Hæ, hæ, ég heiti Telma og ég hef rosa mikinn áhuga á vísindum. Ég ætla að spyrja einnar spurningar og svona er hún: Af hverju er toppurinn á öldunni úti á sjó hvítur?Vindurinn nær mestum tökum á öldunni í toppnum. Þar ýrir hann sjóinn upp og myndar froðu eða löður. Þetta er sambland af loftbólum hjúpuðum vatni (náskylt því sem við köllum sápukúlur) og litlum vatnsdropum. Ljósgeisli sem fellur á vatnsyfirborð klofnar í daufan speglaðan geisla og miklu sterkari gegnskinsgeisla. Í froðunni speglast margoft úr gegnskinsgeisla þar sem hann lendir á loftbóluskilum, sem snúa á ýmsa vegu. Spegluðu geislarnir dreifast í allar áttir og speglunin gerir engan greinarmun á öldulengdum (lit). Litaðir fletir spegla einu öldulengdarbili betur en öðrum. Við skynjum hvíta áferð þar sem allar öldulengdir speglast jafnt og dreifast í allar áttir. Margspeglunin í skilflötum milli loftbóla í froðunni uppfyllir þessi skilyrði sem gefa hvíta áferð. Það sama á við um vatnsdropa í fossum og kristallafleti í snjó. Mynd:
- Wind wave - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 21.07.2016).