Hvað getur þú sagt mér um helluhraun? Hvað er það, hvar er það helst að finna og hverjar eru helstu upplýsingar um slík hraun?Helluhraun (e. pahoehoe) er algengasta tegund basalthrauna á landi. Eins og nafnið gefur til kynna, auðkennist yfirborð helluhrauna af samfelldri hraunhellu, sem ýmist er slétt eða öldótt (bylgjulaga), eða kuðluð í fellingar sem líkjast reipum. Helluhraun eru áberandi í öllum eldgosabeltum landsins. Ef til vill setja þau hvergi eins mikinn svip á landið og á svæðinu frá Hafnarfirði til Keflavíkur, þar sem hraunin mynda samfellda hellu, ef undan eru skilin Kapellu- og Afstapahraun. Stærð helluhrauna er mjög misjöfn. Þau hafa myndað hraunbreiður sem eru allt frá fáeinum tugum upp í tugþúsundir ferkílómetra.[1] Til dæmis þekur Þjórsárhraun, sem er lengsta helluhraunbreiða Íslands (um 130 kílómetrar), um 950 ferkílómetra.[2] Til samanburðar er lengd Roza-hraunsins frá Kólumbía-flæðibasaltsvæðinu í Washingtonríki í Bandaríkjunum rétt yfir 300 kílómetrar og flatarmál þess um 40.000 ferkílómetrar. Svarar það til ríflega þriðjungs af flatarmáli Íslands.[3] Algengasta stærð helluhraunbreiða er á bilinu 20-200 ferkílómetrar. Þykkt helluhraun getur verið allt frá nokkrum tugum sentimetra upp í nokkur hundruð metra, en algengustu helluhraun eru 5-15 metra þykk. Venjulega eru stærstu hraunbreiðurnar þykkastar. Þannig er meðalþykkt Þjórsárhrauns rétt yfir 23 metrum og Roza-hraunsins um 36 metrar. Dyngjuhraunin, og þá sérstaklega þau íslensku, eru þar nokkuð sér á báti, því að mesta þykkt þeirra getur náð nokkur hundruð metrum (100-600 metrar) þótt flatarmál þeirra sé hlutfallslega lítið, eða á bilinu 50-200 ferkílómetrar.[4] Tilvísanir:
- ^ Tolan og fleiri, 1989. Revision to the estimates of the aerial extent and volume of the Columbia River Basalt Group. Volcanism and Tectonism in the Columbia River flood-basalt province (S. P. Reidel og R. Hooper ritstjórar). Geological Society of America Special Paper 239. Geological Society of America, Boulder, CO, 1-20.
- ^ Elsa G. Vilmundardóttir, 1977. Tungnárhraun. Jarðfræðiskýrsla. OS ROD 7702. Orkustofnun, Reykjavík. Árni Hjartarson, 1988. Þjórsárhraunið mikla – stærsta nútímahraun jarðar. Náttúrufræðingurinn 58: 1-16.
- ^ Thordarson, T. og S. Self, 1998. The Roza Member, Columbia River Basalt Gropup: A gigantic pahoehoe lava flow field formed by endogenous processes? Journal of Geophysical Reserach, 103(B11), 27411-27445.
- ^ Rossi, M. J., 1996. Morphology and mechanism of eruption of postglacial shield volcanoes in Iceland. Bulletin of Volcanology, 57, 530-540. Sinton, J. og fleiri, 2005. Postglacial eruptive history of the Western Volcanic Zone, Iceland. Geochemistry, Geophysics, Geosystems, 6, Q12009; doi:10.1029/2005GC001021.
- JGÞ. Myndin er tekin í Geldingadölum 9.4.2021.