Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða kenningu um alheiminn hélt Gíordanó Brúnó fyrstur fram?

Þór Jakobsson

Heimspekingurinn Gíordanó Brúnó (1548–1600) hélt fyrstur manna að því er vitað er fram þeirri stórkostlegu kenningu að önnur sólkerfi væru til en okkar eigið: stjörnurnar væru sólir sem umhverfis sveimuðu jarðhnettir eins og okkar eina jörð.

Brúnó er einnig talinn merkur hugsuður fyrir kenningar sínar um óendanlegan alheim og tilvist margra heima. Hann tók kröftuglega undir hinar nýju kenningar Nikulásar Kópernikusar (1473-1543) sem með rannsóknum sínum og útreikningum hafði varpað fyrir róða hinni hefðbundnu heimsmynd um flata jörð í miðju alheims.

Gíordanó Brúnó lét lífið á báli á Blómatorginu (Campo di Fiori) í Róm árið 1600. Þar stendur nú þessi bronsstytta af honum gerð af Ettore Ferrari (1845-1929).

Þótt niðurstöður Kópernikusar kæmu jörðinni af stað á braut umhverfis sólu voru stjörnurnar eftir sem áður taldar staðsettar hátt á himinhvolfi í takmarkaðri fjarlægð. Með ályktun sinni um óendanlegan alheim víkkaði Brúnó út hina nýju heimsmynd. Hann ályktaði að stjörnurnar sem prýddu himinhvelfinguna að næturlagi væru í rauninni fjarlægar sólir og hann hélt því ennfremur fram að umhverfis sólirnar snerust hnettir á borð við jörðina, heimkynni lifandi vera. Hugmynd Brúnós um óendanlegan alheim var heillandi tilgáta sem stangaðist á við ríkjandi heimsmynd. En hin volduga, allsráðandi kirkja í Róm með páfann í fararbrodddi hafnaði kenningunni og ýmsum öðrum skoðunum Brúnós af miklu offorsi. Það reyndist honum afdrifaríkt.

Gíordanó Brúnó er því einnig minnst fyrir hryggilegan og kvalafullan dauðdaga á bálinu sem rannsóknarréttur kirkjunnar kveikti, deyddur sökum þess að hann kvikaði ekki frá skoðunum sínum. Umburðarlyndi var ekki í hávegum haft á þessum tímum. Bæði kaþólska kirkjan og nýtilkomnar kirkjur mótmælenda kepptust við að herða tökin og kæfa í fæðingu tilraunir til frjálsrar hugsunar. Í baráttu þeirra til að koma á eða halda við í Evrópu rétttrúnaði að eigin skilningi var frumskilyrði að halda í heiðri heimspeki miðalda. Frávik frá henni og útleggingum á Biblíunni var guðlast og refsiverð.

Næstu aldir kom hægt og bítandi í ljós við rannsóknir á himinhvolfinu að Brúnó hafði haft mikið til síns máls. Stjarnfræðingar komust að því að stjörnur himins, allar nema reikistjörnurnar, jarðstjörnurnar eins og Jónas Hallgrímsson kallar þær, væru sólir, í mismunandi órafjarlægð. Alheimurinn virðist óendanlegur. Og fyrir tveimur áratugum eða svo gátu vísindamenn loks greint með hjálp nýrrar tækni vísbendingar um jarðhnetti í grennd við hinar fjarlægu sólir. Hver veit nema sönnun lífs í alheimi sé á næsta leiti. Aðrir heimar, hinir óteljandi heimar Brúnós um víðan geim, reyndust vera til.

Mynd:

Höfundur

Þór Jakobsson

veðurfræðingur, fyrrv. verkefnisstjóri hafísrannsókna á Veðurstofu Íslands

Útgáfudagur

29.10.2014

Spyrjandi

Kristjana Sigurðardóttir

Tilvísun

Þór Jakobsson. „Hvaða kenningu um alheiminn hélt Gíordanó Brúnó fyrstur fram?“ Vísindavefurinn, 29. október 2014, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68370.

Þór Jakobsson. (2014, 29. október). Hvaða kenningu um alheiminn hélt Gíordanó Brúnó fyrstur fram? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68370

Þór Jakobsson. „Hvaða kenningu um alheiminn hélt Gíordanó Brúnó fyrstur fram?“ Vísindavefurinn. 29. okt. 2014. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68370>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða kenningu um alheiminn hélt Gíordanó Brúnó fyrstur fram?
Heimspekingurinn Gíordanó Brúnó (1548–1600) hélt fyrstur manna að því er vitað er fram þeirri stórkostlegu kenningu að önnur sólkerfi væru til en okkar eigið: stjörnurnar væru sólir sem umhverfis sveimuðu jarðhnettir eins og okkar eina jörð.

Brúnó er einnig talinn merkur hugsuður fyrir kenningar sínar um óendanlegan alheim og tilvist margra heima. Hann tók kröftuglega undir hinar nýju kenningar Nikulásar Kópernikusar (1473-1543) sem með rannsóknum sínum og útreikningum hafði varpað fyrir róða hinni hefðbundnu heimsmynd um flata jörð í miðju alheims.

Gíordanó Brúnó lét lífið á báli á Blómatorginu (Campo di Fiori) í Róm árið 1600. Þar stendur nú þessi bronsstytta af honum gerð af Ettore Ferrari (1845-1929).

Þótt niðurstöður Kópernikusar kæmu jörðinni af stað á braut umhverfis sólu voru stjörnurnar eftir sem áður taldar staðsettar hátt á himinhvolfi í takmarkaðri fjarlægð. Með ályktun sinni um óendanlegan alheim víkkaði Brúnó út hina nýju heimsmynd. Hann ályktaði að stjörnurnar sem prýddu himinhvelfinguna að næturlagi væru í rauninni fjarlægar sólir og hann hélt því ennfremur fram að umhverfis sólirnar snerust hnettir á borð við jörðina, heimkynni lifandi vera. Hugmynd Brúnós um óendanlegan alheim var heillandi tilgáta sem stangaðist á við ríkjandi heimsmynd. En hin volduga, allsráðandi kirkja í Róm með páfann í fararbrodddi hafnaði kenningunni og ýmsum öðrum skoðunum Brúnós af miklu offorsi. Það reyndist honum afdrifaríkt.

Gíordanó Brúnó er því einnig minnst fyrir hryggilegan og kvalafullan dauðdaga á bálinu sem rannsóknarréttur kirkjunnar kveikti, deyddur sökum þess að hann kvikaði ekki frá skoðunum sínum. Umburðarlyndi var ekki í hávegum haft á þessum tímum. Bæði kaþólska kirkjan og nýtilkomnar kirkjur mótmælenda kepptust við að herða tökin og kæfa í fæðingu tilraunir til frjálsrar hugsunar. Í baráttu þeirra til að koma á eða halda við í Evrópu rétttrúnaði að eigin skilningi var frumskilyrði að halda í heiðri heimspeki miðalda. Frávik frá henni og útleggingum á Biblíunni var guðlast og refsiverð.

Næstu aldir kom hægt og bítandi í ljós við rannsóknir á himinhvolfinu að Brúnó hafði haft mikið til síns máls. Stjarnfræðingar komust að því að stjörnur himins, allar nema reikistjörnurnar, jarðstjörnurnar eins og Jónas Hallgrímsson kallar þær, væru sólir, í mismunandi órafjarlægð. Alheimurinn virðist óendanlegur. Og fyrir tveimur áratugum eða svo gátu vísindamenn loks greint með hjálp nýrrar tækni vísbendingar um jarðhnetti í grennd við hinar fjarlægu sólir. Hver veit nema sönnun lífs í alheimi sé á næsta leiti. Aðrir heimar, hinir óteljandi heimar Brúnós um víðan geim, reyndust vera til.

Mynd:

...