Ýmis fleiri áberandi líkamseinkenni skilja að tannhvali og skíðishvali. Tannhvalir eru að jafnaði talsvert minni en skíðishvalir að búrhval (Physeter catodon) undanskildum. Einnig eru tannhvalir aðeins með eitt öndunarop en skíðishvalir hafa hins vegar tvö. Tannhvalir beita einnig bergmálsmiðun við fæðuleit og hefur aðlögun að slíkri skynjun gert það að verkum að hauskúpa þeirra er ósamhverf, en slíkt þekkist ekki á meðal skíðishvala. Tannhvalir eru nær undantekningalaust hópdýr. Hóparnir geta verið misstórir, allt frá nokkrum dýrum upp í tugi einstaklinga. Stundum sameinast hópar einnig í mjög stóra hópa, jafnvel allt að þúsund dýr eins og þekkist meðal höfrunga. Samskipti á milli einstaklinga hópsins geta verið margbreytileg og flókin og telja vísindamenn samskiptamáta margra tegunda tannhvala vera meðal þess flóknasta sem þekkist í dýraríkinu. Tannhvalir sýna einnig talsverða lærdómsgetu og eru því gjarnan taldir meðal greindari dýra. Tannhvalir lifa fyrst og fremst á fiski en þó eru til undantekningar frá því. Sem dæmi má nefna að háhyrningar (Orcinus orca) éta önnur sjávarspendýr og svínhvalir veiða djúpsjávarsmokkfiska sér til matar, en smokkfiskar eru ekki fiskar heldur hryggleysingjar. Nánar má lesa um það í svari sama höfundar við spurningunni: Hvernig æxlast smokkfiskar? Það eru ekki allir sammála um hvernig flokka beri tannhvali í ættir. Hér á eftir er fjallað um einstakar ættir og nokkrar tegundir, en miðað er við að núlifandi tannhvalir skipist í sjö ættir. Höfrungar (Delphinidae) Alls eru þekktar rúmlega 30 tegundir höfrunga, sem gerir þá að tegundaríkustu ætt tannhvala. Að háhyrningum (Orchinus orca) undanskildum eru höfrungar tiltölulega litlir af hvölum að vera. Nokkrar tegundir höfrunga finnast hér við land. Hnýðingar (Lagenorhynchus albirostris) eru mest áberandi en auk þess sjást háhyrningar einnig reglulega. Nánar er fjallað um höfrunga í svari sama höfundar við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um höfrunga? og í öðrum svörum sem finna má með því að smella á efnisorðin neðst í þessu svari. Hvíthveli (Monodontidae) Aðeins tvær tegundir tilheyra ætt hvíthvela, mjaldur (Delphinapterus leucas) og náhvalur (Monodon monoceros). Þessar tegundir er einkum að finna í Norður-Íshafi. Mjaldurinn finnst þó einnig í aðliggjandi höfum eins og Okhotskhafi og á það til að flækjast upp eftir stórfljótum svo sem Amurfljótinu í Austur-Rússlandi. Nánar er fjallað um náhval í svari sama höfundar við spurningunni: Hver er sérstaða náhvals?
Svínshveli eru sennilega sú ætt núlifandi spendýra sem einna minnst er þekkt. Til marks um það fundust nokkrar tegundir svínshvala ekki fyrr en á síðustu 5-20 árum. Svínshvalir eru djúpsjávardýr og halda sig oftast á úhöfunum. Þeir eru taldir geta kafað niður á meira en 1.000 metra dýpi þar sem þeir leita að djúpsjávarsmokkfiskum til að éta. Þeir hafa einstaka köfunarhæfileika og geta verið í kafi í að minnsta kosti hálfa klukkustund. Mælingar hafa þó sýnt að þessi tími getur verið mun lengri eða allt að 80 mínútur. Innan íslensku fiskveiðilögsögunnar er andarnefjan (Hyperodon ampullatus) mest áberandi svínshvalurinn, en nokkrar aðrar tegundir finnast þó suður af landinu. Má þar nefna gáshnall (Ziphius cavirostris) og norðsnjáldru (Mesoplodon bidens). Vatnahöfrungar (Platanistidae) Vatnahöfrungar eru vafalaust frumstæðastir núlifandi hvala. Þeir eru litlir verða stærstir um 3 metrar á lengd. Þeir bera ýmis frumstæð einkenni, til dæmis eru hálsliðirnir ekki samvaxnir líkt og hjá öðrum hvölum. Fimm tegundir teljast til vatnahöfrunga og lifa þær í fljótum í Suður-Ameríku og Asíu. Á Vísindavefnum eru fjölmörg önnur svör um hvali sem hægt er að finna með því að smella á efnisorðin hér fyrir neðan eða með því að nota leitarvélina á vefnum. Heimildir og myndir:
- Martin, Tony. 1990. Illustrated Encyclopedia of Whales and Dolphins. Gramercy: New York.
- Sigurður Ægisson 1997. Íslenskir hvalir fyrr og nú. Reykjavík: Forlagið.
- Sjávardýraorðabók Gunnars Jónssonar: www.hafro.is/ordabok
- Mynd af háhyrningi: Tsitika’s Page
- Mynd af náhval: MSNBC.com
- Mynd af andarnefjum: Fisheries and Oceans Canada