Blettahnýðirinn er ákaflega sterklega og rennilega vaxinn höfrungur. Fullvaxinn er hann frá 250 til 300 cm á lengd og vegur frá 180 til 370 kg. Tarfar eru að jafnaði stærri en kýrnar. Eins og sagt er hér að ofan er hann algengastur höfrunga á grunnsævinu ásamt hinum risavaxna háhyrningi. Algengt er blettahnýðir séu saman í hópum, oft nokkrir tugir dýra. Hann er farhvalur en norðlægastur allra smáhöfrunga. Á sumrin finnst hann allt norður til Múrmansk á Kolaskaga og í Scoresbyssunds á Grænlandi. Blettahnýðir finnst oft rekinn hér við land. Lauslegt mat á heildarfjölda blettahnýðings hér við land samkvæmt hvalatalningu Hafrannsóknastofnunnar frá 1989 er að fjöldinn sé á bilinu 12 til 20 þúsund dýr. Þetta eru að vísu 20 ára gamlar niðurstöður en ættu þó að gefa einhverja hugmynd um fjölda dýra sem heldur hér til á Íslandsmiðum. Sjáist til höfrunga í hvalaskoðunarferðum hér við land eru um 90-95% líkur á að þar sé um blettahnýði að ræða.
Hér sjást háhyrningar (Orchinus orca) stökkva upp úr sjónum.
Leifturhnýði (stundum kallaður leiftur) svipar mjög til blettahnýðis (Lagenorhynchus albirostris) enda eru þetta náskyldar tegundir. Þeir eru kraftalegir og rennilegir, um 2-2,5 metrar á lengd og vega í kringum 175 kg. Þeir eru svartir á baki og á bægslum, gráir á hliðum með hvítan kvið. Þeir halda sig saman í hópum og má oft sjá hópa með 10 og allt upp í 100 dýr. Leifturhnýðirinn heldur sig lengra úti á opnu hafi en aðrar tegundir höfrunga sem halda til hér við land. Fæðuval þeirra er fjölbreytt en meginuppstaðan í fæðunni eru þó torfufiskar svo sem síld, makríll og síli. Þar að auki éta þeir töluvert af smokkfiski og annað ætilegt sem til fellur.
Þessi mynd var tekin af blettahnýði í sjónum við Ísland.
© Marianne Rasmussen
Grindhvalurinn er talsvert stærri en þær tegundir sem hefur verið fjallað um hér að ofan enda flokkaður í aðra undirætt, ennishöfrunga (Globicephaus). Fullvaxinn grindhvalatarfur er venjulega um 5,5 til 6 metrar á lengd og vegur um 3500 kg. Kvendýrið er nokkuð minna og getur mest orðið um 5 metrar á lengd. Fullvaxnir grindhvalir eru að mestu svartir á lit en á kviðnum er ljósgrá rönd sem nær allt undir höfuð þar sem hún klofnar. Bakugginn er ávalur og bægslin mjóslegin og nokkuð löng. Þetta einkenni er einmitt eitt helsta auðkenni grindhvalsins. Ennið er afar hátt og mun hærra en hjá öðrum höfrungum sem finnast hér við land. Grindhvalurinn er úthafshvalur og kemur afar sjaldan á grunnsævi þó það komi fyrir að þeir leiti þangað eftir æti. Líkt og með aðrar tegundir af höfrungaættinni þá eru grindhvalir ákaflega félagslyndir og ferðast um í stórum hópum, mörg hundruð dýr saman. Einhverjar frásagnir eru til af því að stærri hópar hafi sést, allt að 3.000 dýr í vöðu. Grindhvalir eru mjög algengir á hafsvæðum í kringum landið á sumrin. Ólíkt öðrum tegundum ættarinnar eru grindhvalir þó ekki neitt sérstaklega gefnir fyrir það að synda nærri bátum. Þeir sjást þó talsvert undan norðvestur- og vesturströndinni á haustin og eru þeir þá að eltast við sína uppáhaldsfæðu, beitusmokkinn (Todarodes sagittatus). Auk þeirra éta grindhvalir fjölda fisktegunda svo sem ýmsar tegundir torfufiska. Það hefur oft þótt sérkennilegt atferli hjá grindhvölum að sést hefur til þeirra sofandi í þéttum hóp marandi í hálfu kafi út á rúmsjó.
Hvalveiðar hafa töluvert verið stundaðar í Færeyjum.
- Hvað eru margir hvalir í sjónum í kringum Ísland?
- Hvað getið þið sagt mér um höfrunga?
- Hvað getið þið sagt mér um tannhvali?
- Hvað getur leifturhnýðir eignast marga kál
- Eru hvalir í útrýmingarhættu í dag?
- Hvers vegna héldu forfeður hvala til sjávar?
- Sigurður Ægisson, Jón Ásgeir í Aðaldal og Jón Baldur Hlíðberg. 1997. Íslenskir hvalir fyrr og nú. Prentsmiðjan Oddi hf., Reykjavík.
- Rice, D. W. 1984. Cetaceans. Í Anderson, S. og J. K. Jones, Jr. (ritstj). Orders and Families of Recent Mammals of the World. John Wiley and Sons, New York: bls. 447-490.