Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Þorvaldur Thoroddsen og hvert var hans framlag til vísinda og fræða?

Páll Imsland

Þorvaldur Thoroddsen er fyrsti Íslendingurinn sem lagði jarðfræði fyrir sig í námi og starfi. Hann varð heimsfrægur fyrir rannsóknir sínar á jarðrænni gerð Íslands og þeim ferlum sem þar eru virk. Hann er með mikilvirkustu rithöfundum Íslandssögunnar og í raun landkönnuður Íslands, enda skoðaði hann landið allt að kalla, vítt og breitt, og snúast flest hans skrif um það og náttúrur þess. Fáir munu fyrr en á geimtækniöld hafa ferðast svo vítt um landið og haft jafn víða yfirsýn um það og hann hafði. Fáir hafa líka ritað meira um það en hann. Hjátrúar- og hindurvitnalaus ferðaðist hann á hestum um landið hátt og lágt sumar eftir sumar þegar fólk trúði því býsna almennt að hálendi landsins byggðu fjandsamlegir útilegumenn og þegar mestu harðindaár Íslandssögunnar réðu færð og veðrum.

Þorvaldur fæddist í Flatey á Breiðafirði 1855 og lést í Kaupmannahöfn 1921. Foreldrar hans voru Jón Thoroddsen (1818-1868) skáld og sýslumaður og kona hans Kristín Ólína Þorvaldsdóttir (1833-1879). Á bak við þau bæði eru ættir athafna- og dugnaðarmanna sem hafa haft áhrif á Íslandssöguna. Þorvaldur lærði undirstöðufög í heimahúsum, en ellefu ára gamall fór hann frá foreldrum sínum til Jóns Árnasonar stiftsbókavarðar og konu hans í Reykjavík til þess að búa sig undir skóla. Þorvaldur kom í Lærða skólann 13 ára gamall árið 1868 og varð þaðan stúdent árið 1875. Hann útskrifaðist með 2. einkunn, næstlægstur sinna félaga, og þótti aldrei sérstakur námsmaður í þeim skóla. Fyrir því er þekkt ástæða sem ekki lýtur að skorti á námsgáfum.



Þorvaldur Thoroddsen (1855-1921).

Þorvaldur las mikið af fræðiritum meðfram skólanámi. Mest áhrif á hann hafði hið gríðarmikla verk um heiminn, Kosmos eftir Alexander von Humboldt, en einnig bækur um þróunarkenningu Darwins og jarðfræði eftir Charles Lyell. Þorvaldur las ekki einungis endursagnir annarra af náttúrufræðum heldur las hann á þessum árum fræðirit eftir öndvegishöfunda fræðanna meðal annars þá menn sem hvað mestu hafa áorkað um að gera náttúrufræðin að höfuðgreinum. Þó Þorvaldur kæmi út úr Lærða skólanum með slaka einkunn þá kom hann þaðan mjög vel undirbúinn undir það nám sem hann tók sér fyrir hendur í háskóla, miklu betur en skólinn stuðlaði að. Þetta sáu samtíðarmenn hans alls ekki og hnýttu í hann á þeim forsendum að hann hefði verið slakur námsmaður í skóla.

Þorvaldur sigldi til náms í náttúrufræðum við Kaupmannahafnarháskóla 1875 og var við skólann til 1880. Honum gekk námið mjög vel. Hann lauk þó ekki prófi frá skólanum. Hugur hans stóð til þess, en hann hætti námi til þess að tryggja sér starf heima á Íslandi. Kennarar hans við háskólann voru margir, en mest sótti hann til Steenstrups (1813-1897) í dýrafræði og Johnstrups (1818-1894) í jarðfræði. Þorvaldur var alla tíð gífurlegur dugnaðarmaður og virðist aldrei hafa verið verklaus. Á skólaárunum var hann strax farinn að rita fræðilegar greinar í tímarit. Einnig hélt hann fyrirlestra um Ísland og vann fyrir prófessora ýmis störf, svo sem að rita upp ýmislegt sem hann hafði á reiðum höndum um Ísland og íslenska jarðfræði fyrir fyrirlestrahald þeirra. En merkilegasta starf hans í þessu sambandi var án efa Íslandsför hans árið 1876 með Johnstrup til þess að rannsaka ummerki eldsumbrotanna í Dyngjufjöllum árið 1875. Það varð hans fyrsti en ekki síðasti rannsóknarleiðangur.

Þorvaldur varð kennari í nýstofnuðum Möðruvallaskóla árið 1880 og var þar til 1884. Hann var kennari við Lærða skólann frá 1885 til 1895. Árin 1884-1885 var hann á ferðalagi erlendis til náms og gagnasöfnunar og hann var aftur erlendis 1892-1893, þá orðinn vel þekktur fræðimaður. Árið 1895 flutti Þorvaldur alfarinn til Kaupmannahafnar og sat þar við fræðastörf og skriftir það sem eftir var ævinnar.

Þorvaldur notaði sumrin á milli kennslumissera til rannsókna og fór í kerfisbundna leiðangra um landið allt á árunum 1882-1898. Úr þessum rannsóknum kom aragrúi ritgerða og bóka sem lýstu og útskýrðu landið og náttúrur þess. Segja má að landið hafi verið óþekkt jarðfræðilega þegar hann byrjaði, aðeins til fáeinar greinargerðir á víð og dreif eftir hina og þessa, mest útlendinga og mest ómenntaða menn á sviði jarðfræði. Þegar hann lauk sínum skrifum var til heildarmynd svo glögg og yfirgripsmikil að enginn jarðfræðingur sem unnið hefur á Íslandi hefur komist hjá því að fara í fótspor hans og byggja á þeirri frumþekkingu sem hann dró saman. Hann var ekki sérfræðingur með þröngt áhugasvið heldur víðsýnn fræðimaður og landkönnuður sem las alla þá náttúru sem fyrir augun bar og gerði grein fyrir henni.



Hluti af jarðfræðikorti Þorvaldar Thoroddsen sem gefið var út í Kaupmannahöfn 1901.

Ritstörf Þorvaldar voru með eindæmum mikil og margbreytileg, allt frá stuttum athugasemdum upp í fjögurra binda stórvirki. Landfræðisagan kom í fjórum bindum á árunum 1892-1904 og er nú nýlega endurútgefin (2003-2009), þýsk útgáfa af sama verki kom út í tveimur bindum 1897-1898, Landskjálftar á Íslandi í tveimur hlutum 1899 og 1905, endurbætt 2. útgáfa af Lýsingu Íslands kom út árið 1900, jarðfræðikort af Íslandi í kvarðanum 1:600.000 frá árinu 1901, Island, Grundriss der Geographie und Geologie ásamt nýrri útgáfu af jarðfræðikortinu í kvarðanum 1:750.000 kom út 1906, og stórlega endurbætt Lýsing Íslands í tveimur bindum árin 1908 og 1911 og tvö viðbótarbindi um landbúnað á Íslandi á árunum 1917-1922. Ferðabókin kom út í fjórum bindum árin 1913-1915 og aftur 1958-1960, Árferði á Íslandi 1915-16 og þriðja útgáfan af stuttu Íslandslýsingunni árið 1919 og fleira mætti telja. Á árunum 1909-1912 ritaði hann einnig hið mikla verk sitt um íslensk eldfjöll, Geschichte der Isländischen Vulkane, sem þó kom ekki út fyrr en að honum látnum. Auk þessara bókverka komu á þessum árum ótal greinar, stuttar og langar, í ýmsum blöðum og tímaritum, íslenskum og erlendum, alþýðlegum og hávísindalegum, um ýmis efni, langflest náttúrufræðileg.

Ísland er ólíkt öðrum löndum og því var Þorvaldur að fást við annað en fræðimenn á sama sviði erlendis. Fyrir vikið er afar margt í skrifum hans sem ekki finnst annars staðar á prenti á þessum tímum. Hann varð enda heimsfrægur fyrir störf sín og mun frægari erlendis en samtímamenn hans hér heima gerðu sér grein fyrir. Dagblöð allt frá New York til Moskvu sögðu frá ferðum hans og uppgötvunum. Honum hlotnuðust líka ótal viðurkenningar erlendis fyrir framlag sitt. Þar á meðal eru viðurkenningar frá virtustu vísindafélögum og akademíum beggja vegna Atlantshafs. Ein þessara viðurkenninga er Daly-orðan frá ameríska landfræðifélaginu sem jafnað hefur verið til Nóbelsverðlauna, sem ekki eru veitt fyrir jarðvísindi. Hér heima var honum lítill sómi sýndur.

Myndir:

  • Mynd af Þorvaldi: Veðurstofa Íslands. Myndin er upprunulega úr: Bogi Th. Melsted: Þorvaldur Thoroddsen: um ævi hans og störf. Kaupmannahöfn, 1923. Sótt 21. 2. 2011.
  • Mynd af jarðfræðikorti: Veðurstofa Íslands. Sótt 21. 2. 2011.

Höfundur

Páll Imsland

jarðfræðingur

Útgáfudagur

8.3.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Páll Imsland. „Hver var Þorvaldur Thoroddsen og hvert var hans framlag til vísinda og fræða?“ Vísindavefurinn, 8. mars 2011, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58559.

Páll Imsland. (2011, 8. mars). Hver var Þorvaldur Thoroddsen og hvert var hans framlag til vísinda og fræða? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58559

Páll Imsland. „Hver var Þorvaldur Thoroddsen og hvert var hans framlag til vísinda og fræða?“ Vísindavefurinn. 8. mar. 2011. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58559>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Þorvaldur Thoroddsen og hvert var hans framlag til vísinda og fræða?
Þorvaldur Thoroddsen er fyrsti Íslendingurinn sem lagði jarðfræði fyrir sig í námi og starfi. Hann varð heimsfrægur fyrir rannsóknir sínar á jarðrænni gerð Íslands og þeim ferlum sem þar eru virk. Hann er með mikilvirkustu rithöfundum Íslandssögunnar og í raun landkönnuður Íslands, enda skoðaði hann landið allt að kalla, vítt og breitt, og snúast flest hans skrif um það og náttúrur þess. Fáir munu fyrr en á geimtækniöld hafa ferðast svo vítt um landið og haft jafn víða yfirsýn um það og hann hafði. Fáir hafa líka ritað meira um það en hann. Hjátrúar- og hindurvitnalaus ferðaðist hann á hestum um landið hátt og lágt sumar eftir sumar þegar fólk trúði því býsna almennt að hálendi landsins byggðu fjandsamlegir útilegumenn og þegar mestu harðindaár Íslandssögunnar réðu færð og veðrum.

Þorvaldur fæddist í Flatey á Breiðafirði 1855 og lést í Kaupmannahöfn 1921. Foreldrar hans voru Jón Thoroddsen (1818-1868) skáld og sýslumaður og kona hans Kristín Ólína Þorvaldsdóttir (1833-1879). Á bak við þau bæði eru ættir athafna- og dugnaðarmanna sem hafa haft áhrif á Íslandssöguna. Þorvaldur lærði undirstöðufög í heimahúsum, en ellefu ára gamall fór hann frá foreldrum sínum til Jóns Árnasonar stiftsbókavarðar og konu hans í Reykjavík til þess að búa sig undir skóla. Þorvaldur kom í Lærða skólann 13 ára gamall árið 1868 og varð þaðan stúdent árið 1875. Hann útskrifaðist með 2. einkunn, næstlægstur sinna félaga, og þótti aldrei sérstakur námsmaður í þeim skóla. Fyrir því er þekkt ástæða sem ekki lýtur að skorti á námsgáfum.



Þorvaldur Thoroddsen (1855-1921).

Þorvaldur las mikið af fræðiritum meðfram skólanámi. Mest áhrif á hann hafði hið gríðarmikla verk um heiminn, Kosmos eftir Alexander von Humboldt, en einnig bækur um þróunarkenningu Darwins og jarðfræði eftir Charles Lyell. Þorvaldur las ekki einungis endursagnir annarra af náttúrufræðum heldur las hann á þessum árum fræðirit eftir öndvegishöfunda fræðanna meðal annars þá menn sem hvað mestu hafa áorkað um að gera náttúrufræðin að höfuðgreinum. Þó Þorvaldur kæmi út úr Lærða skólanum með slaka einkunn þá kom hann þaðan mjög vel undirbúinn undir það nám sem hann tók sér fyrir hendur í háskóla, miklu betur en skólinn stuðlaði að. Þetta sáu samtíðarmenn hans alls ekki og hnýttu í hann á þeim forsendum að hann hefði verið slakur námsmaður í skóla.

Þorvaldur sigldi til náms í náttúrufræðum við Kaupmannahafnarháskóla 1875 og var við skólann til 1880. Honum gekk námið mjög vel. Hann lauk þó ekki prófi frá skólanum. Hugur hans stóð til þess, en hann hætti námi til þess að tryggja sér starf heima á Íslandi. Kennarar hans við háskólann voru margir, en mest sótti hann til Steenstrups (1813-1897) í dýrafræði og Johnstrups (1818-1894) í jarðfræði. Þorvaldur var alla tíð gífurlegur dugnaðarmaður og virðist aldrei hafa verið verklaus. Á skólaárunum var hann strax farinn að rita fræðilegar greinar í tímarit. Einnig hélt hann fyrirlestra um Ísland og vann fyrir prófessora ýmis störf, svo sem að rita upp ýmislegt sem hann hafði á reiðum höndum um Ísland og íslenska jarðfræði fyrir fyrirlestrahald þeirra. En merkilegasta starf hans í þessu sambandi var án efa Íslandsför hans árið 1876 með Johnstrup til þess að rannsaka ummerki eldsumbrotanna í Dyngjufjöllum árið 1875. Það varð hans fyrsti en ekki síðasti rannsóknarleiðangur.

Þorvaldur varð kennari í nýstofnuðum Möðruvallaskóla árið 1880 og var þar til 1884. Hann var kennari við Lærða skólann frá 1885 til 1895. Árin 1884-1885 var hann á ferðalagi erlendis til náms og gagnasöfnunar og hann var aftur erlendis 1892-1893, þá orðinn vel þekktur fræðimaður. Árið 1895 flutti Þorvaldur alfarinn til Kaupmannahafnar og sat þar við fræðastörf og skriftir það sem eftir var ævinnar.

Þorvaldur notaði sumrin á milli kennslumissera til rannsókna og fór í kerfisbundna leiðangra um landið allt á árunum 1882-1898. Úr þessum rannsóknum kom aragrúi ritgerða og bóka sem lýstu og útskýrðu landið og náttúrur þess. Segja má að landið hafi verið óþekkt jarðfræðilega þegar hann byrjaði, aðeins til fáeinar greinargerðir á víð og dreif eftir hina og þessa, mest útlendinga og mest ómenntaða menn á sviði jarðfræði. Þegar hann lauk sínum skrifum var til heildarmynd svo glögg og yfirgripsmikil að enginn jarðfræðingur sem unnið hefur á Íslandi hefur komist hjá því að fara í fótspor hans og byggja á þeirri frumþekkingu sem hann dró saman. Hann var ekki sérfræðingur með þröngt áhugasvið heldur víðsýnn fræðimaður og landkönnuður sem las alla þá náttúru sem fyrir augun bar og gerði grein fyrir henni.



Hluti af jarðfræðikorti Þorvaldar Thoroddsen sem gefið var út í Kaupmannahöfn 1901.

Ritstörf Þorvaldar voru með eindæmum mikil og margbreytileg, allt frá stuttum athugasemdum upp í fjögurra binda stórvirki. Landfræðisagan kom í fjórum bindum á árunum 1892-1904 og er nú nýlega endurútgefin (2003-2009), þýsk útgáfa af sama verki kom út í tveimur bindum 1897-1898, Landskjálftar á Íslandi í tveimur hlutum 1899 og 1905, endurbætt 2. útgáfa af Lýsingu Íslands kom út árið 1900, jarðfræðikort af Íslandi í kvarðanum 1:600.000 frá árinu 1901, Island, Grundriss der Geographie und Geologie ásamt nýrri útgáfu af jarðfræðikortinu í kvarðanum 1:750.000 kom út 1906, og stórlega endurbætt Lýsing Íslands í tveimur bindum árin 1908 og 1911 og tvö viðbótarbindi um landbúnað á Íslandi á árunum 1917-1922. Ferðabókin kom út í fjórum bindum árin 1913-1915 og aftur 1958-1960, Árferði á Íslandi 1915-16 og þriðja útgáfan af stuttu Íslandslýsingunni árið 1919 og fleira mætti telja. Á árunum 1909-1912 ritaði hann einnig hið mikla verk sitt um íslensk eldfjöll, Geschichte der Isländischen Vulkane, sem þó kom ekki út fyrr en að honum látnum. Auk þessara bókverka komu á þessum árum ótal greinar, stuttar og langar, í ýmsum blöðum og tímaritum, íslenskum og erlendum, alþýðlegum og hávísindalegum, um ýmis efni, langflest náttúrufræðileg.

Ísland er ólíkt öðrum löndum og því var Þorvaldur að fást við annað en fræðimenn á sama sviði erlendis. Fyrir vikið er afar margt í skrifum hans sem ekki finnst annars staðar á prenti á þessum tímum. Hann varð enda heimsfrægur fyrir störf sín og mun frægari erlendis en samtímamenn hans hér heima gerðu sér grein fyrir. Dagblöð allt frá New York til Moskvu sögðu frá ferðum hans og uppgötvunum. Honum hlotnuðust líka ótal viðurkenningar erlendis fyrir framlag sitt. Þar á meðal eru viðurkenningar frá virtustu vísindafélögum og akademíum beggja vegna Atlantshafs. Ein þessara viðurkenninga er Daly-orðan frá ameríska landfræðifélaginu sem jafnað hefur verið til Nóbelsverðlauna, sem ekki eru veitt fyrir jarðvísindi. Hér heima var honum lítill sómi sýndur.

Myndir:

  • Mynd af Þorvaldi: Veðurstofa Íslands. Myndin er upprunulega úr: Bogi Th. Melsted: Þorvaldur Thoroddsen: um ævi hans og störf. Kaupmannahöfn, 1923. Sótt 21. 2. 2011.
  • Mynd af jarðfræðikorti: Veðurstofa Íslands. Sótt 21. 2. 2011.
...