Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Alexander von Humboldt og hvert var hans framlag til vísindanna?

Leó Kristjánsson (1943-2020)

Alexander von Humboldt var fæddur af tignum ættum í Tegel-höll við Berlín 1769. Eldri bróðir hans, Wilhelm (1767-1835), varð mikils metinn málfræðingur og frumkvöðull í háskólamálum. Alexander nam náttúrufræði í Göttingen, verslunar- og hagfræði í Hamborg, og jarðvísindi í skóla A.G. Werners (1749-1817) í Freiberg. Hann var skipaður námustjóri í tveim héruðum Prússlands 1792-1797 og bætti þar námureksturinn mjög auk þess að stunda fjölþættar vísindarannsóknir og ritstörf. Síðan ferðaðist hann um suður-Evrópu og bjó um hríð í París.


Að fengnu leyfi spænskra stjórnvalda lagði Alexander von Humboldt á eigin kostnað upp í rannsóknaleiðangur 1799 til Kúbu, Mexíkó og landa í Suður-Ameríku, ásamt frönskum grasafræðingi. Stóð sá leiðangur í fimm ár með viðkomu á Kanaríeyjum á útleið og í Bandaríkjunum á bakaleið. Meðal annars söfnuðu þeir félagar um 6000 tegundum jurta, og þar af var yfir helmingur nýr fyrir vísindin. Í leiðangrinum kannaði Humboldt ekki síst eldfjöll og gekk á sum þeirra hæstu í álfunni. Jafnframt kynnti hann sér margt annað í ásýnd landanna sem heimsótt voru og í sögu þjóða þeirra.

Við heimkomuna til Evrópu 1804 tók von Humboldt að vinna úr gögnum Ameríku-leiðangursins. Komu út á árunum 1805-1834 þrjátíu stór og myndskreytt bindi undir samheitinu Voyage aux Régions Équinoctales du Nouveau Continent. Þessu mikla ritverki má lauslega skipta í þrjá hluta. Einn fjallar um vísindalegar niðurstöður leiðangursins, annar um landafræði og hagsögu Kúbu og Mexíkó, og sá þriðji er ferðasagan ásamt meðal annars lýsingum á landslagi og fornmunum og sögu landkönnunar Evrópumanna vestanhafs.

Í ritinu kynnti Humboldt nýjar aðferðir við framsetningu gagna, svo sem að teikna jafnhitalínur á kort. Er talið að með þessum rannsóknum hafi verið lagður grundvöllur að mikilvægum vísindagreinum eins og loftslagsfræðum, jurtalandafræði, og hagrænni landafræði. Samhliða ritun fyrstu binda ritverksins sinnti hann diplómatískum erindum fyrir Prússastjórn og hóf einnig nýjar rannsóknir. Má þar nefna, að ásamt C.F. Gauss (1777-1855) kom hann upp fyrstu stöðinni til þess að fylgjast með breytingum jarðsegulsviðsins, en hann hafði einmitt gert merkar mælingar á styrk þess í Ameríku-ferðinni. Von Humboldt áttaði sig á að árangur rannsókna á slíkum hnattrænum fyrirbrigðum hlyti að aukast mjög með samræmdum athugunum á mörgum stöðum. Átti hann því frumkvæði að alþjóðlegu samstarfi um jarðsegulmælingar, og síðar einnig í veðurfræði og á fleiri vísindasviðum.

Á árunum 1808-1827 bjó von Humboldt í París, þar sem hann kynntist náið ýmsum merkustu raunvísindamönnum Frakklands. Eftir að hann sneri svo aftur til Berlínar, hélt hann á fjórum mánuðum syrpu 61 fyrirlesturs fyrir almenning, um hin ýmsu svið náttúruvísindanna og samspil þeirra. Urðu fyrirlestrarnir fjölsóttir og umtalaðir meðal borgarbúa, jafnvel fólks sem áður hafði lítinn áhuga haft á þeim fræðum. Hann lagði síðan í annan leiðangur 1829, í boði Rússakeisara. Farið var um Úralfjöll og Síberíu austur yfir landamæri Kína, og til Kaspíahafs, Moskvu og St. Pétursborgar í bakaleið. Í þeim leiðangri sem tók níu mánuði, fylgdu tveir þýskir vísindamenn von Humboldt, annar dýrafræðingur og hinn steindafræðingur. Lýsing þess síðarnefnda á leiðangrinum og jarðfræðilegum athugunum í honum kom út 1837-1842. Jafnframt samdi von Humboldt sjálfur tvö ritverk um jarðfræði og veðurfar Mið-Asíu, útgefin 1831 og 1843.



Alexander von Humboldt hóf síðan samantekt rits með heitinu Kosmos: Entwurf einer physischen Weltbeschreibung sem fjallar um heimsmynd raunvísindanna í mjög víðu samhengi. Komu út fjögur bindi af verkinu á árunum 1845-1858, og juku þau enn á hróður hans sem fjölhæfasta og merkasta vísindamanns samtímans. Hefur því jafnvel verið haldið fram, að um miðja 19. öldina hafi nafn von Humboldts verið þekktara en nokkurt annað meðal menntamanna heimsins. Þótt hann væri hamhleypa til allra verka, tóku umfangsmiklar bréfaskriftir, móttaka gesta og heiðursviðurkenninga, og störf fyrir þjóðhöfðingja Prússlands mikið af tíma hans. Var því ritun Kosmos hvergi nærri lokið þegar von Humboldt lést í Berlín á nítugasta aldursári 1859.

Auk þeirra rita sem hér hafa verið talin, samdi Alexander von Humboldt meðal annars bókina Ansichten der Natur (1808, auknar útgáfur 1826 og 1849), með ýmsum náttúrulýsingum og náði hún miklum vinsældum. Hann var vel að sér í fjölda tungumála sem og í klassískum fræðum, var ötull talsmaður vísinda og mennta við ráðamenn, og greiddi götu fjölda vísindamanna sem til hans leituðu. Hann var víðsýnn, frjálslyndur, og andsnúinn þrælahaldi, kynþáttahatri og þjóðrembingi. Rit von Humboldts um hinar spánsku lendur vestanhafs urðu landsmönnum þar mikilvæg í baráttu fyrir þjóðarvitund og sjálfstæði. Afrek hans veittu mörgum síðari náttúrufræðingum innblástur. Er Charles Darwin (1809-1882) ef til vill þekktastur þeirra á alþjóðavettvangi, en Þorvaldur Thoroddsen (1855-1921) hér heima.

Í ritum von Humboldts er stöku sinnum minnst á Ísland, meðal annars vegna eldstöðva landsins. Einnig kynnti hann sér þá eiginleika íslensks silfurbergs sem juku mjög áhuga manna á ljósfræði á fyrstu árum Parísardvalar hans. Í Dægradvöl Benedikts Gröndals (1826-1907) er nefnt að hann hafi hitt Finn Magnússon (1781-1847) leyndarskjalavörð í heimsókn til Kaupmannahafnar 1845. Síðar á því ári gaus Hekla, og er hugsanlegt að von Humboldt hafi átt einhvern þátt í að koma í kring merkum leiðangri R. Bunsens (1811-1899) og fleiri vísindamanna til Íslands 1846. Sjá erindi um það á þessari síðu.

Öflugur rannsóknasjóður kenndur við von Humboldt hefur verið starfandi í Þýskalandi lengst af eftir lát hans, og hafa íslenskir fræðimenn á ýmsum sviðum notið styrkja þaðan.

Heimildir og myndir:

  • Þorvaldur Thoroddsen: Alexander von Humboldt. Hundrað og fimtíu ára minning. Ársrit hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn 4, 1-41, 1919.
  • Sigurður Þórarinsson: Alexander von Humboldt. Hundraðasta ártíð. Náttúrufræðingurinn 29, 65-80, 1959.
  • Douglas Botting: Alexander von Humboldt. Prestel Verlag, München 1973, 402 bls.
  • Mynd af von Humboldt: Alexander von Humboldt á Wikipedia. Mynd eftir Friedrich Georg Weitsch frá 1806. Sótt 3. 3. 2011.
  • Kort sem sýnir ferðir Humboldts: Fengið úr erindi höfundar sem finna má ef smellt er hér. Íslenskur texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins.

Höfundur

Leó Kristjánsson (1943-2020)

jarðeðlisfræðingur við Raunvísindastofnun

Útgáfudagur

11.3.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Leó Kristjánsson (1943-2020). „Hver var Alexander von Humboldt og hvert var hans framlag til vísindanna?“ Vísindavefurinn, 11. mars 2011, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58666.

Leó Kristjánsson (1943-2020). (2011, 11. mars). Hver var Alexander von Humboldt og hvert var hans framlag til vísindanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58666

Leó Kristjánsson (1943-2020). „Hver var Alexander von Humboldt og hvert var hans framlag til vísindanna?“ Vísindavefurinn. 11. mar. 2011. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58666>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Alexander von Humboldt og hvert var hans framlag til vísindanna?
Alexander von Humboldt var fæddur af tignum ættum í Tegel-höll við Berlín 1769. Eldri bróðir hans, Wilhelm (1767-1835), varð mikils metinn málfræðingur og frumkvöðull í háskólamálum. Alexander nam náttúrufræði í Göttingen, verslunar- og hagfræði í Hamborg, og jarðvísindi í skóla A.G. Werners (1749-1817) í Freiberg. Hann var skipaður námustjóri í tveim héruðum Prússlands 1792-1797 og bætti þar námureksturinn mjög auk þess að stunda fjölþættar vísindarannsóknir og ritstörf. Síðan ferðaðist hann um suður-Evrópu og bjó um hríð í París.


Að fengnu leyfi spænskra stjórnvalda lagði Alexander von Humboldt á eigin kostnað upp í rannsóknaleiðangur 1799 til Kúbu, Mexíkó og landa í Suður-Ameríku, ásamt frönskum grasafræðingi. Stóð sá leiðangur í fimm ár með viðkomu á Kanaríeyjum á útleið og í Bandaríkjunum á bakaleið. Meðal annars söfnuðu þeir félagar um 6000 tegundum jurta, og þar af var yfir helmingur nýr fyrir vísindin. Í leiðangrinum kannaði Humboldt ekki síst eldfjöll og gekk á sum þeirra hæstu í álfunni. Jafnframt kynnti hann sér margt annað í ásýnd landanna sem heimsótt voru og í sögu þjóða þeirra.

Við heimkomuna til Evrópu 1804 tók von Humboldt að vinna úr gögnum Ameríku-leiðangursins. Komu út á árunum 1805-1834 þrjátíu stór og myndskreytt bindi undir samheitinu Voyage aux Régions Équinoctales du Nouveau Continent. Þessu mikla ritverki má lauslega skipta í þrjá hluta. Einn fjallar um vísindalegar niðurstöður leiðangursins, annar um landafræði og hagsögu Kúbu og Mexíkó, og sá þriðji er ferðasagan ásamt meðal annars lýsingum á landslagi og fornmunum og sögu landkönnunar Evrópumanna vestanhafs.

Í ritinu kynnti Humboldt nýjar aðferðir við framsetningu gagna, svo sem að teikna jafnhitalínur á kort. Er talið að með þessum rannsóknum hafi verið lagður grundvöllur að mikilvægum vísindagreinum eins og loftslagsfræðum, jurtalandafræði, og hagrænni landafræði. Samhliða ritun fyrstu binda ritverksins sinnti hann diplómatískum erindum fyrir Prússastjórn og hóf einnig nýjar rannsóknir. Má þar nefna, að ásamt C.F. Gauss (1777-1855) kom hann upp fyrstu stöðinni til þess að fylgjast með breytingum jarðsegulsviðsins, en hann hafði einmitt gert merkar mælingar á styrk þess í Ameríku-ferðinni. Von Humboldt áttaði sig á að árangur rannsókna á slíkum hnattrænum fyrirbrigðum hlyti að aukast mjög með samræmdum athugunum á mörgum stöðum. Átti hann því frumkvæði að alþjóðlegu samstarfi um jarðsegulmælingar, og síðar einnig í veðurfræði og á fleiri vísindasviðum.

Á árunum 1808-1827 bjó von Humboldt í París, þar sem hann kynntist náið ýmsum merkustu raunvísindamönnum Frakklands. Eftir að hann sneri svo aftur til Berlínar, hélt hann á fjórum mánuðum syrpu 61 fyrirlesturs fyrir almenning, um hin ýmsu svið náttúruvísindanna og samspil þeirra. Urðu fyrirlestrarnir fjölsóttir og umtalaðir meðal borgarbúa, jafnvel fólks sem áður hafði lítinn áhuga haft á þeim fræðum. Hann lagði síðan í annan leiðangur 1829, í boði Rússakeisara. Farið var um Úralfjöll og Síberíu austur yfir landamæri Kína, og til Kaspíahafs, Moskvu og St. Pétursborgar í bakaleið. Í þeim leiðangri sem tók níu mánuði, fylgdu tveir þýskir vísindamenn von Humboldt, annar dýrafræðingur og hinn steindafræðingur. Lýsing þess síðarnefnda á leiðangrinum og jarðfræðilegum athugunum í honum kom út 1837-1842. Jafnframt samdi von Humboldt sjálfur tvö ritverk um jarðfræði og veðurfar Mið-Asíu, útgefin 1831 og 1843.



Alexander von Humboldt hóf síðan samantekt rits með heitinu Kosmos: Entwurf einer physischen Weltbeschreibung sem fjallar um heimsmynd raunvísindanna í mjög víðu samhengi. Komu út fjögur bindi af verkinu á árunum 1845-1858, og juku þau enn á hróður hans sem fjölhæfasta og merkasta vísindamanns samtímans. Hefur því jafnvel verið haldið fram, að um miðja 19. öldina hafi nafn von Humboldts verið þekktara en nokkurt annað meðal menntamanna heimsins. Þótt hann væri hamhleypa til allra verka, tóku umfangsmiklar bréfaskriftir, móttaka gesta og heiðursviðurkenninga, og störf fyrir þjóðhöfðingja Prússlands mikið af tíma hans. Var því ritun Kosmos hvergi nærri lokið þegar von Humboldt lést í Berlín á nítugasta aldursári 1859.

Auk þeirra rita sem hér hafa verið talin, samdi Alexander von Humboldt meðal annars bókina Ansichten der Natur (1808, auknar útgáfur 1826 og 1849), með ýmsum náttúrulýsingum og náði hún miklum vinsældum. Hann var vel að sér í fjölda tungumála sem og í klassískum fræðum, var ötull talsmaður vísinda og mennta við ráðamenn, og greiddi götu fjölda vísindamanna sem til hans leituðu. Hann var víðsýnn, frjálslyndur, og andsnúinn þrælahaldi, kynþáttahatri og þjóðrembingi. Rit von Humboldts um hinar spánsku lendur vestanhafs urðu landsmönnum þar mikilvæg í baráttu fyrir þjóðarvitund og sjálfstæði. Afrek hans veittu mörgum síðari náttúrufræðingum innblástur. Er Charles Darwin (1809-1882) ef til vill þekktastur þeirra á alþjóðavettvangi, en Þorvaldur Thoroddsen (1855-1921) hér heima.

Í ritum von Humboldts er stöku sinnum minnst á Ísland, meðal annars vegna eldstöðva landsins. Einnig kynnti hann sér þá eiginleika íslensks silfurbergs sem juku mjög áhuga manna á ljósfræði á fyrstu árum Parísardvalar hans. Í Dægradvöl Benedikts Gröndals (1826-1907) er nefnt að hann hafi hitt Finn Magnússon (1781-1847) leyndarskjalavörð í heimsókn til Kaupmannahafnar 1845. Síðar á því ári gaus Hekla, og er hugsanlegt að von Humboldt hafi átt einhvern þátt í að koma í kring merkum leiðangri R. Bunsens (1811-1899) og fleiri vísindamanna til Íslands 1846. Sjá erindi um það á þessari síðu.

Öflugur rannsóknasjóður kenndur við von Humboldt hefur verið starfandi í Þýskalandi lengst af eftir lát hans, og hafa íslenskir fræðimenn á ýmsum sviðum notið styrkja þaðan.

Heimildir og myndir:

  • Þorvaldur Thoroddsen: Alexander von Humboldt. Hundrað og fimtíu ára minning. Ársrit hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn 4, 1-41, 1919.
  • Sigurður Þórarinsson: Alexander von Humboldt. Hundraðasta ártíð. Náttúrufræðingurinn 29, 65-80, 1959.
  • Douglas Botting: Alexander von Humboldt. Prestel Verlag, München 1973, 402 bls.
  • Mynd af von Humboldt: Alexander von Humboldt á Wikipedia. Mynd eftir Friedrich Georg Weitsch frá 1806. Sótt 3. 3. 2011.
  • Kort sem sýnir ferðir Humboldts: Fengið úr erindi höfundar sem finna má ef smellt er hér. Íslenskur texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins.
...