Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er dyngjugos?

Sigurður Steinþórsson

Dyngjur eru sérstök gerð af eldstöðvum sem í fyrstu atrennu eru skilgreindar með útliti sínu – hringlaga skildir með gíg á toppi. Frægust þeirra er Skjaldbreiður, „Ógna skjöldur bungubreiður / ber með sóma réttnefnið“ með orðum Jónasar Hallgrímssonar í kvæðinu Skjaldbreiður.

Myndun þeirra hér á landi hefur verið tengd ísaldarlokunum, því þær hafa flestar eða allar myndast fyrir meira en 6000 árum, og langflestar fyrir 8000-12000 árum. Því er sú hugmynd uppi að þær tengist risi landsins eftir að ísaldarjökullinn hvarf skyndilega, og hafi þrýstiléttir valdið mikilli bráðnun í jarðmöttlinum undir Íslandi. Rannsóknir benda til þess að fyrstu árþúsundin eftir að ísaldarjökullinn hvarf hafi eldvirkni, í rúmmáli á tímaeiningu talið, verið yfir 30 sinnum meiri en nú, og þar eiga dyngjurnar stærstan þátt.

Dyngjur eru bæði smáar og stórar – hinar smæstu eru 1/100 rúmkílómetri, til dæmis er Háleyjarbunga við Reykjanes 0,013 km3, en hinar stærstu eins og Skjaldbreiður og Trölladyngja kunna að vera allt að 50 km3 að rúmmáli. Sé aðeins miðað við rúmmál þessara dyngja ofan við flatlendið í kring, er það 15-20 km3, en þyngdarmælingar benda til þess að þykk hraun liggi undir þeim. Jafnframt má líta svo á að sumir stapar (til dæmis Herðubreið og Hlöðufell) séu í rauninni dyngjur sem urðu til í gosum undir bráðnandi jökli við lok ísaldar. Eiríksjökull er stærstur þeirra, 50 km3.

Trölladyngja kann að vera allt að 50 km3 að rúmmáli.

Talið er að stóru dyngjurnar, að minnsta kosti, hafi myndast í langvarandi, hægfara hraungosi úr einum gíg, því ella hefði hraunið runnið langar leiðir frá eldstöðinni eins og til dæmis varð í sprungugosum sem mynduðu Þjórsárhraun fyrir 8700 árum (25 km3), Eldgjárhraun um 934 (20 km3) og Skaftáreldahraun 1783 (15 km3). Þorleifur Einarsson (1968) lýsir dyngjum svo: „Flatir reglulegir hraunskildir úr þunnum hraunlögum sem myndast við flæðigos er þunnfljótandi hraunkvika streymir upp um kringlótt gosop mánuðum eða árum saman.“ Hliðarhalli dyngja er minni en 8° og oft er halli ekki meiri en 1-5°. Dyngjuhraun eru ætíð þunn og beltuð helluhraun. Nær ekkert hraunrennsli er á yfirborði, heldur rennur kvikan í göngum oft langar leiðir og vellur síðan upp hér og þar. Tæmist þessi göng liggja eftir hraunhellar, sumir mjög langir. Slíkir hraunhellar eru allalgengir í dyngjuhraunum.

Eftir að gígur Surtseyjar lokaðist fyrir aðgangi sjávar og hraun tók að renna hlóðst upp „dyngja“ ofan á túffsökklinum. Hins vegar má um það deila hvort Surtseyjargosið hafi verið raunverulegt dyngjugos, þótt langt væri, því það sker sig frá öllum öðrum dyngjum í efnasamsetningu bergsins — alkalískt en ekki lágalkalískt — og var auk þess ekki tengt landrisi. Hvort svo hafi verið, kann að vera deila um keisarans skegg, en kemur þó málinu við þegar því er spáð að við Upptyppinga austan við Öskju kunni að vera von á dyngjugosi í framtíðinni. Þar væri efnasamsetningin að vísu „rétt“ en tengsl við landris ekki.

Sé dyngjugos hins vegar skilgreint sem langvarandi basalt-hraungos á kringlóttum gíg, gætu komandi kynslóðir hugsanlega orðið vitni að slíku gosi, enda verða frægustu dyngjugosin á Hawaii, óháð áhrifum ísaldar. Vegna þess hve miklu stærri dyngjur Hawaii og fleiri Kyrrahafseyja eru en hinar íslensku, gera sumir fræðimenn mun á þeim — nefna hinar íslensku „lava shields“ (hraunskildi) en hinar stóru „shield volcanoes“. Í báðum tilvikum vísar orðið skjöldur (e. shield) til lögunar þessara eldstöðva eingöngu. Raunar má geta þess í lokin að nafngiftin dyngja fyrir hraunskildina byggist sennilega á misskilningi: Á ferð sinni um Ódáðahraun 1898 mun Þorvaldur Thoroddsen hafa talið Trölladyngjur vera nafn á eldstöð þeirri sem síðan nefnist Trölladyngja, en átti hins vegar við fjöll þau sem nú nefnast Dyngjufjöll.

Heimild og mynd:

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

8.7.2010

Síðast uppfært

24.3.2021

Spyrjandi

Agla Sól Mikaelsdóttir, f. 1995

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er dyngjugos?“ Vísindavefurinn, 8. júlí 2010, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=56348.

Sigurður Steinþórsson. (2010, 8. júlí). Hvað er dyngjugos? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=56348

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er dyngjugos?“ Vísindavefurinn. 8. júl. 2010. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=56348>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er dyngjugos?
Dyngjur eru sérstök gerð af eldstöðvum sem í fyrstu atrennu eru skilgreindar með útliti sínu – hringlaga skildir með gíg á toppi. Frægust þeirra er Skjaldbreiður, „Ógna skjöldur bungubreiður / ber með sóma réttnefnið“ með orðum Jónasar Hallgrímssonar í kvæðinu Skjaldbreiður.

Myndun þeirra hér á landi hefur verið tengd ísaldarlokunum, því þær hafa flestar eða allar myndast fyrir meira en 6000 árum, og langflestar fyrir 8000-12000 árum. Því er sú hugmynd uppi að þær tengist risi landsins eftir að ísaldarjökullinn hvarf skyndilega, og hafi þrýstiléttir valdið mikilli bráðnun í jarðmöttlinum undir Íslandi. Rannsóknir benda til þess að fyrstu árþúsundin eftir að ísaldarjökullinn hvarf hafi eldvirkni, í rúmmáli á tímaeiningu talið, verið yfir 30 sinnum meiri en nú, og þar eiga dyngjurnar stærstan þátt.

Dyngjur eru bæði smáar og stórar – hinar smæstu eru 1/100 rúmkílómetri, til dæmis er Háleyjarbunga við Reykjanes 0,013 km3, en hinar stærstu eins og Skjaldbreiður og Trölladyngja kunna að vera allt að 50 km3 að rúmmáli. Sé aðeins miðað við rúmmál þessara dyngja ofan við flatlendið í kring, er það 15-20 km3, en þyngdarmælingar benda til þess að þykk hraun liggi undir þeim. Jafnframt má líta svo á að sumir stapar (til dæmis Herðubreið og Hlöðufell) séu í rauninni dyngjur sem urðu til í gosum undir bráðnandi jökli við lok ísaldar. Eiríksjökull er stærstur þeirra, 50 km3.

Trölladyngja kann að vera allt að 50 km3 að rúmmáli.

Talið er að stóru dyngjurnar, að minnsta kosti, hafi myndast í langvarandi, hægfara hraungosi úr einum gíg, því ella hefði hraunið runnið langar leiðir frá eldstöðinni eins og til dæmis varð í sprungugosum sem mynduðu Þjórsárhraun fyrir 8700 árum (25 km3), Eldgjárhraun um 934 (20 km3) og Skaftáreldahraun 1783 (15 km3). Þorleifur Einarsson (1968) lýsir dyngjum svo: „Flatir reglulegir hraunskildir úr þunnum hraunlögum sem myndast við flæðigos er þunnfljótandi hraunkvika streymir upp um kringlótt gosop mánuðum eða árum saman.“ Hliðarhalli dyngja er minni en 8° og oft er halli ekki meiri en 1-5°. Dyngjuhraun eru ætíð þunn og beltuð helluhraun. Nær ekkert hraunrennsli er á yfirborði, heldur rennur kvikan í göngum oft langar leiðir og vellur síðan upp hér og þar. Tæmist þessi göng liggja eftir hraunhellar, sumir mjög langir. Slíkir hraunhellar eru allalgengir í dyngjuhraunum.

Eftir að gígur Surtseyjar lokaðist fyrir aðgangi sjávar og hraun tók að renna hlóðst upp „dyngja“ ofan á túffsökklinum. Hins vegar má um það deila hvort Surtseyjargosið hafi verið raunverulegt dyngjugos, þótt langt væri, því það sker sig frá öllum öðrum dyngjum í efnasamsetningu bergsins — alkalískt en ekki lágalkalískt — og var auk þess ekki tengt landrisi. Hvort svo hafi verið, kann að vera deila um keisarans skegg, en kemur þó málinu við þegar því er spáð að við Upptyppinga austan við Öskju kunni að vera von á dyngjugosi í framtíðinni. Þar væri efnasamsetningin að vísu „rétt“ en tengsl við landris ekki.

Sé dyngjugos hins vegar skilgreint sem langvarandi basalt-hraungos á kringlóttum gíg, gætu komandi kynslóðir hugsanlega orðið vitni að slíku gosi, enda verða frægustu dyngjugosin á Hawaii, óháð áhrifum ísaldar. Vegna þess hve miklu stærri dyngjur Hawaii og fleiri Kyrrahafseyja eru en hinar íslensku, gera sumir fræðimenn mun á þeim — nefna hinar íslensku „lava shields“ (hraunskildi) en hinar stóru „shield volcanoes“. Í báðum tilvikum vísar orðið skjöldur (e. shield) til lögunar þessara eldstöðva eingöngu. Raunar má geta þess í lokin að nafngiftin dyngja fyrir hraunskildina byggist sennilega á misskilningi: Á ferð sinni um Ódáðahraun 1898 mun Þorvaldur Thoroddsen hafa talið Trölladyngjur vera nafn á eldstöð þeirri sem síðan nefnist Trölladyngja, en átti hins vegar við fjöll þau sem nú nefnast Dyngjufjöll.

Heimild og mynd:

...