Er hægt að kaupa sér kennslubækur í einhverjum tölvubúðum?Sumum finnst mjög auðvelt að læra forritun en aðrir ná sér aldrei almennilega á strik í því. Þeir sem hafa gaman af rökhugsun og nákvæmnisvinnu tileinka sér í flestum tilvikum forritun tiltölulega auðveldlega. Ef fólk vill komast að hvort það hafi ánægju af forritun eða hæfileika til forritunar þá er besta aðferðin sennilega sú að prófa einfaldlega að forrita. Hafi fólk ánægju af forritun er líklegra að það hafi hæfileika. Til eru fjölmörg forritunarmál með mismunandi kosti og galla. Þau henta misvel eftir því hvers konar vandamál er verið að glíma við. Flestir sem vilja kynna sér forritun lauslega byrja sennilega á einhvers konar vefsíðuforritun, til dæmis með því að nota Javascript. Af öðrum forritunarmálum er trúlega Visual Basic frá Microsoft algengast fyrir byrjendur, en einnig eru sumir sem byrja á að nota Java. Enn aðrir byrja á stærðfræðilegri eða rökfræðilegri forritunarmálum svo sem Scheme. Þá er Python af sumum talið gott sem fyrsta forritunarmál. Ótölulegur fjöldi bóka um forritun er nú fáanlegur, en einnig má finna leiðbeiningar á vefnum fyrir flest tiltæk forritunarmál, bæði handbækur og kennslubækur. Trúlega er best að prófa sig áfram með þau tól og þær leiðbeiningar sem finna má ókeypis á vefnum og síðan má ef til vill kaupa tól og bækur eftir því sem þekkingin eykst og þarfirnar verða skýrari. Frekara lesefni af Vísindavefnum:
- Hver er munurinn á PHP, ASP og JSP þar sem öll eiga víst að gera sama hlutinn? eftir Daða Ingólfsson
- Hvernig var fyrsta forritið búið til ef það þarf forrit til að búa til forrit? eftir Hjálmtý Hafsteinsson
- Hvað er „hex” og hvernig tengist það forritun? eftir Einar Örn Þorvaldsson og Hildi Guðmunsdóttur
- Er lögfræðinám forritun á hugsunarhætti? Hvernig er námið skipulagt? eftir Skúla Magnússon