Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju stafar vefjagigt og hvað eru margir með sjúkdóminn?

Magnús Jóhannsson

Vefjagigt er erfitt fyrirbæri sem dálítið skiptar skoðanir eru um. Vefjagigt (fibromyalgia) tengist síþreytu (chronic fatigue syndrome), sum einkennin eru þau sömu og erfitt getur verið að greina á milli þessara sjúkdóma. Sumir telja þessa sjúkdóma stafa af einhverju sjúkdómsferli í bandvef og vöðvum en aðrir telja þá vera af geðrænum toga. Hver sem orsök vefjagigtar kann að vera er hér um að ræða sjúkdóm sem er algengur og getur valdið miklum óþægindum og stundum fötlun. Ef tekið er mið af bandarískum tölum gætu 3-6 þúsund Íslendingar verið með vefjagigt en ég veit ekki til þess að algengi sjúkdómsins hafi verið rannsakað hér á landi. Sjúkdómurinn hrjáir einkum konur á barneignaaldri, þó svo að börn, karlmenn og aldraðir geti einnig orðið fyrir barðinu á honum.

Vefjagigt er langvinnur sjúkdómur sem einkennist af útbreiddum verkjum í bandvef og vöðvum, þreytu og aumum blettum á vissum stöðum á líkamanum. Þessir aumu blettir eru á hnakka, hálsi, öxlum, hrygg, efstu rifbeinum að framan, olnbogum, sitjanda, mjöðmum og innanvert á hnjám (allir blettir eru hægra og vinstra megin, samtals 18). Sumir sjúklinganna þjást einnig af svefntruflunum, morgunstirðleika, iðraólgu, þunglyndi, kvíða eða annarri vanlíðan. Sumir lýsa óþægindunum eins og langvarandi flensu (án sótthita) sem ekki vill gefa sig.



Sjúkdómsgreining er erfið vegna þess að fátt eitt einkennir þennan sjúkdóm og greining byggist því aðallega á að útiloka annað. Sumir sjúklingar með vefjagigt hafa gengið í gegnum erfitt ferli með óteljandi rannsóknum hjá ýmsum læknum þar sem ekkert sérstakt finnst og fá þá tilfinningu að lokum að þetta sé allt kannski bara ímyndun og þeim sjálfum að kenna. Félag bandarískra gigtarlækna hefur sett fram þau skilmerki að sjúklingur sé að öllum líkindum með vefjagigt ef hann hafi haft útbreidda verki í minnst 3 mánuði og sé aumur í minnst 11 af þeim 18 punktum sem lýst er að ofan.

Vefjagigt getur versnað við líkamlega eða andlega streitu, lélegan svefn, slys, andleg áföll eða kalt og rakt umhverfi. Stundum batnar ástandið við það að létta á streitu eða bæta svefn en getur komið aftur ef aðstæður versna. Oft er nóg að útskýra málin fyrir sjúklingnum og hughreysta hann en það sem gefst venjulega best eru hæfileg líkamsþjálfun, sjúkraþjálfun og þunglyndislyf. Það getur verið erfitt að fá auman og þreyttan sjúkling til að stunda líkamsþjálfun og nauðsynlegt er að byrja rólega, til dæmis með sundi og stuttum gönguferðum, og síðan er hægt að bæta við þjálfunina hægt og sígandi. Rannsóknir hafa sýnt ótvírætt gagn af líkamsþjálfun hjá sjúklingum með vefjagigt eða síþreytu. Sjúkraþjálfun með nuddi, heitum bökstrum, teygjuæfingum og fleiru hentar sumum vel. Venjuleg verkjalyf gera yfirleitt ekki gagn en væg þunglyndislyf í litlum skömmtum eru stundum til mikilla bóta. Þeim sem reykja getur batnað mikið við að hætta.

Langtímahorfur eru yfirleitt góðar og flestir geta losnað við óþægindin að miklu eða öllu leyti ef þeir fá viðeigandi meðferð.

Mynd:


Þetta svar er fengið af heimasíðu Magnúsar Jóhannssonar læknis og birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Magnús Jóhannsson

prófessor emeritus í líflyfjafræði við HÍ

Útgáfudagur

9.10.2002

Spyrjandi

Lilja Hrönn Gunnarsdóttir
Borghildur Magnúsddóttir

Tilvísun

Magnús Jóhannsson. „Af hverju stafar vefjagigt og hvað eru margir með sjúkdóminn?“ Vísindavefurinn, 9. október 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2771.

Magnús Jóhannsson. (2002, 9. október). Af hverju stafar vefjagigt og hvað eru margir með sjúkdóminn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2771

Magnús Jóhannsson. „Af hverju stafar vefjagigt og hvað eru margir með sjúkdóminn?“ Vísindavefurinn. 9. okt. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2771>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju stafar vefjagigt og hvað eru margir með sjúkdóminn?
Vefjagigt er erfitt fyrirbæri sem dálítið skiptar skoðanir eru um. Vefjagigt (fibromyalgia) tengist síþreytu (chronic fatigue syndrome), sum einkennin eru þau sömu og erfitt getur verið að greina á milli þessara sjúkdóma. Sumir telja þessa sjúkdóma stafa af einhverju sjúkdómsferli í bandvef og vöðvum en aðrir telja þá vera af geðrænum toga. Hver sem orsök vefjagigtar kann að vera er hér um að ræða sjúkdóm sem er algengur og getur valdið miklum óþægindum og stundum fötlun. Ef tekið er mið af bandarískum tölum gætu 3-6 þúsund Íslendingar verið með vefjagigt en ég veit ekki til þess að algengi sjúkdómsins hafi verið rannsakað hér á landi. Sjúkdómurinn hrjáir einkum konur á barneignaaldri, þó svo að börn, karlmenn og aldraðir geti einnig orðið fyrir barðinu á honum.

Vefjagigt er langvinnur sjúkdómur sem einkennist af útbreiddum verkjum í bandvef og vöðvum, þreytu og aumum blettum á vissum stöðum á líkamanum. Þessir aumu blettir eru á hnakka, hálsi, öxlum, hrygg, efstu rifbeinum að framan, olnbogum, sitjanda, mjöðmum og innanvert á hnjám (allir blettir eru hægra og vinstra megin, samtals 18). Sumir sjúklinganna þjást einnig af svefntruflunum, morgunstirðleika, iðraólgu, þunglyndi, kvíða eða annarri vanlíðan. Sumir lýsa óþægindunum eins og langvarandi flensu (án sótthita) sem ekki vill gefa sig.



Sjúkdómsgreining er erfið vegna þess að fátt eitt einkennir þennan sjúkdóm og greining byggist því aðallega á að útiloka annað. Sumir sjúklingar með vefjagigt hafa gengið í gegnum erfitt ferli með óteljandi rannsóknum hjá ýmsum læknum þar sem ekkert sérstakt finnst og fá þá tilfinningu að lokum að þetta sé allt kannski bara ímyndun og þeim sjálfum að kenna. Félag bandarískra gigtarlækna hefur sett fram þau skilmerki að sjúklingur sé að öllum líkindum með vefjagigt ef hann hafi haft útbreidda verki í minnst 3 mánuði og sé aumur í minnst 11 af þeim 18 punktum sem lýst er að ofan.

Vefjagigt getur versnað við líkamlega eða andlega streitu, lélegan svefn, slys, andleg áföll eða kalt og rakt umhverfi. Stundum batnar ástandið við það að létta á streitu eða bæta svefn en getur komið aftur ef aðstæður versna. Oft er nóg að útskýra málin fyrir sjúklingnum og hughreysta hann en það sem gefst venjulega best eru hæfileg líkamsþjálfun, sjúkraþjálfun og þunglyndislyf. Það getur verið erfitt að fá auman og þreyttan sjúkling til að stunda líkamsþjálfun og nauðsynlegt er að byrja rólega, til dæmis með sundi og stuttum gönguferðum, og síðan er hægt að bæta við þjálfunina hægt og sígandi. Rannsóknir hafa sýnt ótvírætt gagn af líkamsþjálfun hjá sjúklingum með vefjagigt eða síþreytu. Sjúkraþjálfun með nuddi, heitum bökstrum, teygjuæfingum og fleiru hentar sumum vel. Venjuleg verkjalyf gera yfirleitt ekki gagn en væg þunglyndislyf í litlum skömmtum eru stundum til mikilla bóta. Þeim sem reykja getur batnað mikið við að hætta.

Langtímahorfur eru yfirleitt góðar og flestir geta losnað við óþægindin að miklu eða öllu leyti ef þeir fá viðeigandi meðferð.

Mynd:


Þetta svar er fengið af heimasíðu Magnúsar Jóhannssonar læknis og birt með góðfúslegu leyfi....