Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er uppruni íslenska spaðafaldsins eða skauts í íslenska faldbúningnum?

Æsa Sigurjónsdóttir

Spaðafaldurinn er frá seinni hluta 18. aldar. Á vef Þjóðbúningaráðs er honum lýst svona: Hann var úr hvítu lérefti sem var nælt með títuprjónum yfir pappa eða vír. Spaðinn var breiðastur fremst og mjókkaði aftur og niður í faldfótinn sem var festur við litla lérefts- eða prjónahúfu. Utan um faldfótinn og húfuna var vafinn mislitur silkiklútur.

Spaðafaldur og skaut, eða skautafaldur, er höfuðbúnaður kvenna og eru hluti af svokölluðum þjóðbúningum. Spaðafaldur og skautafaldur eru samt svo ólík fyrirbæri að það er útilokað að rugla þeim saman. Spaðafaldurinn er frá seinni hluta 18. aldar en lítið er vitað um uppruna hans.1 Öðru gildir um skautafaldinn. Hann er hönnun Sigurðar Guðmundssonar málara (1833-1874) frá því um 1858.

Faldurinn er hluti af skautbúningnum sem Sigurður hannaði, en fyrsti skautbúningurinn var að öllum líkindum saumaður árið 1859. Því miður hefur enginn faldur varðveist frá tíma Sigurðar, en við vitum samt af teikningum hans og ljósmyndum hvernig hann leit út. Sigurður skráði í vasabók sína árið 1861 að föstudaginn 21. október 1859 hafi skautbúningurinn fyrst verið borinn sem brúðarbúningur. Skömmu síðar, 13. nóvember, gengu tvær konur til altaris í Dómkirkjunni íklæddar búningnum. Búningarnir voru þá að minnsta kosti orðnir tveir. Þá er líklegt að fleiri konur hafi saumað sér búning veturinn 1859-60 og kemur þá fyrst í hugann Hólmfríður Þorvaldsdóttir (1812-1876), því hún var mikil hannyrðakona og studdi Sigurð í einu og öllu. Hún situr fyrir á ljósmynd klædd skautbúningi. Myndin var tekin í Reykjavík í ágústmánuði árið 1860 af J. E. Tenison-Woods (1832-1889).2

Þá saumaði Sigurlaug Gunnarsdóttir (1828-1905) í Ási í Hegranesi, í Skagafirði, sinn fyrsta skautbúning veturinn 1859-60. Hún klæddist honum í brúðkaupi séra Davíðs Guðmundssonar (1834-1905) og Sigríðar Ólafsdóttur Briem (1839-1920) þann 19. júní 1860. Sigurlaug var mikil hannyrðakona og saumaði nokkra skautbúninga. Einn er varðveittur á Þjóðminjasafni Íslands, en það er ekki sá fyrsti sem hún saumaði. Því miður vantar höfuðbúnaðinn, skautið.

Teikningar í minnisbókum Sigurðar sýna að hann leitaði víða fanga þegar hann teiknaði skautafaldinn. Þær sýna að hann hafði í huga djúpa húfu sem hylur höfuðið og eyrun og minnir bæði á forngríska hjálma og húfu sem komst í tísku á tímum frönsku byltingarinnar.3 Sigurður útskýrir að faldurinn skyldi fyrst og fremst vera fagur og táknrænn.
Hin gamla austurlenska beyging á honum hefir þau áhrif á andlitið að svipurinn verður hreinn og tignarlegur, og er það einkenni á mörgum íslenskum konum, svo manni gæti komið til hugar að Aþena væri þar komin með sinn grúfanda hjálmkamb...4
Faldur Sigurðar minnir einnig óneitanlega á djúpa frambeygða topphúfu frönsku lýðveldisgyðjunnar sem spratt fram hálfnakin á frönskum prentmyndum byltingarárið 1848. Byltingarhúfan átti uppruna í frelsishúfunni pileus,5 sem var tákn leysingja. Á tímum frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789 yfirtók toppmjó rauð alþýðuhúfa frelsismerkingu hinnar rómversku húfu og úr varð hin svokallaða bonnet de liberté eða frelsishúfan.

Sigurður Guðmundsson, málari, hannaði skautbúning á árunum 1858-1860. Hvítur faldur var á höfði og yfir honum faldblæja.

Sigurður lagði mikla áherslu á klassíska fegurð faldhúfunnar en minnist hvergi á táknræna frelsismerkingu. Ef til vill kaus hann að láta liggja á milli hluta hversu sterkt uppreisnartákn húfan var, og það er engan veginn víst að íslenskar konur hafi gert sér grein fyrir þeirri merkingu, þótt flestir útlendingar tengdu form hennar við frelsishugmyndir.6 Þess í stað hélt Sigurður því á lofti að söguleg tengsl væru á milli faldhúfunnar og höfuðbúnings kvenna á miðöldum. Hann rakti sögulegan uppruna faldsins bæði til krókfalds Guðrúnar Ósvífursdóttur í Laxdælu og að hvítu vafi síðmiðalda, sem var í raun af allt annarri ætt, tískufyrirbæri sem barst til Íslands á seinni hluta 15. aldar, þegar hvítt lín var merki auðs og valda. Sigurður þekkti ekki nákvæma lýsingu á faldi í Íslandslýsingu, sem oftast er kennd við Odd Einarsson (1559-1630) biskup, frá því um 1590, því handritið var óþekkt á 19. öld. Þar kemur fram að faldur síðmiðalda var vafningur en ekki húfa.7

Faldur Sigurðar líktist engu sem þá var í tísku. Þess vegna átti hann í erfiðleikum með að sannfæra konur um fegurð hans og flestum þótti faldurinn ljótur. Sigurður svaraði gagnrýni manna með þeim röksemdum að þetta lag væri bæði það eðlilegasta og fallegasta og þar að auki það elsta,
það sama og maður sér á elstu íslensku myndum, …þar að auki er þetta lag miklu eðlilegra en gamli faldurinn því nýi faldurinn er eins konar frambeygð húfa eins og gamli trafafaldurinn en breiði gamli faldurinn líkist engu og er ekki eldri en frá um 1770.8

Bæði faldurinn og skautbúningurinn í heild sinni eru gott dæmi um það hvernig sögulegar og bókmenntalegar tilvísanir birtust í klæðnaði víða um lönd á 19. öld. Þess vegna mætti tengja hönnun Sigurðar við kenningu bresku sagnfræðinganna E. J. Hobsbawm (1917-2012) og T. O. Ranger (1929-) um “Invented Traditions” eða tilbúnar hefðir. Einnig mætti sjá í skautafaldi Sigurðar fagurfræðilegt endurlit til grískrar formfræði og þá undir áhrifum Johann Joachim Winckelmann (1717-1768), sem dáðist að tign og fullkomnun grískra meistaraverka.

Sigurður dvaldist 10 ár í Kaupmannahöfn og var þar í námi við Konunglega fagurlistaskólann (Det kongelige Academie for de skiønne Kunster). Hugmyndir hans um skautbúninginn eru mótaðar af lestri Íslendingasagna og þeirri þjóðernisrómantík sem litaði skilning manna á sögunum. Þess vegna hélt Sigurður því fram að faldurinn væri sögulega rótgróinn landinu, táknrænn, þjóðlegur samnefnari tungumáls, skáldskapar og náttúru. Búningurinn birtist í myndlíkingum skáldanna, þar sem Íslandi er ýmist líkt við hvítklædda eða grænklædda konu. Skautbúningurinn var allegóría fyrir Ísland í sumarskrúða, faldurinn ímynd jöklanna, blómasaumurinn og jurtalitirnir eru tákn gróðurs og gullbalderingin táknaði sólina. Sigurður vitnaði í þjóðskáldið Eggert Ólafsson, í Bjarna Thorarensen, Sveinbjörn Egilsson, Sigurð Breiðfjörð og Jónas Hallgrímsson: „Úti sat und hvítum / alda faldi / fjallkonan snjalla;“ með þeim orðum að þeir hafi „skáldlega helgað landinu búninginn, og búninginn skáldskapnum og gjört það óaðskiljanlegt“.

Sjálfur orti hann langan brag um samruna búningsins við sögu og náttúru þar sem „faldurinn yfir / alhvítur vofir, / sem hvítir jöklar / af heiðmyrkri þoku.“9

Tilvísanir og myndir:
  • 1 Elsa E. Guðjónsson: "Íslenskur brúðarbúningur í ensku safni", Árbók hins íslenska fornleifafélags1984, 1985, bls. 49-80.
  • 2 Inga Lára Baldvinsdóttir, Ljósmyndir úr Fox-leiðangrinum 1860, Þjóðminjasafnið, 2002.
  • 3 Sögu byltingarhúfunnar má lesa hjá Aileen Ribeiro, Fashion in the French Revolution, B. T. Batsford, London 1988.
  • 4 Sigurður Guðmundsson, Um kvennbúnínga á Íslandi að fornu og nýju, Ný Félagsrit, 1857, 52.
  • 5 E.H. Gombrich, The Dream of Reason. Symbols of the French Revolution, The British Journal for Eighteenth Century Studies, 2, no. 3 (1979), 187–205. Endurprentuð í The Uses of Images. Studies in the Social Function of Art and Visual Communication, Phaidon Press, London 1999, 162-183.
  • 6 Bríet Bjarnhéðinsdóttir og Laufey Valdimarsdóttir sýndu íslenska búninga á kvennaþingi í Búdapest 1913. Bandaríska kvenréttindakonan Charlotte Perkins Gilman lýsti búningnum á eftirfarandi hátt í blaði sínu The Forerunner, í ágúst 1913: „The quaint Icelandic full dress was much admired. The head dress is a small white satin “liberty cap” in a golden coronet … surrounded by a sort of bridal veil. Freedom, modesty and beauty, courage and intellect – there was a warm welcome to Iceland.“ Bríet Héðinsdóttir, Strá í hreiðrið, 224-225, 338.
  • 7 Oddur Einarsson, Íslandslýsing/Qualiscunque descriptio Islandiae, formáli eftir Jakob Benediktsson, Menningarsjóður 1971, 101.
  • 8 Þjms. SG:02:215. Bréf frá Sigurði Guðmundssyni til séra Sigurðar Gunnarssonar á Hallormsstað, Reykjavík 2. júlí 1873.
  • 9 Sigurður Guðmundsson, Skáldskaprinn og kvennbúníngrinn íslenzki, Þjóðólfur 1860, 14. nóv, 9-10. Jónas Hallgrímsson, Ritsafn I, 147.
  • Myndir: Íslenski þjóðbúningurinn - Þjóðbúningaráð. (Sóttar 11.12.2012).

Höfundur

Æsa Sigurjónsdóttir

dósent í listfræði við HÍ

Útgáfudagur

19.12.2012

Spyrjandi

Emma Laigle

Tilvísun

Æsa Sigurjónsdóttir. „Hver er uppruni íslenska spaðafaldsins eða skauts í íslenska faldbúningnum?“ Vísindavefurinn, 19. desember 2012, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62841.

Æsa Sigurjónsdóttir. (2012, 19. desember). Hver er uppruni íslenska spaðafaldsins eða skauts í íslenska faldbúningnum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62841

Æsa Sigurjónsdóttir. „Hver er uppruni íslenska spaðafaldsins eða skauts í íslenska faldbúningnum?“ Vísindavefurinn. 19. des. 2012. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62841>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er uppruni íslenska spaðafaldsins eða skauts í íslenska faldbúningnum?

Spaðafaldurinn er frá seinni hluta 18. aldar. Á vef Þjóðbúningaráðs er honum lýst svona: Hann var úr hvítu lérefti sem var nælt með títuprjónum yfir pappa eða vír. Spaðinn var breiðastur fremst og mjókkaði aftur og niður í faldfótinn sem var festur við litla lérefts- eða prjónahúfu. Utan um faldfótinn og húfuna var vafinn mislitur silkiklútur.

Spaðafaldur og skaut, eða skautafaldur, er höfuðbúnaður kvenna og eru hluti af svokölluðum þjóðbúningum. Spaðafaldur og skautafaldur eru samt svo ólík fyrirbæri að það er útilokað að rugla þeim saman. Spaðafaldurinn er frá seinni hluta 18. aldar en lítið er vitað um uppruna hans.1 Öðru gildir um skautafaldinn. Hann er hönnun Sigurðar Guðmundssonar málara (1833-1874) frá því um 1858.

Faldurinn er hluti af skautbúningnum sem Sigurður hannaði, en fyrsti skautbúningurinn var að öllum líkindum saumaður árið 1859. Því miður hefur enginn faldur varðveist frá tíma Sigurðar, en við vitum samt af teikningum hans og ljósmyndum hvernig hann leit út. Sigurður skráði í vasabók sína árið 1861 að föstudaginn 21. október 1859 hafi skautbúningurinn fyrst verið borinn sem brúðarbúningur. Skömmu síðar, 13. nóvember, gengu tvær konur til altaris í Dómkirkjunni íklæddar búningnum. Búningarnir voru þá að minnsta kosti orðnir tveir. Þá er líklegt að fleiri konur hafi saumað sér búning veturinn 1859-60 og kemur þá fyrst í hugann Hólmfríður Þorvaldsdóttir (1812-1876), því hún var mikil hannyrðakona og studdi Sigurð í einu og öllu. Hún situr fyrir á ljósmynd klædd skautbúningi. Myndin var tekin í Reykjavík í ágústmánuði árið 1860 af J. E. Tenison-Woods (1832-1889).2

Þá saumaði Sigurlaug Gunnarsdóttir (1828-1905) í Ási í Hegranesi, í Skagafirði, sinn fyrsta skautbúning veturinn 1859-60. Hún klæddist honum í brúðkaupi séra Davíðs Guðmundssonar (1834-1905) og Sigríðar Ólafsdóttur Briem (1839-1920) þann 19. júní 1860. Sigurlaug var mikil hannyrðakona og saumaði nokkra skautbúninga. Einn er varðveittur á Þjóðminjasafni Íslands, en það er ekki sá fyrsti sem hún saumaði. Því miður vantar höfuðbúnaðinn, skautið.

Teikningar í minnisbókum Sigurðar sýna að hann leitaði víða fanga þegar hann teiknaði skautafaldinn. Þær sýna að hann hafði í huga djúpa húfu sem hylur höfuðið og eyrun og minnir bæði á forngríska hjálma og húfu sem komst í tísku á tímum frönsku byltingarinnar.3 Sigurður útskýrir að faldurinn skyldi fyrst og fremst vera fagur og táknrænn.
Hin gamla austurlenska beyging á honum hefir þau áhrif á andlitið að svipurinn verður hreinn og tignarlegur, og er það einkenni á mörgum íslenskum konum, svo manni gæti komið til hugar að Aþena væri þar komin með sinn grúfanda hjálmkamb...4
Faldur Sigurðar minnir einnig óneitanlega á djúpa frambeygða topphúfu frönsku lýðveldisgyðjunnar sem spratt fram hálfnakin á frönskum prentmyndum byltingarárið 1848. Byltingarhúfan átti uppruna í frelsishúfunni pileus,5 sem var tákn leysingja. Á tímum frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789 yfirtók toppmjó rauð alþýðuhúfa frelsismerkingu hinnar rómversku húfu og úr varð hin svokallaða bonnet de liberté eða frelsishúfan.

Sigurður Guðmundsson, málari, hannaði skautbúning á árunum 1858-1860. Hvítur faldur var á höfði og yfir honum faldblæja.

Sigurður lagði mikla áherslu á klassíska fegurð faldhúfunnar en minnist hvergi á táknræna frelsismerkingu. Ef til vill kaus hann að láta liggja á milli hluta hversu sterkt uppreisnartákn húfan var, og það er engan veginn víst að íslenskar konur hafi gert sér grein fyrir þeirri merkingu, þótt flestir útlendingar tengdu form hennar við frelsishugmyndir.6 Þess í stað hélt Sigurður því á lofti að söguleg tengsl væru á milli faldhúfunnar og höfuðbúnings kvenna á miðöldum. Hann rakti sögulegan uppruna faldsins bæði til krókfalds Guðrúnar Ósvífursdóttur í Laxdælu og að hvítu vafi síðmiðalda, sem var í raun af allt annarri ætt, tískufyrirbæri sem barst til Íslands á seinni hluta 15. aldar, þegar hvítt lín var merki auðs og valda. Sigurður þekkti ekki nákvæma lýsingu á faldi í Íslandslýsingu, sem oftast er kennd við Odd Einarsson (1559-1630) biskup, frá því um 1590, því handritið var óþekkt á 19. öld. Þar kemur fram að faldur síðmiðalda var vafningur en ekki húfa.7

Faldur Sigurðar líktist engu sem þá var í tísku. Þess vegna átti hann í erfiðleikum með að sannfæra konur um fegurð hans og flestum þótti faldurinn ljótur. Sigurður svaraði gagnrýni manna með þeim röksemdum að þetta lag væri bæði það eðlilegasta og fallegasta og þar að auki það elsta,
það sama og maður sér á elstu íslensku myndum, …þar að auki er þetta lag miklu eðlilegra en gamli faldurinn því nýi faldurinn er eins konar frambeygð húfa eins og gamli trafafaldurinn en breiði gamli faldurinn líkist engu og er ekki eldri en frá um 1770.8

Bæði faldurinn og skautbúningurinn í heild sinni eru gott dæmi um það hvernig sögulegar og bókmenntalegar tilvísanir birtust í klæðnaði víða um lönd á 19. öld. Þess vegna mætti tengja hönnun Sigurðar við kenningu bresku sagnfræðinganna E. J. Hobsbawm (1917-2012) og T. O. Ranger (1929-) um “Invented Traditions” eða tilbúnar hefðir. Einnig mætti sjá í skautafaldi Sigurðar fagurfræðilegt endurlit til grískrar formfræði og þá undir áhrifum Johann Joachim Winckelmann (1717-1768), sem dáðist að tign og fullkomnun grískra meistaraverka.

Sigurður dvaldist 10 ár í Kaupmannahöfn og var þar í námi við Konunglega fagurlistaskólann (Det kongelige Academie for de skiønne Kunster). Hugmyndir hans um skautbúninginn eru mótaðar af lestri Íslendingasagna og þeirri þjóðernisrómantík sem litaði skilning manna á sögunum. Þess vegna hélt Sigurður því fram að faldurinn væri sögulega rótgróinn landinu, táknrænn, þjóðlegur samnefnari tungumáls, skáldskapar og náttúru. Búningurinn birtist í myndlíkingum skáldanna, þar sem Íslandi er ýmist líkt við hvítklædda eða grænklædda konu. Skautbúningurinn var allegóría fyrir Ísland í sumarskrúða, faldurinn ímynd jöklanna, blómasaumurinn og jurtalitirnir eru tákn gróðurs og gullbalderingin táknaði sólina. Sigurður vitnaði í þjóðskáldið Eggert Ólafsson, í Bjarna Thorarensen, Sveinbjörn Egilsson, Sigurð Breiðfjörð og Jónas Hallgrímsson: „Úti sat und hvítum / alda faldi / fjallkonan snjalla;“ með þeim orðum að þeir hafi „skáldlega helgað landinu búninginn, og búninginn skáldskapnum og gjört það óaðskiljanlegt“.

Sjálfur orti hann langan brag um samruna búningsins við sögu og náttúru þar sem „faldurinn yfir / alhvítur vofir, / sem hvítir jöklar / af heiðmyrkri þoku.“9

Tilvísanir og myndir:
  • 1 Elsa E. Guðjónsson: "Íslenskur brúðarbúningur í ensku safni", Árbók hins íslenska fornleifafélags1984, 1985, bls. 49-80.
  • 2 Inga Lára Baldvinsdóttir, Ljósmyndir úr Fox-leiðangrinum 1860, Þjóðminjasafnið, 2002.
  • 3 Sögu byltingarhúfunnar má lesa hjá Aileen Ribeiro, Fashion in the French Revolution, B. T. Batsford, London 1988.
  • 4 Sigurður Guðmundsson, Um kvennbúnínga á Íslandi að fornu og nýju, Ný Félagsrit, 1857, 52.
  • 5 E.H. Gombrich, The Dream of Reason. Symbols of the French Revolution, The British Journal for Eighteenth Century Studies, 2, no. 3 (1979), 187–205. Endurprentuð í The Uses of Images. Studies in the Social Function of Art and Visual Communication, Phaidon Press, London 1999, 162-183.
  • 6 Bríet Bjarnhéðinsdóttir og Laufey Valdimarsdóttir sýndu íslenska búninga á kvennaþingi í Búdapest 1913. Bandaríska kvenréttindakonan Charlotte Perkins Gilman lýsti búningnum á eftirfarandi hátt í blaði sínu The Forerunner, í ágúst 1913: „The quaint Icelandic full dress was much admired. The head dress is a small white satin “liberty cap” in a golden coronet … surrounded by a sort of bridal veil. Freedom, modesty and beauty, courage and intellect – there was a warm welcome to Iceland.“ Bríet Héðinsdóttir, Strá í hreiðrið, 224-225, 338.
  • 7 Oddur Einarsson, Íslandslýsing/Qualiscunque descriptio Islandiae, formáli eftir Jakob Benediktsson, Menningarsjóður 1971, 101.
  • 8 Þjms. SG:02:215. Bréf frá Sigurði Guðmundssyni til séra Sigurðar Gunnarssonar á Hallormsstað, Reykjavík 2. júlí 1873.
  • 9 Sigurður Guðmundsson, Skáldskaprinn og kvennbúníngrinn íslenzki, Þjóðólfur 1860, 14. nóv, 9-10. Jónas Hallgrímsson, Ritsafn I, 147.
  • Myndir: Íslenski þjóðbúningurinn - Þjóðbúningaráð. (Sóttar 11.12.2012).
...