- Hámeri (Lamna nasus). Þessir fiskar eru oftast um 2-3 metrar á lengd. Þeir finnast bæði í vestan- og austanverðu N-Atlandshafi. Hér við land hefur hann fundist allt í kringum landið.
- Beinhákarl (Cetorhinus maximus). Þessi tegund er næststærsta fisktegund í heimi og sú langstærsta hér við land. Hann nær 10-12 m lengd og 3-4 tonna þyngd. Hann finnst allt í kringum landið en er þó sjaldséðari í kaldari sjó.
- Gíslaháfur (Apristurus laurussonii). Smávaxin háfiskategund. Fullorðið dýr verður aðeins rúmir 60 cm á lengd. Hann finnst aðeins í hlýjum sjó við SV-og S-strönd Íslands og er það sennilega nyrstu mörk tegundarinnar. Hann hefur fundist við Írland og allt suður til Kanaríeyja.
- Jensenháfur (Galeus murinus). Smávaxin háfiskategund sem lifir á miklu dýpi. Líkt og með Gíslaháf þá finnst þessi tegund aðeins fyrir sunnan land.
- Háfur (Squalus acanthias). Háfurinn getur orðið um það bil metri á lengd. Hann hefur mjög mikla útbreiðslu um N-Atlantshaf og N-Kyrrahaf. Við Ísland lifir hann allt í kringum landið en er algengari í hlýjum sjó við sunnanvert landið.
- Svartháfur (Centroscyllium fabricii). Fullorðin dýr verða vart lengri en 80 – 90 cm. Hefur fundist við sunnanvert landið frá Faxaflóa austur til Ingólfshöfða. Hann finnst ekki í kaldari sjó Norðanlands.
- Gljáháfur (Centroscymnus coelolepis). Fullorðin dýr verða rúmur metri á lengd. Hann er algengur undan landgrunnshallanum djúpt suður af landinu.
- Þorsteinsháfur (Centroscymnus crepidater). Djúpfiskur sem hefur veiðst í talsverður mæli umhverfis Vestmannaeyjar, á útjöðrum Selvogsbanka og suðvestur af Reykjanesi.
- Flatnefur (Deania calceus). Þessi tegund verður um metri á lengd. Hann er talinn algengur meðfram Íslands-Færeyjahryggnum og meðfram suðurströndinni.
- Litli loðháfur (Etmopterus spinax). Þessi tegund verður vart lengri en 50–60 cm og er sennilega minnsta háfategundin á Íslandsmiðum. Hér finnst hann við SV-ströndina, og finnst víða í austanverðu Atlantshafi. Litli loðháfurinn lifir á miklu dýpi eða allt niður á 2000 metra.
- Dökkháfur (Etmopterus princeps). Verður um 80 cm á lengd. Hann er algengur á miklu dýpi sunnan og suðvestan Íslands.
- Rauðháfur (Lepidorhinus spuamosus). Getur orðið allt að 150 cm á lengd. Hann finnst í hlýjum sjó við sunnanvert landið.
- Hákarl (Somniosus microcephalus). Kunnasta tegundin sem hér er fjallað um. Þetta eru mjög stórir fiskar og geta orðið meira en 7 metrar á lengd þó að þeir verði oftast 2-5 metrar. Þetta er eina háfiskategundin sem lifir í ísköldum sjó. Hann finnst allt í kringum landið og var áður fyrr mikið veiddur en veiðar hafa dregist talsvert saman.
Sofa hákarlar og hvalir?