Sjúkdómsgreining er erfið vegna þess að fátt eitt einkennir þennan sjúkdóm og greining byggist því aðallega á að útiloka annað. Sumir sjúklingar með vefjagigt hafa gengið í gegnum erfitt ferli með óteljandi rannsóknum hjá ýmsum læknum þar sem ekkert sérstakt finnst og fá þá tilfinningu að lokum að þetta sé allt kannski bara ímyndun og þeim sjálfum að kenna. Félag bandarískra gigtarlækna hefur sett fram þau skilmerki að sjúklingur sé að öllum líkindum með vefjagigt ef hann hafi haft útbreidda verki í minnst 3 mánuði og sé aumur í minnst 11 af þeim 18 punktum sem lýst er að ofan. Vefjagigt getur versnað við líkamlega eða andlega streitu, lélegan svefn, slys, andleg áföll eða kalt og rakt umhverfi. Stundum batnar ástandið við það að létta á streitu eða bæta svefn en getur komið aftur ef aðstæður versna. Oft er nóg að útskýra málin fyrir sjúklingnum og hughreysta hann en það sem gefst venjulega best eru hæfileg líkamsþjálfun, sjúkraþjálfun og þunglyndislyf. Það getur verið erfitt að fá auman og þreyttan sjúkling til að stunda líkamsþjálfun og nauðsynlegt er að byrja rólega, til dæmis með sundi og stuttum gönguferðum, og síðan er hægt að bæta við þjálfunina hægt og sígandi. Rannsóknir hafa sýnt ótvírætt gagn af líkamsþjálfun hjá sjúklingum með vefjagigt eða síþreytu. Sjúkraþjálfun með nuddi, heitum bökstrum, teygjuæfingum og fleiru hentar sumum vel. Venjuleg verkjalyf gera yfirleitt ekki gagn en væg þunglyndislyf í litlum skömmtum eru stundum til mikilla bóta. Þeim sem reykja getur batnað mikið við að hætta. Langtímahorfur eru yfirleitt góðar og flestir geta losnað við óþægindin að miklu eða öllu leyti ef þeir fá viðeigandi meðferð. Mynd:
Þetta svar er fengið af heimasíðu Magnúsar Jóhannssonar læknis og birt með góðfúslegu leyfi.