Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Lúða (Hippoglossus hippoglossus) er stærsti flatfiskur sem finnst hér við land og raunar stærsti beinfiskur sem lifir innan íslensku lögsögunnar. Stærsta lúða sem vitað er um að veiðst hafi hér við land var 3,65 metra löng og vó hvorki meira né minna en 266 kg. Þessi fiskur veiddist við norðanvert landið sumarið 1935. Lúður geta þó orðið nokkuð stærri eða allt að 4,7 metrar og 320 kg. Lúða er afar langlífur fiskur og eru dæmi um lúður sem hafa náð allt að 40 ára aldri.
Í lýsingu Gunnars Jónssonar fiskifræðings í ritinu Íslenskum fiskum er lúðunni lýst á eftirfarandi hátt:
Lúðan er all langvaxin, hausstór og kjaftstór, með fremur litlar en beittar tennur. Neðri skolturinn er framstæður. Augu eru lítil. Bakuggi byrjar yfir framanverðu vinstra auga, en raufaruggi á móts við eyruggarætur. Eyruggar eru í meðallagi og kviðuggar fremur litlir. Sporður er stór og grunnsýldur. Litur er mósvartur, grár eða dökkgrænn á hægri hliðinni, en hvítur á þeirri vinstri.
Heimkynni lúðunnar eru í Norður-Atlantshafi. Hún er algengust í norðanverðu Noregshafi, við Færeyjar og Ísland og meðfram ströndum Nýfundnalands og Nova Scotia. Lúðan finnst allt í kringum Ísland en þó er meira af henni við sunnan-, suðvestan- og vestanvert landið. Lúðan er botnfiskur og finnst á leir-, sand- eða malarbotni en minna er af henni á hraunbotni. Kjördýpi hennar er 20-200 metrar.
Ljósblái liturinn sýnir útbreiðslu lúðu í Norður-Atlantshafi.
Hrygningartími lúðunnar er frá desember til maí, breytilegur eftir svæðum. Við Ísland er talið að hrygningartíminn sé frá mars til maí og þá er hrygningin í hámarki í apríl. Lítið er vitað um hrygningarstöðvar lúðunnar en talið að hún hrygni djúpt suður af Íslandi á allt að 1000 m dýpi. Í leiðangri sem farinn var á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar árið 1993 fannst hrygnandi lúða á Franshól á Reykjaneshrygg á tæplega 900 m dýpi.
Lúðan er mikill flækingur. Lúða sem merkt var hér við land var endurheimt við Færeyjar og einnig hafa merktar lúður verið veiddar við Grænland og Nýfundnaland.
Lúðan er alæta og má segja að hún éti allt sem að kjafti kemur en helsta fæðan er þorskur, ýsa, loðna og sandsíli. Smálúða, það er unglúða sem er á aldrinum 2-5 ára og elst upp á landgrunninu, étur þó helst botnlæga sjávarhryggleysingja svo sem krabba.
Lúða (Hippoglossus hippoglossus).
Fyrir utan manninn eru helstu afræningjar lúðunnar selir, smáhveli svo sem höfrungar og hnísur og hákarl.
Lúðan er afar verðmætur fiskur en hún var lítið veidd hér við land fyrr en langt var liðið á 19. öld. Sjómenn sem stunduðu þorskveiðar við landið, til dæmis Frakkar sem voru umfangsmiklir í þorskveiðum við Ísland, litu á lúðuna sem pest og köstuðu henni fyrir borð. Íslendingar veiddu þó eitthvað lítilræði af lúðu til innanlandsneyslu. Bandaríkjamenn voru fyrstir til að stunda lúðuveiðar í atvinnuskyni hér við land þegar þeir hófu veiðar við Vestfirði árið 1884 eftir að fræg lúðumið við Þorskhöfða í Maine-flóa og Georgsbanka við Nova Scotia í Kanada hrundu upp úr 1860. Stóðu þessar veiðar Bandaríkjamanna til 1898. Fljótlega eftir það fóru aðrar þjóðir að sýna lúðuveiðum hér við land áhuga, sérstaklega Bretar.
Íslendingar fóru líka að veiða lúðu en stofninn virðist vera viðkvæmur fyrir mikilli veiði og hefur aflinn því sveiflast mikið. Mestur varð lúðuaflinn á Íslandsmiðum árið 1907 eða tæplega 8.000 tonn og í nokkrum tilfellum var hann á bilinu 6.000-7.000 tonn. Frá því um 1960 hefur árlegur lúðuafli minnkað stöðugt. Landaður ársafli á Íslandsmiðum var nálægt 2.000 tonnum árin 1984-1991, en var orðinn á bilinu 500-800 tonn á árunum 1997-2011. Árið 2012 var sett á bann við öllum beinum veiðum á lúðu í fiskveiðilandhelgi Íslands til þess að vernda stofninn. Það hefur eðlilega leitt til þess að afli hefur dregist mikið saman og hefur aðeins verið einhverjir tugir tonna síðastliðin ár.
Heimildir og mynd:
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um lúðu?“ Vísindavefurinn, 8. ágúst 2016, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=72241.
Jón Már Halldórsson. (2016, 8. ágúst). Hvað getið þið sagt mér um lúðu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=72241
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um lúðu?“ Vísindavefurinn. 8. ágú. 2016. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=72241>.