Venjulega voru einungis glæpamenn af lægri stéttum, þrælar og útlendingar krossfestir. Frægasta krossfesting sögunnar er án nokkurs efa krossfesting Jesú, sem lýst er í guðspjöllunum. Hér má auk þess nefna tvær frægar fjöldakrossfestingar. Árið 71 f.Kr. voru á sjöunda þúsund þrælar krossfestir meðfram Appíusarvegi (via Appia) í kjölfar þrælauppreisnar Spartacusar. Lík hinna krossfestu héngu á krossunum löngu eftir að þeir dóu og áttu að vera öðrum víti til varnaðar en herforinginn Marcus Licinius Crassus gaf aldrei skipun um að krossarnir og líkin skyldu tekin niður. Uppreisnarmenn voru einnig krossfestir í umsátrinu um Jerúsalem árið 70 e.Kr. Rómverski herinn hafði setið um borgina í hálft ár undir stjórn Títusar Flaviusar Vespasíanusar, sonar Vespasíanusar keisara, sem varð sjálfur keisari að föður sínum látnum árið 79. Títus lét krossfesta liðhlaupa Gyðinga til að vekja með uppreisnarmönnunum ótta og skelfingu eftir að friðarumleitanir fóru út um þúfur. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvenær ríktu Rómverjar? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hvernig urðu menn skylmingaþrælar og hvað fólst í því? eftir Stefán Gunnar Sveinsson