Getið þið sagt mér hvernig draugar líta eða litu út á Íslandi, ekki Hollywood-útgáfan? Er eitthvað fjallað um það í Íslendingasögu og þjóðsögum? Ég er að gera leirskúlptúr við ljóðið Móðir mín i kví kví og mig vantar góða mynd í kollinn minn hvernig barnið (draugurinn) á að hafa litið út!Draugar, líkt og aðrar þjóðtrúarvættir, eru umfram allt breytilegir; ekki þó þannig að þeir megi vera hvernig sem er og í raun ber útlitslýsing þeirra yfirleitt ekki svo mjög vott um ímyndunarafl einstakra sagnaritara eða sagnaþula, því að oftar en ekki eru þeir hefðbundnir og falla að fyrirframmótuðum hugmyndum. Hér getur þó skipt máli hvort verið er að tala um drauga í miðaldabókmenntum eða síðari tíma þjóðtrú. Frægasti draugur íslenskra miðaldabókmennta er án efa Glámur en frá honum segir í Grettis sögu. Í lifanda lífi er Glámi lýst sem svo að hann hafi verið „mikill vexti ok undarligr í yfirbragði, gráeygr ok opineygr, úlfgrár á hárslit“ (Grettis saga Ásmundarsonar 1936: 110). Eftir að Glámur er dauður og afturgenginn er þess getið að hann sé „ólíkr nokkurri mannligri mynd,“ með höfuð „afskræmiliga mikit ok undarliga stórskorit“. Þá er hann sagður sterkur og lögð er áhersla á augun sem hann „hvessir“ og gýtur „harðliga“. Tekið er fram að Gretti hafi aldrei brugðið við nokkra sýn, nema þá er hann sá Glám, þannig að ekki er hægt að segja annað en að nægt rými sé skilið eftir fyrir ímyndunarafl lesenda og áheyrenda sögunnar (sama heimild: 119–121). Í textum frá miðöldum segir einnig víða af svokölluðum haugbúum, sem eru þá dauðir menn sem ganga aftur sem draugar og búa í haugum sínum. Stundum er þeim lýst þannig að þeir sitji á stól í haugnum, séu svartir/bláir/fölir á lit og digrir, auk þess sem þeir rymja og blása eldi. Í Hrómundar sögu Gripssonar er haugbúanum lýst sem svo að hendur hans hafi verið brenglaðar og neglurnar beygst aftur. Öðrum haugbúa er lýst þannig að hann éti hund sinn og hest með „tannagangi“ miklum og í einhverjum tilvikum eru þeir sagðir skella gómum eða kjöftum, sem minnir á lýsingar af draugum sem sagðir eru gnísta tönnum. Magnaða lýsingu af viðureign manns og haugbúa er að finna í Andra rímum, þar sem útlitslýsingar eru staðlaðar en þar að auki sagt að rödd draugsins sé digur, dimm og grimm (AM 604 4to: XI. ríma 44–78). Haugbúunum fylgir, eðlilega, mikill daunn.

Til eru mismunandi gerðir af draugum og fer útlit þeirra oft eftir gerð draugsins eða dauðdaga. Afturgöngur eru til dæmis oft í hvítum líkklæðum, sjódauðir menn eru iðulega skinnklæddir og sjóblautir en útburðir hafa oft utan um sig þau klæði sem þeir voru vafðir í þegar þeir voru bornir út. Myndin sýnir Gretti og Glám.
- Eiginlegar fylgjur manna (sem geta verið látnir menn eða dýr en þó aðallega eins konar svipir eiganda fylgjunnar). Þessar fylgjur eru oft fyrirboðar, það er gera boð á undan komu fylgjueigandans.
- Hins vegar geta fylgjur verið ættardraugar eða bæjardraugar; oft eru þetta mórar og skottur sem fylgja mönnum, ættum, bæjum eða sveitum – og eru yfirleitt illir viðureignar. Mórarnir, það er karlkyns draugarnir, áttu að hafa verið í mórauðri úlpu eða peysu en margir þeirra eru þar að auki með hatt eða lambhúshettu. Skotturnar bera nafn sitt af höfuðfati sínu; þær bera skaut á höfði sér en skautið lafir oftast niður og minnir á skott. Sumar skottur eru auk þess í rauðum sokkum.
Kalt er mér í klettagjá að kúra undir steinum. Burt er holdið beinum frá, borinn var eg í meinum (Ólafur Davíðsson 1978–80: I 200).Heimildir:
- Andra rímur. Óútgefinn texti í AM 604 4to. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
- Grettis saga Ásmundarsonar. 1936. Íslenzk fornrit VII. Útg. Guðni Jónsson. Hið íslenzka fornritafélag.
- Hrómundar saga Gripssonar. 1829. Fornaldar sögur Nordrlanda II. Útg. C.C. Rafn. Kaupmannahöfn.
- Jón Árnason. 1954–61. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I–VI. Útg. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga. [Ný útg.]
- Ólafur Davíðsson. 1978–80. Íslenzkar þjóðsögur I–IV. Útg. Þorsteinn M. Jónsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga. [3. útg.]
- Grettir og Glámur að glíma. (Sótt 15.05.2014).