Á síðari árum hefur athyglin einna helst beinst að örvandi áhrifum sólhatts á ónæmiskerfið þá sérstaklega til að meðhöndla eða koma í veg fyrir kvef, inflúensu og aðrar sýkingar í öndunarfærum. Rannsóknir úr tilraunaglösum og á dýrum gefa til kynna að sólhattur hafi ónæmisörvandi áhrif. Klínískar rannsóknir hafa sýnt misvísandi niðurstöður. Nokkrar hafa sýnt fram á virkni sólhatts gegn sýkingum í efri öndunarfærum en aðrar hafa sýnt fram á að sólhattur hafi hvorki fyrirbyggjandi áhrif né virki gegn sýkingum í efri öndunarfærum. Hafa ber í huga að ekki er hægt að staðfesta virknina vegna þess að rannsóknir voru gerðar á mismunandi sjúklingahópum og styrkur, skammtur og vörutegundir af sólhatti voru mismunandi. Því er erfitt að mæla með einhverri sérstakri vörutegund af sólhatti, hver skammturinn á að vera og hve lengi á að taka sólhattinn. Þörf er á góðum klínískum rannsóknum til hægt sé að staðfesta þessa virkni sólhatts. Fólk virðist þola sólhatt vel en þörf er á frekari rannsóknum til kanna öryggi mismunandi sólhatta, einkum vegna mögulegra ofnæmisviðbragða og öryggi notkunar hjá ákveðnum sjúklingahópum. Eins og með aðrar náttúruvörur og náttúrulyf þarf að hafa í huga milliverkanir sólhatts við önnur lyf. Á Vísindavefnum eru nokkur svör sem fjalla um jurtir sem notaðar hafa verið í lækningaskyni, til dæmis:
- Hefur verið sannað að náttúrulyf eins og til dæmis fjallagrös virki? eftir Sesselju Ómarsdóttur og Margréti Bessadóttur
- Hefur verið sannað að náttúrulyf eins og til dæmis birkiaska virki? eftir Sesselju Ómarsdóttur og Margréti Bessadóttur
- Hefur verið sannað að náttúrulyf eins og til dæmis lýsi virki? eftir Sesselju Ómarsdóttur og Margréti Bessadóttur
- Er ætihvönn góð sem grasalyf og ef svo er, hvernig er hún þá matreidd? eftir Sigmund Guðbjarnason
- Hvernig planta er vallhumall og hvernig hefur hún verið notuð? eftir Sigmund Guðbjarnason
- Hvaða lækningagildi hefur lúpínan? eftir Sigmund Guðbjarnason
- Hvernig var skessujurt notuð til lækninga? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvaða jurtir voru notaðar til galdraverka og lækninga? eftir Símon Jón Jóhannsson