En hvað þá með að fullnægja bara orkuþörfinni með sælgæti og sleppa matnum? Þannig má komast hjá þeim óhollustuþætti sem of mikil orkuneysla er. Það er alls ekki vænlegt því eins og áður sagði þá inniheldur sælgæti mjög lítið af nauðsynlegum næringarefnum og því hætta á alls konar hörgulsjúkdómum og vanlíðan sem fylgir næringarskorti. Reyndar hafa vítamínframleiðendur verið að gera tilraunir með að framleiða sælgæti sem inniheldur vítamín, eins og til dæmis gúmmíbangsa og annað hlaup. En þó það sé gott og gilt að fá vítamín þá skortir enn á önnur næringarefni, auk þess sem vítamínum á sælgætisformi fylgir mikill sykur eins og öðru sælgæti. Einn þáttur í viðbót sem gerir sælgæti óhollt snertir svo tennurnar en rannsóknir hafa sýnt að mjög sterk tengsl eru á milli sykuráts (sælgætis) og tannskemmda. Frá því sjónarhorni er sælgæti mjög óhollt og ekki séð hvernig því verður breytt. Lesa má meira um sælgæti og tennur í svari við spurningunni Hvað þarf maður að borða mikið sælgæti, án þess að bursta tennurnar, til að tennurnar detti úr manni? En af hverju getur nammi þá ekki verið hollt? Er ekki hægt að framleiða nammi sem inniheldur lítinn sykur og mikið af næringarefnum? Eiginlega má svara því með spurningu - fyndist okkur slíkt vera NAMMI? Líklega verðum við bara að sætta okkur við að sælgæti er og verður óhollt og umgangast það sem slíkt, það er allt í lagi að fá sér að smakka en gæta hófs. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað er hollt mataræði?
- Hvað er það í matnum sem heldur okkur lifandi?
- Hver er lágmarks næringarþörf mannsins?
- Hvaða áhrif hefur súkkulaði á líkamann?
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.