
Íslandskort Guðbrands Þorlákssonar úr kortasafni Abrahams Orteliusar, Theatrum orbis terranum (1590). Ef til vill geta lesendur borið kennsl á nauthveli og rauðkembing á myndinni.
Nú mun ek segja þér, at þetta eru sjóskrímsl tvau. Heitir annat hafgufa, en annat lyngbakr. Er hann mestr allra hvala í heiminum, en hafgufa er mest skrímsl skapat í sjónum. Er þat hennar náttúra, at hún gleypir bæði menn ok skip ok hvali ok allt þat hún náir. Hún er í kafi, svá at dægrum skiptir, ok þá hún skýtr upp höfði sínu ok nösum, þá er þat aldri skemmr en sjávarfall, at hún er uppi. Nú var þat leiðar sundit, er vér fórum á millum kjapta hennar, en nasir hennar ok inn neðri kjaptrinn váru klettar þeir, er yðr sýndist í hafinu, en lyngbakr var ey sjá, er niðr sökk.(21. kapítuli)Trú á slíkar skepnur einskorðaðist ekki við miðaldir. Daninn Peder Hansen Resen nefnir til að mynda bæði vatnaskrímsl í Íslandslýsingu sinni (1684-87) og sjávarferlíki. Mitt í upptalningu á raunverulegum dýrategundum birtist skyndilega hrosshvalur:
kallaður svo af eins konar hrossmakka sem þekur mikinn hluta baks þeirra. Hann er mjög sólginn í mannakjöt, stingur hausnum upp úr sjónum, lætur augnlokin síga svo að augun lokast og hann sér ekkert [...] Sjöunda hvalategund er nauthvalur. Þeir eru nefndir svo af einhverju ógurlegu öskri, líku nautsöskri, sem þeir reka upp þegar þeir eru soltnir, og það af slíkum ofsa að undir tekur í nálægum ströndum. Þeir eru og mönnum sérlega fjandsamlegir, geysast um allan sjó til þess að hremma þá og háma í sig. Þess vegna forðast fiskimenn að fara á sjó ef þeir heyra þetta nautsöskur og sitja þá um kyrrt í landi. Áttunda tegund er einnig fjandsamleg mönnum og kölluð rauðkembingur af rauðleitum lit. Níunda tegund er sú sem dregur nafn af óhrjálegum hrjúfum og skelþöktum skrokk og er kölluð skeljungur. Þeir eru að sjá alþaktir skeljum og þörungum. Þeir verða allt að 60 eða 70 álna langir og eru jafn fjandsamlegir mönnum eins og hinir fyrrnefndu, og því koma þeir á móti skipum á siglingu til þess að þau rekist á þá og hvolfist eða brotni. (155-57)Nefna má einnig töluvert lífsseiga trú á að skrímsli hafist við í Loch Ness og frásagnir af risakolkrabbanum Kraken sem talið hefur verið að leynist einhversstaðar í hafinu umhverfis Noreg og stundum Grænland en þá förum við raunar að nálgast hugmyndir nútímamanna um ógnvalda undirdjúpanna og þá þarf að ákvarða fyrst hvaða merkingu við viljum leggja í orðið skrímsli. Oftast í daglegu tali hefur skrímsli tvenna merkingu, annað hvort sem myndlíking eins og þegar manneskja drýgir glæp sem þykir sérstaklega viðurstyggilegur, eða til að tilgreina yfirskilvitlegan uppruna einhverrar skepnu og þá oftast í listaverki, til dæmis í kvikmynd eða skáldverki.

Risasmokkfiskur ræðst á skip.
- C. G. M. Paxton. „The plural of ‘anecdote’ can be ‘data’: statistical analysis of viewing distances in reports of unidentified large marine animals 1758–2000. Journal of Zoology, 279, 2009.
- Peder Hansen Resen. Íslandslýsing. Ritstj. Jakob Benediktsson. Reykjavík: Sögufélag, 1991.
- „Örvar-Odds saga“. Fornaldarsögur Norðurlanda I. Ritstj. Guðni Jónsson og Bjarni Vilhjálmsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Forni, 1943.
- Japanese videotape capture of a giant squid | Knight Science Journalism Program at MIT.
- Íslandskort. (Sótt 03.06.2014).
- Colossal octopus by Pierre Denys de Montfort. (Sótt 03.06.2014).
- Risasmokkfiskur veiddur. (Sótt 03.06.2014).