Hvað voru skylmingaþrælar? Hvaðan komu þeir og hvernig urðu þeir skylmingaþrælar? Hver var besti skylmingaþræll heims?Skylmingaþrælar voru menn sem látnir voru berjast öðru fólki til skemmtunar. Siðurinn átti uppruna sinn hjá Etrúrum og tóku Rómverjar hann síðan upp eftir þeim. Sýningar sem þessar voru upphaflega til þess ætlaðar að heiðra minningu látinna manna en fljótlega þróuðust þær þó yfir í að vera skemmtiefni fyrir alþýðuna, líkt og hnefaleikar nútímans. Fyrstu skrásettu skylmingaleikarnir voru haldnir í Róm árið 264 f. Kr. en þessi alþýðuskemmtun var stunduð þar til hún var endanlega bönnuð árið 404 e. Kr. Þá hafði kristni rutt sér til rúms í Rómaveldi og ekki þótti lengur forsvaranlegt að láta menn berjast öðrum til gamans. Skylmingaþrælar voru oftast stríðsmenn sem Rómverjar höfðu tekið til fanga í herferðum sínum, en einnig tíðkaðist að dæma glæpamenn til þess að stunda skylmingar. Margir skylmingaþrælanna komu frá löndum eins og Gallíu, þar sem nú er Frakkland, en einnig frá Þrakíu, sem í dag tekur til suðurhluta Búlgaríu, austurhluta Grikklands og Evrópuhluta Tyrklands. Sumir skylmingaþrælar voru ekki þrælar í orðsins fyllstu merkingu, heldur sjálfboðaliðar sem sóttust eftir því að starfa innan rómverska skemmtanaiðnaðarins. Þá er einnig talið að konur hafi getað orðið skylmingaþrælar.
Hér má sjá skylmingaþræla í bardaga.
- Er þrælahald einhvers staðar leyft? eftir Guðrúnu D. Guðmundsdóttur.
- Hver er uppruni og saga ólympískra skylminga? eftir Andra Heiðar Kristinsson.
- Gladiator. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- Spartacus. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- Gladiators. Essays on the history and culture of Rome. Encyclopædia Romana.
- Will Durant: Rómaveldi, fyrra bindi, bls. 168-179 (um Spartakus).
- Will Durant: Rómaveldi, seinna bindi, bls. 55-61 (almennt um leiksýningar Rómverja, einkum bls. 59-61 um skylmingaleika).
- Image:Borghese gladiator 1 mosaic dn r2 c2.jpg. Wikimedia Commons.