Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ágústínus kirkjufaðir fæddist í bænum Tagaste í Númídíu í Norður-Afríku, 13. nóvember 354. Fæðingarstaður hans heitir nú Souk Ahras og er í Alsír. Faðir hans hét Patrísíus. Hann var heiðinn en orðinn trúnemi og tók skírn síðar á ævinni. Móðir hans hét Móníka og var hún kristin og mikil trúkona og leitaðist við að ala son sinn upp í kristinni trú. Ágúsínus var bráðger og vildi faðir hans koma honum til mennta. Hann hóf skólagöngu í heimabæ sínum en 16 ára var hann sendur til frekara náms til Karþagó sem var fjölmenn borg og glæsileg um þetta leyti. Hann lærði mælskulist og að loknu námi hóf hann kennslu í þeirri grein, fyrst í Karþagó og síðar í Róm og loks í Mílanó.
Ágústínus frá Hippó (354-430).
Í sjálfsævisögu sinni, Játningum, gerir Ágústínus mikið úr léttúð sinni sem ungs manns enda bauð lífið í Karþagó upp á miklar lystisemdir sem Ágústínus segist hafa notið sem mest hann mátti. Í Karþagó tók hann saman við konu og eignaðist með henni son sem hann gaf nafnið Adeodatus, sem þýðir „af Guði gefinn“. Barnsmóðir hans var af lágum stigum og lög ríkisins meinuðu þeim að giftast. En hann var henni trúr og saman bjuggu þau í um þrettán ár.
Ágústínus var leitandi og þegar hann var 19 ára gamall rakst hann á rit eftir Cicero sem nefndist Hortensius sem nú er glatað. Við lestur þess vaknaði þrá hans eftir visku og speki. Hann tók að lesa Biblíuna en gafst fljótlega upp á því og fannst hún ekki svala sinni vitsmunalegu þrá. Latínan á Biblíunni var að hans hyggju of alþýðleg og stíllinn rislítill. Hann gat ekki lesið Biblíuna á frummálunum, hafði leiðst að læra grísku og hebresku lærði hann aldrei.
Ágústínus leitaði ekki til kristinna kennara um skilning á Biblíunni en kynntist þess í stað trúarstefnu Manikea, sem var kennd við persneskan mann Mani að nafni (277 e.Kr). Manikeastefna var róttæk tvíhyggja eða tvíeðlishyggja. Tilveran skiptist að hennar mati í tvö andstæð og eðlisóskyld svið, annars vegar heim ljóssins, sem stjórnað var af góðum ljósverum, og hins vegar heim myrkursins, sem stjórnað var af illum myrkraverum. Heimarnir tveir voru taldir aðgreindir en illu öflunum, sem réðu heimi myrkursins, hafði eitt sinn tekist að brjótast inn í heim ljóssins og ná þaðan í nokkuð af ljósinu. Líkami mannsins var álitinn verk illra afla eins og efnisheimurinn allur og því væri líkaminn illur eins og allt efni. Inni í efnislíkama mannsins leyndist hins vegar brot af ljósinu sem hafði tekist að ræna úr heimi ljóssins og er það sál mannsins. Hjálpræði manna felst í því að menn læri að þekkja guðdómseðli sitt og takist að leysa sálina úr læðingi. Til þess geta menn notið hjálpar guðlegra vera eða milliliða.
Fylgismenn Manikea skiptust í tvo flokka, hina fullkomnu, sem urðu að gæta algers skírlífis og máttu aðeins neyta jurtafæðu, og áheyrendur, sem lutu ekki jafnstrangra reglna um líferni. Ágústínus náði aldrei lengra en að vera áheyrandi og svo fór um síðir að stefna Manikea fullnægði honum ekki, einkum fannst honum kenning þeirra um uppruna hins illa svipta menn frelsi og ábyrgð. Hann yfirgaf því flokk þeirra. Þrítugur að aldri vann hann sem mælskukennari í Róm en starf hans þar og líf var honum mótdrægt og þáði hann stöðu kennara í mælskulist sem honum bauðst í Mílanó. Þar kynntist hann stefnu nýplatonista sem vakti hans heimspekilega áhuga og þá þrá eftir lífsmótandi afstöðu sem rit hafði vakið með honum ungum. Hugtakið heimspeki (philosophia) merkir ást á viskunni og var um þetta leyti notað um leit manna að því sem svalar þrá þeirra eftir sönnum og varanlegum verðmætum. Með því að gefa sig að ást á spekinni getur maðurinn snúið anda sínum frá því að þrá það sem er honum óæðra og dregur hann niður en hefur hann þess í stað upp á við, í átt að hinum guðlega, sanna veruleika. Hann sleit sambúð við barnsmóður sína og bjó í samfélagi heimspekinga sem leituðust við að móta líf sitt til fullkomnunar með því að afneita hjúskap og heimsins gæðum samkvæmt nýplatónskri heimsskoðun.
Í Mílanó var leiðtogi kristinna manna Ambrósíus biskup (um 337-397). Hann var einn fremsti kennimaður kirkjunnar um sína daga, mikill prédikari og skáld. Fyrir prédikun Ambrósíusar kynntist Ágústínus kristinni trú í mynd sem fullnægði vitsmunum hans betur en sú kristna fræðsla sem hann hafði áður notið og Ágústínus sannfærðist um að kristin trú hefði yfirburði yfir bæði trúarbrögð og heimspeki samtíma síns. Yfirburðir kristindómsins fólust að hans mati í því að vera ekki aðeins hugmynd heldur leið til að breyta lífinu. Ágústínus tók skírn af Ambrósíusi.
Litlu síðar hvarf Ágústínus á heimaslóðir og settist fyrst að í fæðingarbæ sínum en var fljótlega kallaður til biskupsembættis í nágrannabænum Hippó sem nú heitir Bone. Það var árið 395 og næstu 35 árin þjónaði hann þar sem biskup að prédikun, kennslu og sálgæslu. Hann skipulagði líf klerka sinna samkvæmt ákveðinni reglu að egypskri fyrirmynd og varð regla hans fyrirmynd munklífis í Vesturkirkjunni. Flest íslensku klaustrin á miðöldum voru af Ágústínusarreglu.
Ágústínus var afkastamikill rithöfundur.
Ágústínus var afkastamikill rithöfundur og höfðu rit hans mikil áhrif á mótun kristindómsins í Vestur-Evrópu. Eitt höfuðrita hans er Um borgríki Guðs (De civitate Dei) sem hann hóf að rita um 410 eftir að Vest-Gotar höfðu herjað á Róm og heiðnir menn héldu því fram að það væri refsing guðanna fyrir að menn höfðu snúið baki við þeim. Þar spyr hann líkt og Snorri goði síðar: „Hverju reiddust goðin þegar …“ og hrekur þessa staðhæfingu með sögulegum skírskotunum. Í ritinu birtist söguskilningur hans sem hafði mikil áhrif á söguskoðun Vestur-Evrópumanna. Að hans mati er það Guð, skaparinn, sem stýrir allri sögu. Hann fjallar líka um illskuna og ver frelsið gegn forlagatrú Manikea.
Annað höfuðrit hans er Játningar (Confessiones) sem komið hefur út í íslenskri þýðingu. Þar lýsir hann ævi sinni í bæn og samtali við Guð (þar af heitið confessiones), íhugar eðli og tilgang mannlífsins og allra hluta og tekst á við ýmis guðfræðileg og heimspekileg vandamál.
Höfuðatriði í guðfræði Ágústínusar er að allt, jafnt hið smæsta sem hið stærsta, sé sköpun Guðs sem ekki aðeins hefur lagt heildarlínur heldur vakir yfir öllu, stóru og smáu. Í heiminum ríkir tiltekið stigveldi þar sem hið andlega er æðra hinu líkamlega. Maðurinn er skapaður í mynd og líkingu Guðs. Hann er ekki bundinn líkamlegum takmörkunum heldur frjáls í anda. Í frelsinu felst líka sú hætta að menn snúi vilja sínum á vit hins takmarkaða og bundna. Þau urðu örlög mannkyns að það í hinum fyrsta manni sneri vilja sínum og þrá gegn skaparanum og til hins skapaða og sú viljaákvörðun hefur mótað sögu mannkyns allt til þessa (uppruna- eða erfðasynd). Guðssonurinn Jesús Kristur gerðist maður til þess að umbreyta þeim illu örlögum svo að maðurinn gæti fundið sína sönnu mynd. En verk sitt vinnur Kristur undir formerkjum frelsisins og kallar á manninn sem viljaveru að umbreyta vilja sínum frá illu til hins góða. Kristin trú og kristið líferni felst í því að sammóta vilja sinn vilja Guðs með hjálp anda hans.
Ágústínus lést 28. ágúst 430.
Myndir:
Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Hver var Ágústínus frá Hippó og hvert var hans framlag til guðfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 28. nóvember 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61316.
Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). (2011, 28. nóvember). Hver var Ágústínus frá Hippó og hvert var hans framlag til guðfræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61316
Einar Sigurbjörnsson (1944-2019). „Hver var Ágústínus frá Hippó og hvert var hans framlag til guðfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 28. nóv. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61316>.