Um 1950 tóku menn eftir því að hrygggigt er ættlægur sjúkdómur. Upphaflega var talið að um ríkjandi erfðir væri að ræða með mismikilli tjáningu. Árið 1973 sýndu menn svo fram á tengsl vefjaflokksins HLA-B27 við hrygggigt og er talið að um það bil 95% þeirra sem eru með hrygggigt hafi þennan vefjaflokk, en algengi HLA-B27 hjá íslensku þjóðinni er um 15%. Börn HLA-B27 jákvæðra einstaklinga hafa helmings líkur á að erfa genið. Rannsóknir hafa því sýnt að auknar líkur er á að afkomendur þeirra sem hafa hryggikt fái einnig sjúkdóminn. Með tvíburarannsóknum hefur verið sýnt fram á að annar erfðaþáttur en HLA-B27 ræður jafn miklu um það hvort menn fá sjúkdóminn. Það er því ekki hægt að spá fyrir með vissu um hættu afkomenda hrygggigtarsjúklinga á að fá sjúkdóminn, en ljóst er að erfðirnar eru margþátta og flóknari en talið var í upphafi.
Hrygggigt er sjúkdómur ungs fólks, einkennin byrja yfirleitt á unglingsárum eða snemma á þriðja áratug ævinnar. Fyrstu einkennin eru oftast langvinnir mjóbaksverkir og verkir í rasskinnum yfir spjaldliðum. Einkenni byrja sem djúpir verkir í rasskinnum eða mjóbaki, oft með hléum í byrjun. Eftir nokkra mánuði verða verkirnir síðan þungir og finnast stöðugt yfir mjóbaki og rasskinnum. Stundum trufla verkirnir nætursvefn og þurfa sumir sjúklingar að fara fram úr rúmi um miðja nótt og liðka sig. Verkirnir eru verstir á morgnana þar sem stirðnun við hvíld er eitt aðaleinkenni sjúkdómsins. Annað sem einkennir bakverki í hrygggigt er að verkirnir lagast við áreynslu og æfingar. Sjúkdómurinn getur þróast mishratt, í vægu formi er hann bundinn við spjaldliði og mjóbak. Stirðnun getur þá orðið í spjaldliðunum og lendhryggnum sé ekkert að gert. Í sinni verstu mynd getur sjúkdómurinn valdið einkennum, verkjum og stirðleika frá allri hryggsúlunni og bólguvirknin verið stöðug. Við það getur orðið veruleg hreyfiskerðing í öllum hryggnum, sem gerir þessum sjúklingum mjög erfitt fyrir við athafnir daglegs lífs.
Í upphafi sjúkdómsins verður bólga í festingum liðbanda og liðpoka við bein, þá einkum í spjaldliðum og við festur liðþófa og liðbanda á liðboli í hryggnum. Þegar á líður verður beinnýmyndun við þessar festingar, þannig að liðbönd og liðpokar beingerast og stirðna. Breytingar á útliti spjaldliðanna eru grundvöllur að greiningu sjúkdómsins. Hryggjarbolir verða kassalaga vegna bólgu og beinnýmyndunar á efri og neðri brúnum þar sem liðþófarnir festast á þá. Hryggjarbolurinn missir þá sveigju sem eðlileg er við frambrún hans. Yfirbrúandi beinbryggjur myndast á milli hryggjarbola og spjaldliðirnir geta vaxið saman og beingerst. Þessar breytingar sjást vel á röntgenmyndum og eru oft grundvöllur að greiningu sjúkdómsins. Meðferð og framtíðarhorfur
Horfurnar eru venjulega góðar hjá flestum sjúklingum með hrygggigt. Í flestum tilvikum segja fyrstu 10 árin til um framhaldið. Ef sjúkdómurinn er slæmur kemur það fljótt í ljós, með miklum bakverkjum vaxandi stirðleika og liðbólgum í útlimaliðum. Aðeins um 10-20% sjúklinga eru svo slæmir að það hefur áhrif á starfsgetu. Í flestum tilvikum er sjúkdómurinn mildur, svarar vel meðferð og hefur ekki áhrif á starfsgetu. Konur fá yfirleitt vægari sjúkdóm en karlar og er það ef til vill skýringin á því hversu greiningartöfin er löng hjá konum.
Mikilvægt er að hrygggigtarsjúklingar fái góða ráðgjöf og þeir séu meðvitaðir um ýmsa þætti í daglegu lífi sem huga þarf að, svo sem að nota réttan kodda, fá nóga hvíld og gæta að vinnuaðstöðu. Mikilvægast er að koma í veg fyrir að hryggurinn stirðni í óheppilegri stöðu. Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Hvað er gigt? eftir EDS
- Hvað er liðagigt og er hægt að lækna hana? eftir Magnús Jóhannsson
- Af hverju stafar vefjagigt og hvað eru margir með sjúkdóminn? eftir EDS
- Hvað er spjaldbein og til hvers er það? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Af hverju stafar brjósklos og hvaða einkenni fylgja því? eftir Sólveigu Dóru Magnúsdóttur
- Hvað orsakar beinþynningu? eftir Magnús Jóhannsson
Þetta svar er unnið af vefsetrinu Doktor.is og birtist hér með góðfúslegu leyfi.