Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Orsakir þessa sjúkdóms eru óþekktar en hann er talinn stafa af flóknu samspili erfða og umhverfisþátta. Liðagigt (rheumatoid arthritis) er venjulega flokkuð sem sjálfsofnæmissjúkdómur en í slíkum sjúkdómum ræðst ónæmiskerfi líkamans gegn eigin frumum og skemmir þær. Sjúkdómurinn er langvarandi, nánast ólæknandi, og lýsir sér með bólgum og skemmdum í liðamótum á útlimum, venjulega sömu liðum hægra og vinstra megin.
Um 1-2% fólks fær sjúkdóminn en hann er 2-3 sinnum algengari hjá konum en körlum. Sjúkdómurinn virðist vera ámóta algengur meðal allra kynþátta, hvar sem er í heiminum. Fólk getur veikst af liðagigt hvenær sem er ævinnar, frá ungabörnum til aldraðra, en algengast er að fólk veikist á aldrinum 25 til 50 ára.
Liðagigt getur byrjað skyndilega en algengara er að sjúkdómseinkennin komi fram hægt og bítandi á löngum tíma. Um er að ræða bólgur og verki í liðum, venjulega mest áberandi í höndum og fótum. Margir liðir eru undirlagðir og oftast er sem fyrr segir um að ræða sömu liðina vinstra og hægra megin (fingur, úlnliðir, tær, ristar, olnbogar og ökklar).
Liðagigt er langvarandi, nánast ólæknandi, og lýsir sér með bólgum og skemmdum í liðamótum á útlimum, venjulega sömu liðum hægra og vinstra megin.
Til viðbótar við bólgur og verki fylgir liðagigt áberandi stirðleiki í liðunum sem varir í meira en hálfa klukkustund að morgni eða eftir langa hvíld. Þessu geta fylgt almenn einkenni eins og þreyta og hitavella. Gigtarhnútar í húðinni, oftast 1-3 cm í þvermál, eru venjulega ekki áberandi í byrjun en koma þegar frá líður og eru nokkuð einkennandi fyrir þennan sjúkdóm.
Þegar tíminn líður fara liðirnir að skekkjast og afmyndast og er þetta oft áberandi á höndum. Liðbrjóskið skemmist og þynnist og beinþynning verður umhverfis sjúka liði. Þegar svo er komið er um meiri eða minni fötlun að ræða og í verstu tilfellunum verður fólk alveg óvinnufært og bundið við rúm eða hjólastól.
Í liðum er fíngerð liðhimna sem klæðir alla innfleti liðarins. Við liðagigt safnast bólgufrumur í þessa liðhimnu og hún þykknar og á hana koma fellingar. Frumur liðhimnunnar og bólgufrumurnar sem þar safnast fyrir vegna liðagigtar gefa frá sér ýmis efni sem stuðla að breytingunum sem verða á liðnum og umhverfi hans, þar með talið bólga, verkur og hreyfihömlun. Mörg þessara efna eru þekkt og má þar nefna ýmis prostaglandín, interlevkín og fleiri efni.
Til skamms tíma hefur athygli manna einkum beinst að prostaglandínum, meðal annars vegna þess að lengi hafa verið þekkt efni sem hamla myndun þeirra í líkamanum. Eitt elsta lyfið af þessari gerð er acetýlsalisýlsýra (til dæmis aspirín og magnýl) en síðan hefur komið á markað fjöldinn allur af nýrri og betri lyfjum af þessum flokki sem nefnist bólgueyðandi gigtarlyf. Öll þessi lyf verka með því að hamla myndun prostaglandína og það dregur úr bólgu og verkjum við liðagigt en þessi lyf hafa því miður lítil áhrif á framgang sjúkdómsins og hafa þar að auki mikið af aukaverkunum.
Frumur liðhimnunnar og bólgufrumurnar sem þar safnast fyrir vegna liðagigtar gefa frá sér ýmis efni sem stuðla að breytingunum sem verða á liðnum og umhverfi hans, þar með talið bólga, verkur og hreyfihömlun.
Önnur lyf sem notuð eru við liðagigt og hægja oftast á framgangi sjúkdómsins eru meðal annars barksterar, gullsölt og metótrexat. Talið er að verkun þessara lyfja við liðagigt byggist einkum á því að þau hamla gegn vissum þáttum í starfsemi ónæmiskerfisins. Þessi lyf geta einnig haft slæmar aukaverkanir og staðreyndin er sú að engin góð lyfjameðferð er til við liðagigt. Ekki má þó gleyma því að mörgum líður betur ef þeir stunda æfingar við hæfi og heit böð eða bakstra.
Nú eru rannsóknir á öðrum efnum en prostaglandínum, sem eiga þátt í liðagigt, farnar að skila árangri. Einna lengst eru komnar rannsóknir á efnunum IL-1 (interlevkín-1) og TNF-a (tumor necrosis factor alfa). Bæði þessi efni eru til staðar í verulegu magni í bólgnum liðum liðagigtarsjúklinga; ef þeim er sprautað í heilbrigða liði valda þau bólgum og brjóskskemmdum en hægt er að draga úr slíkum skemmdum með efnum sem hindra verkanir þeirra. Verið er að þróa efni sem hindra verkanir IL-1 og TNF-a og nota mætti sem lyf en slík efni hafa verið notuð í tilraunum á liðagigtarsjúklingum. Rannsóknirnar hafa gefið góðan árangur og þessi nýja aðferð til lækninga á liðagigt þykir lofa góðu og er spennandi. Menn gera sér vonir um að ný lyf við liðagigt, sem verka á þennan hátt, komi á markað innan fárra ára en alltaf er erfitt að spá um slíkt.
Þekktir eru nokkrir tugir annarra efna en IL-1 og TNF-a sem gætu skipt máli í sambandi við liðagigt og eru rannsóknir á þeim einnig í fullum gangi.
Sjá einnig svar Björns Guðbjörnssonar um iktsýki og grein á Doktor.is um Iktsýki.
Magnús Jóhannsson. „Hvað er liðagigt og er hægt að lækna hana?“ Vísindavefurinn, 23. maí 2001, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1641.
Magnús Jóhannsson. (2001, 23. maí). Hvað er liðagigt og er hægt að lækna hana? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1641
Magnús Jóhannsson. „Hvað er liðagigt og er hægt að lækna hana?“ Vísindavefurinn. 23. maí. 2001. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1641>.