lýsir oft hinu huglæga án þess að vísa endilega til atburða. Einnig má minnast á orðið dídaktík sem er notað um fræðiljóð eða fræðiskáldskap. Dídaktík er dregið af gríska orðinu didaskein sem merkir 'kenna'. Dídaktískur skáldskapur hefur fræðslu að meginmarkmiði. Kunn fræðiljóð eru til dæmis Verk og dagar eftir gríska skáldið Hesíodos sem fjallar um landbúnað og Um eðli hlutanna eftir Rómverjann Lucretius sem er einnig þekkt undir latneska heitinu, De rerum natura. Af íslenskum dídaktískum skáldskap má nefna Búnaðarbálk eftir Eggert Ólafsson. Rétt er að nefna að sumir gera lítinn greinarmun á dídaktík og epík. Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Hver var þekktasta skáldkona Forngrikkja? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Hver var Hómer og eru til einhverjar traustar heimildir um hann? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hvar er best að finna heimildir um leiklist Forn-Grikkja? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hver var fyrsta skáldsagan? eftir Torfa Tulinius
- Aristóteles, Um skáldskaparlistina (þýð. Kristján Árnason), Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 1976.
- Jakob Benediktsson (ritstj.), Hugtök og heiti í bókmenntafræði, Mál og menning, Reykjavík 1989.
- Kristján Árnason, "Forngrísk ljóðlist", í Grikkland ár og síð (ritstj. Sigurður A. Magnússon o. fl.), Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 1991, s. 163-179.
- Greek Masks