Notaðar voru ýmsar aðferðir til þess að fella saman lunga. Leikmenn töluðu gjarnan um að berklasjúklingar væru „blásnir“, „brenndir“ og „höggnir“. Ein aðferðin var að klemma taug til þindarinnar og blása lofti í kviðinn. Við þetta þrýstist þindin upp á við og umfang lungans minnkaði. Önnur aðferð var að blása lofti í brjósthimnuna sem umlykur lungað, svo lungað sjálft félli að hluta til eða alveg saman. Þessar aðgerðir þurfti að endurtaka reglulega því taugin jafnaði sig og loftið hvarf smám saman. Í tilfellum þar sem samvextir í brjósthimnu komu í veg fyrir að hægt væri að „blása“ í hana, var reynt að brenna samvextina í burtu með þar til gerðu áhaldi. Þetta var áhættusöm aðgerð. Þegar um erfið tilfelli var að ræða voru rifbein fjarlægð í þeim tilgangi að fella saman lungað til frambúðar. Þetta voru erfiðar aðgerðir og sjúklingurinn sat eftir með varanlegt lýti, innfallinn brjóstkassa og jafnvel hryggskekkju. Hins vegar báru þessar aðgerðir gjarnan tilætlaðan árangur: berklaholur féllu saman, hrákinn „hreinsaðist“ og sjúklingurinn lifði af. Þetta þykja flestum frumstæðar aðferðir í dag. Sú staðreynd að á okkar tímum skuli í vaxandi mæli vera gripið til skurðhnífs í þeim tilgangi að fjarlægja lungu eða hluta þeirra í baráttu við lyfjaþolna berklasýkla má segja að sé öfug þróun innan læknisfræðinnar. Við erum óneitanlega minnt á að vísindarannsóknir eins og lyfjaþróun eru að hluta til unnar fyrir gýg ef framkvæmd lyfjameðferðar bregst. Tilkoma alnæmisveirunnar og áhrif alnæmisfaraldursins á tíðni berkla í fátækum löndum, og þar af leiðandi á heimsvísu, hefur opnað augu manna fyrir því hversu mikilvægt er að slá ekki slöku við varðandi framkvæmdaþáttinn. Skoðið einnig svar sama höfundar við spurningunni Hvað eru berklar?
Myndin er fengin af vefsetrinu Tuberculosis.