Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Trjáfroskar eru heiti froska sem tilheyra tveimur ættum, Hylidae og Rhacophoridae. Þessar ættir greinast nánar í 6 undirættir, 49 ættkvíslir og yfir 350 tegundir. Þetta er afar fjölbreyttur hópur og þrátt fyrir heitið þá lifa ekki allar tegundir hinna svokölluðu trjáfroska í trjám, heldur einnig á jörðu niðri, við tjarnir og annað votlendi.
Klifursproti (Hyla arborea) er algengasti trjáfroskurinn í Evrópu.
Meðal tegundaauðugustu ættkvísla trjáfroska er sprotaættkvíslin (Hyla), en tegundir sem tilheyra henni finnast í flestum heimsálfum. Vísindamönnum greinir nokkuð á um tegundafjölda ættkvílarinnar en sennilega er hann eitthvað rúmlega 30 tegundir. Af þessari ættkvísl er kunnasti trjáfroskurinn í Evrópu, klifursproti (Hyla arborea), en hann er einkum alengur í mið- og suðurhluta álfunnar. Hann er ekki nema um 4,5 cm á lengd og finnst helst í votlendi og gróðurríkum tjörnum. Æxlunartími klifursprota er á vorin, í apríl og maí, þegar vorrigningarnar herja á Evrópubúa. Þá óma votlendin af kvaki klifursprotans, en kynin finna hvort annað með hinu kunnuglega kvaki og öðrum hljóðmerkjum. Æxlun er útvortis og gefur kvendýrið frá sér allt að 1000 egg sem föst eru í eins konar slímhjúp sem karldýrið frjóvgar svo með því að sprauta sæði sínu yfir. Eggin eru smá 2-3 mm á lengd og er verpt í vatn, tjörn eða poll, en froskar þrátt fyrir að teljast til landhryggdýra eru ekki alveg lausir við veröld vatnsins.
Trjáfroskar af tegundinni Rhacophoridae eru töluvert stærri en froskar af Hylidae ættinni.
Áður fyrr var klifursproti notaður sem nokkurs konar þrýstingsmælir. Froskarnir bregðast við breytingum á loftþrýstingi með því að kvaka og gefa þannig fólki merki um að rigning sé í nánd. Aðrar kunnar tegundir sprotaættkvíslarinnar er furusproti (Hyla andersonii) sem finnst á takmörkuðu svæði við austurströnd Bandaríkjanna. Furusproti er minnsta tegunda ættkvíslarinnar, en þeir eru aðeins á milli 28 mm til 40 mm á lengd og vega aðeins örfá grömm. Það sem þykir hvað merkilegast við þennan frosk er þol hans gagnvart súru umhverfi en hann finnst oft við tjarnir og polla sem hafa pH gildi allt niður í 3,8, en hlutlaust umhverfi telst hafa pH-gildið 7. Kjörsýrustig furusprotans er hins vegar á milli 4-5,7.
Tegundir af ættinni Rhacophoridae eru mun stórvaxnari en tegundir af Hylidae ættinni. Trjáfroskar þessir finnast helst í austurhluta Asíu til dæmis á Indlandi, Sri Lanka, Kína og Indónesíu en einnig finnast tegundir ættarinnar á Madagaskar. Þeir eru almennt flatvaxnir, með breiðleita og flata höfuðbyggingu. Stærstu tegundir ættarinnar geta orðið allt að 12 cm á lengd. Tegundir þessarar ættar greinast í níu ættkvíslir sem hafa mikla útbreiðslu, en tegundir ættarinnar lifa við mjög fjölbreytt skilyrði. Þrátt fyrir það er tegundafjölbreytnin mest í regnskógum jarðarinnar. Á Amasonsvæðinu hafa til dæmis fundist rúmlega 40 tegundir.
Japanskur tjáfroskur (Hyla japonica).
Lífsskilyrði trjáfroska af Hylidae ættinni eru einnig fremur fjölbreytt. Tegundir þessarar ættar finnast í þurrari skógum tempraða beltisins, svo sem í Norður-Ameríku og jafnvel á gresjum og eyðimerkursvæðum.
Allar frosktegundir drepa önnur dýr sér til matar. Rannsóknir á fæðuvali trjáfroska af ættinni Hylidae hafa sýnt að þeir lifa einkum á liðdýrum (Arthropoda) og þá sérstaklega skordýrum og áttfætlum. Stærri tegundir trjáfroska, til dæmis Sumaco-trjáfroskurinn, éta hins vegar stærri bráðir svo sem aðra froska eða smáar eðlur. Sumar tegundir trjáfroska eru svo mjög sérhæfðar í fæðuvali, grænsprotinn étur til dæmis bara maura af einni ákveðinni tegund, en flestar tegundir trjáfroska éta þó allt sem að kjafti kemur og þeir ráða við.
Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um trjáfroska?“ Vísindavefurinn, 7. febrúar 2008, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7056.
Jón Már Halldórsson. (2008, 7. febrúar). Hvað getið þið sagt mér um trjáfroska? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7056
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um trjáfroska?“ Vísindavefurinn. 7. feb. 2008. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7056>.