Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvernig kveiktu „fornmenn“ á Íslandi eld? Hvers vegna þurfti Grettir að „sækja eld“ úr Drangey; og höfðu brennumenn eld með sér til að kveikja í Bergþórshvoli?
Að hafa vald á eldinum er eitt af því sem aðgreinir manninn frá öðrum dýrum. Að geta kveikt eld og stjórnað honum er forsenda fyrir því að menn geti lifað af utan hitabeltisins og að þeir geti nýtt margskonar fæðutegundir, einkum fræ og jurtir af ýmsu tagi. Eldurinn veitir birtu og vernd fyrir árásum dýra og ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um þátt eldsins í þróun Homo sapiens – til að mynda að betri nýting á hitaeiningum úr elduðum mat hafi leitt til stærra heilabús, eða að sitja við eldinn á kvöldin hafi skipt sköpun um þróun félagsfærni og tungumáls. Í raun er þó fátt fast í hendi um hvenær mennirnir náðu tökum á eldinum og enn færra vitað um hvaða aðferðum þeir beittu til að tendra hann. Kenningar eru um að forverar mannsins hafi getað kveikt eld fyrir um 1,7 milljónum ára en elstu óumdeildu minjar af eldstæðum eru yngri en 400.000 ára.
Kenningar eru um að forverar mannsins hafi getað kveikt eld fyrir um 1,7 milljónum ára en elstu óumdeildu minjar af eldstæðum eru yngri en 400.000 ára. Myndin sýnir San-búskmenn núa saman tveimur tréhlutum nógu hratt til að eldur kvikni.
Ekkert er vitað um hvernig menn kveiktu eld í öndverðu en tvær meginaðferðir eru þekktar frá seinni tímum. Önnur byggir á því að núa saman tveimur tréhlutum nógu hratt til að eldur kvikni. Ýmsar útgáfur eru til af þessari aðferð og má beita margskonar tækni til að auka hraðann svo eldurinn kvikni sem fyrst. Áhöldin sem notuð eru eiga það sammerkt að vera úr tré eða öðrum forgengilegum efnum. Oftast eru þau sjálfur eldsmaturinn en þegar svo er ekki er mjög ósennilegt að hægt sé að þekkja þau sem eldfæri ef svo ólíklega vill til að þau varðveitist. Ein heimild frá 14. öld getur um að Íslendingar hafi notað þessa aðferð og má vel vera að hún hafi verið útbreidd þó hennar sé ekki víðar getið:
Bar svo við í … Hornafirði á Íslandi að menn vildu taka bragðals-eld millum tveggja trjáa, og lá þeim harla mikið við að hafa eldinn. Þeir voru að lengi og fengu eigi, og vissu eigi hvað þeir skyldu til taka. Þá talaði einn af þeim, „viti menn, sveinar!“ segir hann, „að ég sé ráðið: Vér skulum taka hnjóskinn og reka niður í vatn Guðmundar biskups og þá trúir ég að við fáum eldinn.“ Þeir gjörðu svá og settu hnjóskinn nýdreginn úr vatninu framan í bragðalinn, og drógu litla hríð áður þeir höfðu eld í nóg. Sýnist oss og öðrum góðum mönnum slíkir hlutir mjög dásamlegir, því vér sjáum ei nokkuð ólíkara í sinni náttúru en vöku vatnsins og þurrku hnjósksins. (Saga Guðmundar biskups eftir Arngrím ábóta, 85. kafli.)
Hin meginaðferðin gengur út á að búa til neista með því að slá saman tveimur hörðum efnum eins og steini og stáli. Notast má við margskonar steintegundir og járnið getur verið járnríkur steinn eða stál, en þriðja efnið sem þarf er tundur, eitthvert skraufþurrt efni sem kviknar auðveldlega í, til dæmis mosi, spænir, léreft eða sérstakur sveppur, eldsvampur. Þessi aðferð hefur þekkst á Íslandi frá landnámi og finnast bæði eldstál og steinar sem gætu hafa verið slegnir með stálinu í kumlum frá 10. öld. Eldstálin hafa mjög ákveðna lögun og þekkjast af því en steinarnir geta verið af ýmsum tegundum. Jaspis er innlend steintegund sem molar finnast oft af í uppgröftum og er mögulegt að þeir hafi fyrst og fremst verið notaðir til að slá eld, en tinnumolar (eldtinna, flint) finnast hér einnig og voru fluttir inn í þessum tilgangi. Mögulegt er að mikið af þeirri tinnu sem hér finnst frá 16. öld og síðar tengist þó fremur notkun skotvopna en hversdagsþörfum íslenskra heimila.
Eldstál sem fannst í fornum bæjarrústum í Hrauntungu. Eldstálið er líklega frá 10. til 12. öld.
Eldspýtan var fundin upp á fyrri hluta 19. aldar. Hún náði þegar mikilli útbreiðslu og var orðin allsráðandi eldfæri á Íslandi um miðja öldina. Hún ruddi algerlega úr vegi eldri aðferðum við að tendra eld þannig að heimildamenn á fyrri hluta 20. aldar höfðu aðeins óljósar minningar um að tinna og stál hafi verið notuð áður en eldspýtan kom til sögunnar. Enginn af heimildarmönnum Þjóðminjasafnsins sagðist kunna að fara með stál og tinnu þegar innt var eftir því í spurningalista 1961.
Það er vandi að kveikja eld með stáli og tinnu, eða með því að núa saman trébútum, og krefst hvorttveggja aðferðin þjálfunar og færni. Hvorug aðferðin er þó flókin, tækin eru næsta einföld og hægt að ná tökum á hvorri sem er með kennslu og ástundun af sama tagi og þarf til að læra að hnýta skóreimar eða synda. Að tendra eld með þessum aðferðum er tækni sem hver sem er getur lært, það þarf ekki náðargáfu til, og þegar það hefur einu sinni verið lært gleymist það ekki auðveldlega. Vegna þess hve gríðarlega mikilvægur eldurinn var kemur það því nokkuð á óvart hve útbreitt það minni er í bókmenntum og þjóðsögum að fólk hafi þurft að sækja eld á næsta bæ þegar hann hafði slokknað heima. Slíkar sögur ganga ekki upp nema það hafi verið algengt að fólk kynni ekki að kveikja eld.
Fyrir tíma eldavélanna logaði eldur stanslaust á íslenskum heimilum. Hann var falinn á kvöldin, glóðin sett í sérstaka feluholu eða annað lokað rými þar sem hún brann hægt til morguns þegar hún var tekin upp á ný og eldurinn glæddur. Eldstæði með feluholum finnast iðulega í íslenskum bæjarstæðum. Það er vandaverk að fela eld þannig að hann drepist ekki – sennilega ekki síður vandasamt en að kveikja eld. Talað var um að fólkið sem sá um eldinn á heimilinu – oftast húsmóðirin – hafi verið misjafnlega eldsælt en mikið var í húfi því þjóðtrúin spáði dauðsföllum ef eldurinn slokknaði. Líklegt má telja að það hafi verið aðalreglan að eldurinn lifði í hverjum bæ árin út og inn og því hafi sjaldan verið nauðsynlegt að tendra nýjan – að minnsta kosti ekki heima við bæ.
Mynd af langeldi frá 10. öld með feluholu. Frá Sveigakoti í Mývatnssveit.
Miðaldamáldagar geta víða um eldbera en eldur logaði ekki í kirkjunum dag og nótt heldur var hann sóttur í eldberanum inn í bæinn þegar kveikja þurfti á kertum og glóðar- eða eldkerum sem hafa gefið frá sér hita. Eldberar – pottlaga ílát úr járni eða bronsi – geta hæglega hafa verið notaðir til að flytja eld milli bæja eða þegar kveikja þurfti eld af bæ, eins og til dæmis í seli – sem hefur verið árviss viðburður. Tjörupinnar, eins og sá sem getið er við Flugumýrarbrennu, þekktust um öll Norðurlönd og gegndu líku hlutverki. Máltækið „það er ekki eins og þú sért eldinn að sækja“, sem sagt var við þann sem flýtti sér óhóflega, bendir til að fólk hafi kannast við að það þyrfti að hafa hraðann á til að koma eldi milli staða. Í lok 16. aldar var skráð sögn um að það hafi verið siður í kaþólsku að slökkva heimiliseldinn fyrir páska ár hvert og sækja nýjan til prestsins „því presturinn átti að vígja hann, annars átti hann ekki að duga.“ Þetta hefur verið tengt við hugmyndir um helgi eldsins og sérstaklega heiðinn átrúnað á heimiliseldinn.
Ef eldur logaði viðstöðulaust í hverjum bæ og fólk var vant að flytja eld á milli og hafði til þess nauðsynleg áhöld þá er mögulegt að það hafi svo sjaldan verið þörf á að kveikja eld upp úr þurru að fáir lögðu sig eftir því að ná tökum á þeirri list. Vera má þó að kunnáttuleysi hafi ekki verið þröskuldurinn heldur hafi það verið skortur á nógu þurri uppkveikju sem olli því að þetta var sjaldnar reynt en ætla mætti. Ef fólk var ekki í sífellu að tendra eld þá hafði það ekki ástæðu til að varðveita þurrt tundur og það var einmitt vandasamast að varðveita það á þeim stöðum sem erfiðast var að flytja eldinn með sér, til dæmis á sjó eða í fjallaferðum. Margt bendir til að fólk hafi einfaldlega ekki reynt að kveikja eld við þannig aðstæður. Þannig er talið að í hákarlalegum – sem gátu tekið marga daga – hafi sjómenn ekki byrjað að elda mat fyrr en eftir 1880 en þá voru eldspýtur komnar til sögunnar. Fram að því hafa þeir eingöngu haft kaldan kost.
Hervirki eins og brennur eru meðal þeirra athafna þar sem ætla mætti að eldur hefði ekki endilega verið með í för en af frásögnum af til dæmis Njálsbrennu er ekki annað að sjá en að brennumenn hafi haft hann með sér þó illa gengi að koma eldi að húsunum. Í frásögn af Önundarbrennu 1197 er það tekið fram að brennumenn hafi ekki haft eld með sér og því hafi þurft að sækja hann í nágrennið. Á Flugumýri 1253 voru brennumenn hins vegar vel undirbúnir með sérstakan tjörupinna þó ekki sé tekið fram hvaðan loginn kom sem kveikti í húsunum. Það beið tíma skotvopnanna að stríðsmenn færu að gaufa við að tendra eld á víðavangi.
Hin vel þekkta saga um Gretti Ásmundarson sem synti úr Drangey yfir á Reykjaströnd til að sækja eld, sem hafði slokknað hjá þeim útlögunum í eynni, sýnir að ýmsar hliðar eru á því að geta eða geta ekki kveikt eld. Í eynni voru auk Grettis, Illugi bróðir hans og þrællinn Þorbjörn glaumur. Sagan segir frá því að bræðurnir hafi ekkert þurft að starfa annað en að fara í bjargið þegar þeim sýndist en þrællinn sá um húshaldið, tíndi rekavið til eldsneytis og bar ábyrgð á því að halda eldinum lifandi. Þrælnum fannst verkaskiptingin ósanngjörn og kvartaði og kveinaði og gerðist „ógeymnari en verið hafði“. Þegar eldurinn síðan slokknar hjá honum á lesandinn greinilega að skilja það sem dálitla uppreisn. Að sjá um eld var kvenna- og þrælaverk og það er greinilegt að hvorki Grettir né Illugi eiga að hafa kunnað – eða viljað – kveikja eld. Sagan um Drangeyjarsundið er saga um hofmóð ribbalda sem töldu sig hefðarmenn og þau fáránlegu uppátæki sem karlmennskuímyndin getur knúið menn til. Þrællinn Þorbjörn vildi komast í land og hélt kannski að hann hefði fundið tak á bræðrunum – að þeir myndu aldrei lúta svo lágt að tendra eld og myndu fremur lyppast til lands – en Grettir lætur ekki kúgast og vinnur frægt íþróttaafrek ofaníkaupið.
Drangey séð frá Reykjaströnd.
Eitt af fáum dæmum í íslenskum fornritum sem beinlínis lýsir manni að tendra eld bendir í sömu átt. Í Hallfreðar sögu vandræðaskálds segir frá því þegar Hallfreður var á ferð um óbyggðir Svíþjóðar við þriðja mann. Þeir koma í sæluhús og verða þá að skipta með sér verkum, einn að sækja vatn, annar eldivið og Hallfreður tekur að sér að kveikja upp eldinn eftir að hafa reynt að koma því verki á annan. „... Hallfreður sló eld og tendraðist eigi skjótt því að viðurinn var hrár“ og sem hann „grúfði yfir eldinum“ kemur annar samferðamannanna inn með eldiviðinn og ræðst aftan að skáldinu og reynir að drepa það.
Það gæti hafa verið kristileg hógværð Hallfreðar sem lét hann fallast á að taka að sér óvirðulegasta verkið og það voru Hvíti-Kristur og Ólafur helgi sem björguðu honum úr klípunni, en lærdómur sögunnar er að það sé ekki ráðlegt fyrir hetjur að liggja á gólfinu og baksa við að tendra eld. Í öðru dæmi, úr Þorvalds þætti víðförla, er það heiðinn misyndismaður sem reynir að kveikja í nýbyggðri kirkju: „En er þeir höfðu brotið upp hurðina ætlaði hann að tendra eld á gólfinu við þurran fjalldrapa. En því að eigi logaði svo skjótt sem hann vildi, þá lagðist hann inn yfir þröskuldinn og ætlaði að blása að er glóðin var nóg, en eigi vildi festa í viðinum.“ Þetta fór líka illa: örvar sendar af sjálfu almættinu njörvuðu brennuvarginn við gólfið en þó hann næði að rífa sig lausan þurfti hann að gefast upp á ætlunarverki sínu.
Það má halda því fram að í heimi fornsagnanna sé allt sem tengist eldi andstætt karlmennsku og hetjuskap. Brennur þóttu vera níðingsverk og frásögn Njáls sögu af brasinu sem Flosi og samverkamenn hans áttu í við að koma eldi í bæjarhúsin á Bergþórshvoli gerir ódæði þeirra enn hörmulegra – brennumenn eru hlægilegir þar sem þeir standa nánast ráðþrota frammi fyrir því að framkvæma eigin hugmynd um að bera eld að bænum.
Eldstál og tinnur finnast þó jafnt í kumlum karla sem kvenna þannig að það hefur ekki verið þannig að karlar mættu eða gætu alls ekki kveikt eld. Eldfæri eru ekki algeng í íslenskum kumlum – eldstál hafa fundist í fimm og mögulegar eldtinnur í sex til viðbótar. Flest eru kumlin með eldfæri ríkuleg og sum eru með óvenjulega gripasamsetningu. Ef það var meginreglan að eldurinn logaði samfellt í bæjunum og var frekar borinn á milli en að fólk reyndi að kveikja hann frá grunni þá gæti það hafa verið lítill hópur sem hafði tæknina til að tendra eld á valdi sínu. Vitnisburði fornsagnanna og kumlanna mætti helst koma þannig saman að sá hópur hafi verið álíka skipaður og forritarar nútímans: tölvutæknin er alltumlykjandi í nútímasamfélagi og án hennar komast nútímamenn hvorki lönd né strönd. Mjög fáir kunna hins vegar að forrita eða myndu geta bjargað sér ef þeir þyrftu að smíða tölvu frá grunni. Um það sjá nördin og þau hafa alltaf verið til þó þau hafi ekki verið með í för þegar að það þurfti að brenna bæi eða koma sér í önnur söguleg vandræði.
Heimildir:
Dunbar, R.I.M. & J.A.J. Gowlett 2014, ‘Fireside chat: The impact of fire on hominin socioecology.’ Lucy to Language. The Benchmark Papers, R.I.M. Dunbar, C. Gamble & J.A.J. Gowlett ritstj. Oxford, bls. 277-96.
Guðmundur Ólafsson 1987, ‘Ljósfæri og lýsing.’ Íslensk þjóðmenning I. Uppruni og umhverfi, Frosti F. Jóhannesson ritstj. Reykjavík, bls. 345-69.
Kristján Eldjárn og Adolf Friðriksson 2000, Kuml og haugfé úr heiðnum sið á Íslandi, 2. útgáfa, Reykjavík.
Magnús Már Lárusson 1958, ‘Eldvigning (II). Island.’ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelader 3, 582.
Roebroeks, W., P. Villa & E. Trinkaus 2011, ‘On the earliest evidence for habitual use of fire in Europe.’ Proceedings of the National Academy of Sciences of the United States of America 108(13), 5209-5214.
Weiner, J. 2003, ‘Friction vs. percussion. Some comments on firemaking from Old Europe.’ Bulletin of Primitive Technology 26, 10-16.
Þórður Tómasson 1964, ‘Ljós og eldur.’ Andvari 89, 132-38.
Orri Vésteinsson. „Hvernig kveiktu „fornmenn“ á Íslandi eld?“ Vísindavefurinn, 25. maí 2016, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=71754.
Orri Vésteinsson. (2016, 25. maí). Hvernig kveiktu „fornmenn“ á Íslandi eld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=71754
Orri Vésteinsson. „Hvernig kveiktu „fornmenn“ á Íslandi eld?“ Vísindavefurinn. 25. maí. 2016. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=71754>.