Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Froskar tilheyra flokki froskdýra (Amphibia) en það er einn fimm flokka hryggdýra. Hinir eru spendýr, skriðdýr, fiskar og fuglar. Froskdýr skiptast í þrjá ættbálka: Anura (froskar og körtur), Urodela (salamöndrur) og Gymnophiona (ormakörtur), en það eru fótalaus dýr sem minna mjög á slöngur.
Tegundin Leiopelma archeyi finnst aðeins á Nýja-Sjálandi.
Froskdýr finnast í öllum heimsálfum að Suðurskautslandinu undanskildu. Talið er að til séu um 5.400 tegundir froskdýra í heiminum í dag. Af þeim eru um 4.000 tegundir í þeim 25 ættum sem tilheyra Anura-ættbálkinum. Í sinni víðustu merkingu er hægt að nota orðið froskar yfir allar halalausar tegundir þessa ættbálks. Langflestir líffræðingar vilja þó nota þrengri skilgreiningu og telja froska vera aðeins þær tegundir sem tilheyra Ranidae-ættinni (eiginlegir froskar). Í svarinu hér á eftir er miðað við þessa þrengri merkingu orðsins.
Um 30 ættkvíslir með tæplega 700 tegundir tilheyra Ranidea-ættinni, en vísindamenn greinir reyndar á um hversu margar ættkvíslirnar eru nákvæmlega. Rana-ættkvíslin inniheldur flestar tegundir eða um 250. Það er jafnframt eina ættkvíslin sem finnst í Norður-Ameríku, en alls er nú vitað um 90 tegundir froska í Bandaríkjunum. Á meðal þeirra eru vel þekktar tegundir eins og Rana sylvatica eða skógarfroskurinn.
Skógarfroskurinn (Rana sylvatica) finnst í Norður-Ameríku.
Froskar, eins og margar aðrar tegundir, hafa átt undir högg að sækja. Búsvæðaröskun, þá aðallega röskun votlendis, mengun og gríðarleg aukning á notkun skordýraeiturs í landbúnaði víða um heim, hefur valdið því að froskum hefur farið fækkandi um allan heim og nokkrar tegundir dáið út. Nú við upphaf 21. aldar eiga froskar sérstaklega erfitt uppdráttar á fjórum svæðum; í vesturhluta Norður-Ameríku, Mið-Ameríku, norðaustur Ástralíu og á eyjunni Puerto Rico, en umtalsverð hnignun á sér stað mun víðar. Þessi mikla hnignun frosktegunda sést til dæmis á því að á sumum svæðum í Bandaríkjunum þar sem allt var morandi í froskum fyrir 10 árum heyrist varla kvak lengur.
Þó svo að athafnir manna sem valda röskun á búsvæðum séu helstu orsakir þess að froskum fækkar þá hefur þeim einnig fækkað innan verndarsvæða, svo sem á votlendissvæðum við Klettafjöllin í vesturhluta Bandaríkjanna. Meðal annars hefur hlébarðafrosknum sem þar lifir hnignað verulega á undanförnum árum.
Platymantis vitiensis er trjáfroskur sem lifir á Fídjieyjum.
Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin Union for Conservation of Nature (IUCN) hafa alls skilgreint 427 tegundir froskdýra í mjög mikilli útrýmingarhættu (e. extremely endangered). Að mati annarra sérfræðinga er vandinn mun meiri og ættu allt að 1.300 tegundir að vera á þessum lista eða sem samsvarar tæplega fjórðungi allra froskdýra í heiminum.
Fréttir af fjölda froskategunda eru þó ekki bara dapurlegar, heldur finnast líka reglulega nýjar tegundir. Meðal annars hefur fjöldi nýrra tegunda fundist á eyjunni Srí Lanka á Indlandshafi. Srí Lanka er sannkölluð froskaparadís því um 140 tegundir eru á eyjunni eða um fimmtungur af öllum froskategundum heimsins. Það má þó taka það fram að regnskógasvæði eyjunnar fer sífellt minnkandi og hefur það áhrif á lífríki froskanna.
Nánari upplýsingar um froska má finna í eftirfarandi svörum Vísindavefsins:
Jón Már Halldórsson. „Hvað eru til margar tegundir af froskum?“ Vísindavefurinn, 3. janúar 2006, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5535.
Jón Már Halldórsson. (2006, 3. janúar). Hvað eru til margar tegundir af froskum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5535
Jón Már Halldórsson. „Hvað eru til margar tegundir af froskum?“ Vísindavefurinn. 3. jan. 2006. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5535>.