Að mati ofangreindra samtaka eru fimm af þeim sex skíðishvalategundum sem finnast reglulega hér við land í útrýmingarhættu, mismikilli þó. Í bókinni Villt íslensk spendýr eru tegundirnar sex taldar upp: Steypireyður (Balaenoptera musculus), langreyður (B. physalus), sandreyður (B. borealis), hrefna (B. acutorostrata), hnúfubakur (Megaptera novaeangliae) og Íslandssléttbakur (Eubalaena glacialis).
Fjórar þessara tegunda eru taldar vera í útrýmingarhættu (e. endangered) og 20% líkur eru á því þær deyi út á næstu tuttugu árum. Sérfræðingar meta það svo að dýr í þessum flokki séu ekki í bráðri útrýmingarhættu en muni að öllum líkindum hverfa ef ekki er gripið til viðeigandi aðgerða í nánustu framtíð. Þessar tegundir eru steypireyður, sandreyður, langreyður og Íslandssléttbakur. Flokkurinn ‘í útrýmingarhættu’ er næstefstur í áhættumati IUCN, efsta stigið nefnist ‘í alvarlegri útrýmingarhættu’ (e. critically endangered). Engin hvalategund sem lifir við Ísland er í þeim flokki. Flokkun nokkurra tegunda á lista IUCN hefur sætt gagnrýni. Til að mynda má benda á að heildarstofnstærð langreyðar hefur aukist undanfarin ár samkvæmt rannsóknum Hafrannsóknastofnunar frá árunum 1991, 1995 og 2001. Marktækt fleiri langreyðar reyndust vera á hafsvæðinu milli Austur-Grænlands og Íslands frá fyrstu talningu til þeirrar síðustu og ljóst þykir að stofninn sé að stækka. Þess vegna er óhætt að hefja veiðar á nokkrum stofnum langreyðarinnar, meðal annars þeirri sem heldur sig hér við land. Hvort vísindaleg né pólitísk rök liggja að baki stöðu langreyðar á listanum skal látið ósagt hér. Hnúfubakur (Megaptera novaeangliae) er talinn vera í hættu (e. vulnerable). Dýr sem falla í þennan flokk eru ekki í bráðri hættu á allra næstu áratugum. Sérfræðingar telja að um 10% líkur séu á því að dýrin deyi út á næstu 100 árum, sé tekið mið af stofnþróun undanfarinna áratuga. Hnúfubakar voru mikið veiddir hér áður fyrr og er talið að meira en eitt hundrað þúsund dýr hafi verið veidd og er heildarstofnstærðin nú aðeins um 12-15 þúsund dýr.
Hrefnan (B. Acutorostrata) er sett í flokkinn ‘í lítilli hættu’ (e. low risk) og undirflokkurinn er skilgreindur sem nærri því ógnað (e. near threatened). Dýr í þessum flokki uppfylla ekki þau skilyrði að vera háð einhverri verndun en eru nálægt því. Eins og flestir vita hafa íslensk stjórnvöld heimilað veiðar á 38 hrefnum í ár. Tegundin þolir vel slíkar veiðar og jafnvel meiri. Málflutningur margra útlendinga um að ekki eigi að veiða hrefnur vegna þess að stofninn sé í útrýmingarhættu á því ekki við rök að styðjast. Tannhvalir (odontoceti)
Í bókinni Villt íslensk spendýr eru taldar upp að minnsta kosti 12 tegundir tannhvala sem sjást hér við land. Þrjár þeirra flokkast í útrýmingarhættu (e. endangered), en það eru búrhvalur (Physeter catadon), mjaldur (Delphinapterus leucas) og hnísa (Phocoena pocoena). Samkvæmt áðurnefndum lista eru átta af 18 tegundum sem taldar eru upp í bókinni Villt íslensk spendýr á Rauða listanum. Heildarstofnstærð margra af smærri tannhvalategundunum er ekki kunn en þó hafa verið unnið svæðisbundið stofnmat fyrir tegundir eins og hnýðing og leiftra sem eru nokkuð algengir hér við land. Rannsókn bandarískra vísindamanna á leiftri sýndi að stofnstærð hans á grunnsævinu frá Maineflóa norðaustur til Cabotsunds var um 27 þúsund dýr að sumarlagi 1995. Vísindamenn telja heildarfjölda leiftra í Atlantshafinu vera um nokkur hundruð þúsund dýr. Eflaust lifa fleiri tegundir tannhvala hér við land, svo sem fáeinar tegundir svínhvela (Ziphiidae) en stofnstærð þeirra er með öllu óþekkt. Heimildir og myndir:
- Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson (ritstj.), Villt íslensk spendýr, Hið íslenska náttúrufræðifélag: Landvernd, Reykjavík 1993.
- Heimasíða Jóns Baldurs Hlíðbergs, Myndir af lífríki lands og sjávar
- Redlist.org
- Ástandsskýrsla Hafrannsóknastofnunarinnar 2003
- ADNet - Futureshock