Hnútarós er út af fyrir sig ekki alvarlegur sjúkdómur, en hún er oftast aðvörun um að berklasmitun hafi nýlega átt sér stað; þó getur hnútarós komið löngu eftir smitun.Í seinni tíð eru berklar síður í sviðsljósinu sem orsakaþáttur og er orsökin nú venjulega rakin til ofnæmisviðbragða gegn ýmsum öðrum sýkingum eða gegn lyfjum. Rósahnútar verða vegna bólgu á ákveðnum svæðum í fitulagi húðarinnar, sem veldur því að rauðir, upphleyptir og viðkvæmir blettir myndast á húðinni, einkum á sköflungi. Sjúkdómurinn rennur venjulega sitt skeið á nokkrum vikum og skilur ýmist eftir sig tímabundið mar eða í verri tilfellum ör þar sem fituvefurinn hefur eyðilagst. Í sumum tilfellum geta rósahnútar þó verið viðvarandi vandamál mánuðum og jafnvel árum saman. Þá er talað um þráláta rósahnúta eða chronic erythema nodosum. Meðferð við rósahnútum fer að miklu leyti eftir því hver orsök sjúkdómsins er, það er aðrir sjúkdómar eða lyfjagjöf. Til að vinna gegn einkennum rósahnúta er svo algengast að gefin séu bólgueyðandi- og/eða ofnæmislyf. Íslensk heiti erythema nodosum
Undirritaður minntist heitisins rósahnútar, sem honum gekk þó illa að finna í sínum venjulegu heimildaritum. Hin nýja íslenska orðabók Eddu birtir þó fleirtöluheitið með skýringunni:
hnútrós, sjúkdómur sem lýsir sér í rauðum þrymlum á útlimum og oft gigtarverkjum, einkum hjá ungum konum (erythema nodosum).Bókin Íslensk læknisfræðiheiti frá 1954 eftir Guðmund Hannesson tilgreinir einungis íslenska heitið þrimlaroði.
- Af hverju fær maður ofnæmi? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Hvers vegna klæjar mann? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvað er bólga? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvað eru berklar? eftir Þuríði Árnadóttur
- Hvernig var meðferð við berklum háttað fyrir tilkomu sýklalyfja? eftir Þuríði Árnadóttur
- Capees.com - erythema nodosum. Sótt 31.3.2008.
- en.wikipedia.org - erythema nodosum. Sótt 31.5.2011.
Þetta svar birtist upphaflega á vefsetrinu Doktor.is og er birt hér í örlítið breyttri útgáfu með góðfúslegu leyfi.