Fyrr á öldum hefðu slík fyrirbæri þó heldur verið flokkuð með sjaldgæfum en engu að síður raunverulegum dýrategundum, en skrímsli af klassískari gerð – hálfmennsk skrímsli það er að segja – finnast enn. Stundum er sagt að manneskjur séu skrímsli hafi þær gert eitthvað svo voðalegt að þyki jaðra við ómennsku.4 Fólk sem fremur slíka glæpi virðist ekki glata mennskunni við að fremja þá, heldur er látið sem það hafi í raun aldrei haft snefil af mennsku, heldur farið dulbúið um á meðal fólks eins og óvættur. Og rétt eins og hefðir voru í gildi til að fást við skrímsli fyrr á tíðum svo þau yrðu til friðs, svo sem bæði gilti um íslenskar afturgöngur og austur-evrópskar vampírur að þær þurfti að afhöfða og leggja höfuðið við þjóhnappana, þá er algengt að reynt sé að afmá öll ummerki um glæpi nútímaskrímslisins. Títt heyrist í umræðu um fjöldamorðingja, svo sem Anders Behring Breivik, að þeir séu skrímsli sem eigi ekki skilið að þeirra sé minnst. Stundum er breitt yfir minjarnar til að forða því að pílagrímar hafi þar óviðfelldnar viðkomur, svo sem í Berlín þar sem staðsetningu byrgisins fræga sem Hitler átti sínar hinstu stundir í var haldið ómerktri fram til ársins 2006, en á þeim tíma hafði stærstum hluta byrgisins verið eytt. Svipaðar fréttir hafa borist frá heimalandi Hitlers, Austurríki, þar sem ákveðið hefur verið að rífa ekki hús barnanauðgarans Josefs Fritzl, líkt og áður stóð til, en fylla í staðinn kjallarann þar sem ódæðin áttu sér stað af steinsteypu svo engin hlutbundin minning verði eftir um þann stað.5 Hús nauðgarans Ariels Castro í Cleveland var og jafnað við jörðu þann 7. ágúst 2013 og sagði fyrrum nágranni hans að mikilvægt hefði verið fyrir fólkið í hverfinu að sýna að skrímslið það væri á bak við lás og slá og yrði aldrei hleypt út framar.6
Flókna svarið er því ef til vill þetta: skrímsli verða til þegar varpa þarf ábyrgðinni á vonskuverkum heimsins yfir í aðra vídd þar sem þau verða skiljanlegri, því ef manneskja getur ekki framkvæmt önnur eins ódæði og tekin eru dæmi um hér þá hlýtur gerandinn að vera ómennskur, jafnvel skrímsli. Hvort slíkt yfirvarp er gagnlegt er umdeilt,7 en það að einmitt þetta hugtak „skrímsli“ leiti á varir fólks þegar það stendur frammi fyrir aðstæðum sem það ekki vill horfast í augu við sýnir að minnsta kosti að svipuð hugmynd um hið ómennska og framandlega hefur lifað í hugarheimi mannfólks allt frá fyrstu tíð. Skrímslið er því sálarspegill manneskjunnar og í þeim skilningi er það, eins og það hefur alltaf verið, til. Tilvísanir: 1 The plural of ‘anecdote’ can be ‘data’: statistical analysis of viewing distances in reports of unidentified large marine animals 1758–2000 - Paxton - 2009 - Journal of Zoology - Wiley Online Library. (Skoðað 15.08.2013). 2 Vísir - Telur skrímsli búa í holum í Geirþjófsfirði. (Skoðað 15.08.2013). 3 Sannleiksnefnd um Lagarfljótsorminn | RÚV. (Skoðað 15.08.2013). 4 Skrímsli eða veikir menn? | RÚV. (Skoðað 15.08.2013). 5 BBC News - Josef Fritzl's cellar in Austria concreted in. (Skoðað 15.08.2013). 6 Ariel Castro House Demolition: Crowds Cheer For Destruction Of Cleveland Kidnapper's Home. (Skoðað 15.08.2013). 7 Vísir - Skrímsli og menn. (Skoðað 15.08.2013). Heimildir:
- Ambroise Paré. On Monsters and Marvels. Janis L. Pallister þýddi. University of Chicago Press 1995.
- Ágústínus frá Hippó (St. Augustine). Concerning the City of God Against the Pagans. A new translation by Henry Bettenson with an introduction by John O'Meara. Penguin Books. London 1984.
- Ármann Jakobsson. „Íslenskir draugar frá landnámi til lúterstrúar: inngangur að draugafræðum“. Skírnir 184 (vor). Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík 2010.
- Ísidór frá Sevilla. The Etymologies of Isidore of Seville. Translated, with an introduction and notes, by Stephen A. Barney, W.J. LEwis, J.a. Beach, Oliver Berghof. Cambridge University Press 2006.
- John Block Friedman. 2000. The Monstrous Races in Medieval Art and Thought. Syracuse University Press. Syracuse, NY.
- Jóhann frá Mandeville (John Mandeville). The Book of Marvels and Travels. A new translation by Anthony Bale. Oxford University Press 2012.
- Physiologus. The Icelandic Physiologus. Facsimile edition with an introduction by Halldór Hermannsson. Cornell University Press. Ithaca, New York 1938.
- Plinius eldri (Pliny). Natural History, vol. II. H. Rackham þýddi. Heinemann. London 1961–1975.
- Stephen T. Asma. On Monsters: An Unnatural History of Our Worst Fears. Oxford University Press 2009.
- Tony Thorne. Children of the Night: of Vampires and Vampirism. Indigo. London 2000.