Háhyrningar eru ekkert sérstaklega algengir þó að þeir finnist um allan heim. Þessi dýr þurfa mikið lífsrými enda gríðarstórar kjötætur; fullorðin karldýr geta orðið rúmir 9,5 metrar á lengd og vegið 8-10 tonn. Dýrin afkasta mikilli vinnu enda fara þau hratt yfir í fæðuleit og eru kraftmestu sunddýr jarðarinnar. Öll hegðun þeirra við veiðar minnir helst á úlfa enda eru þeir oft kallaðir úlfar hafsins. Rannsóknir hafa sýnt að háhyrningar þurfi dag hvern að éta kjöt sem samsvarar frá 2,5 til 5% af líkamsþyngd þeirra og ef dýrið er um sjö tonn þarf það frá 175 til 350 kg af fæðu á dag. Hjarðirnar eru misstórar eða oftast frá örfáum dýrum upp í 25 dýr en þó þekkjast stærri hjarðir, allt að fimmtíu dýr. Vísindamenn hafa borið kennsl á tvenns konar gerðir af hjörðum, staðbundnar hjarðir og flökkuhjarðir. Talsverður atferlismunur er á þessum tveimur gerðum af hjörðum. Flökkuhjarðirnar lifa aðallega á spendýrum og gefa ekki eins tíð hljóðmerki sín á milli. Staðbundnu hjarðirnar eru minni, mest um 7 dýr, kafa tíðar og lengur eða að meðaltali í 15 mínútur. Heimasvæði eða óðul staðbundnu hjarðanna eru mun minni og fiskur er uppistaðan í fæðu þeirra. Rannsóknir hafa einnig verið gerðar á "tungumálum" hjarðanna og benda þær til þess að þau séu mismunandi milli hjarða. Þessar upplýsingar byggjast á rannsóknum á háhyrningum sem halda til í kanadískri landhelgi. Það var höfundur flokkunarkerfis líffræðinnar, sænski grasafræðingurinn Carl Linné, sem skilgreindi háhyrninginn til tegundar og þá undir fræðiheitinu Delphinus orca sem þýða mætti sem djöflahöfrungur. Það hefur sennilega verið vegna lögunar bakuggans sem stendur beint upp og er gríðarstór, eða allt að 1,8 m á hæð. Strax í upphafi skipulegrar flokkunar á lífverum flokkaði Linné háhyrninginn sem sömu tegund og höfrung, en 1860 var hann skilgreindur sem sérstök tegund í ættkvíslinni Orcinus. Til að svara síðari spurningunni bendum við fyrst á svar við spurningunni Eru allir tannhvalir ránhvalir? En að öðru leyti er svarið við þessu undir því komið hvaða skilningur er lagður í orðið 'rándýr'. Þannig tilheyra hvalir ekki ættbálki hinna eiginlegu rándýra (Carnivora) samkvæmt flokkunarfræði dýrafræðinga (landdýr með klær, vígtennur og svo framvegis), en fæðuval þeirra einskorðast hins vegar við önnur dýr, hvort sem um er að ræða hreinræktaðar kjötætur eins og háhyrninga, eða skíðishvali sem sía sjóinn til þess að ná í örsmá, sviflæg krabbadýr. Hvalir eru því kjötætur eða afræningjar sem herja á önnur dýr og þess vegna má vel kalla þá rándýr samkvæmt þeirri merkingu orðsins sem felst til dæmis í enska orðinu predator en hún hefur að vísu ratað illa inn í íslenskar orðabækur fram að þessu. Mynd 1: Hér má sjá muninn á kynjunum en sá helsti er bygging bakuggans auk þess sem karldýrin eru stærri en kvendýrin. Mynd 2: Háhyrningar undan ströndum Suður-Ameríku beita sérstæðum og áhættumiklum aðferðum við veiðar á sæljónum. Heimildir:
- Bonner, Nigel. 1989. Whales of the World. Facts on File Inc., New York.
- Gormley, Gerard. 1990. Orcas of the Gulf. Sierra Club Books, San Francisco.